ein

Ein-stök flensa

 

 

Ein-stök er búin að liggja í svínflensu undanfarið og varla lyft höfði frá kodda. Líkamleg óþægindi og vanlíðan er eitt... en vanmátturinn gagnvart því að geta ekki hugsað um börnin mín er ennþá verri. Ég er ekki svo heppin að hafa ömmur og afa á næstu grösum, né heldur frænkur eða frændur. Besta vinkona mín í bænum er á leið til útlanda á föstudaginn og ég lái henni það ekki að halda sig í öruggri fjarlægð frá mér. Riddarinn er til þjónustu reiðubúinn en hann er með veikan ungling heima fyrir, sjálfur nýstiginn upp úr þessari sömu flensu og svo getur hann ekki komið inn í daglega umönnun minna barna því hann er ennþá tiltölulega ókunnugur fyrir þeim.

Þetta er ekki skemmtilegt.. en tekur enda. Bara flensa - ekkert alvarlegra Smile


Ein-staklega pirruð

Þessa dagana er ég óvenju pirruð. Óvenju pirruð miðað við mitt lundarfar því ég er almennt lífsglöð og ekki mikið fyrir drama eða svartsýnisraus. Það er samt farið að þykkna ansi mikið í mér yfir stöðunni í þessu þjóðfélagi. Ég viðurkenni alveg að ég hef ekki verið að fylgjast með öllum fréttatímum undanfarið ár, né hef ég nennt að velta mér upp úr hverri ákvörðun eða umræðu sem fram hefur farið á Alþingi. En afleiðingarnar af hruninu eru farnar að svíða ansi sárt á eigin skinni í dag og mér finnst satt að segja ansi svart framundan.

Án þess að fara út í hvert smáatriði í mínum einkahögum þá get ég samt upplýst það að ég er ekki ein af þeim óheppnu sem voru búin að fjárfesta með hjálp svokallaðra myntkörfulána, né var ég skuldsett upp fyrir höfuð þegar hrunið varð síðasta haust. Ég þótti í ansi góðum málum sem einstæð móðir fyrir ári síðan. Keypti mér m.a. húsnæði á frekar vægu verði með það fyrir augum að hafa rými til að flikka upp á pleisið í rólegheitum og einnig var ætlunin að geta andað án þess að vera í endalausri fjárhagslegri spennitreyju. Ég hef nær alltaf þurft að berjast í bökkum fjárhagslega og upplifað tíma þar sem eingöngu síhækkandi yfirdráttur og yfirkeyrt visa-kort kom í veg fyrir sult á heimilinu. Ég hef líka upplifað það að hafa hreinlega ekki átt í mig né á, tíma þar sem ég þurfti að róta í gegnum alla vasa og krukkur á heimilinu til að öngla saman í rafmagnsreikninginn til að komast hjá því að lokað yrði fyrir rafmagnið, þurft að böðlast með börn og bónus-poka í strætó því bíllinn var bilaður og enginn peningur fyrir viðgerð o.s.frv. 

Fjárhagurinn hafði vænkast á síðustu árum en ég get ekki sagt að ég hafi "notið" þess þar sem önnur mál voru mér ofar í huga og mér mun mikilvægari en peningar. Síðasta haust þegar ég var loksins að komast út úr andlegri vanlíðan eftir skipbrot í hjónabandinu þóttist ég sjá fram á bjartari tíma. Loksins. Ég ætlaði að verja næstu árum í að njóta lífsins með börnunum mínum, nostra við nýja heimilið okkar og ferðast þegar tækifæri væri til. En hvernig er staðan í dag? Ég skulda eingöngu íbúðasjóðslán (og það mun lægra en flestir) og námslánið mitt. Ég á ekki bíl á bílaláni, né önnur neyslulán. Ég er heldur ekki með yfirdrátt og enginn á neitt inni hjá mér í dag. Aftur á móti hefur spariféð farið jafnt og þétt í neyslu heimilisins og þessi mánaðarmótin þurfti ég að semja um visareikning - eitthvað sem ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur af í mörg ár. Þess má geta að á þeim reikningi var enginn óþarfi, eingöngu matarinnkaup og bensínsopi á bílgarminn. Ég ligg yfir reikningunum mínum með smásjá þessa dagana og reyni að finna glufur. Þessa stundina er útlitið þannig að ég á 90 þúsund eftir af launum + meðlagi þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Ætli það nægi fyrir mat og bensíni? Ég veit að ég fór með 80 þús í þann pakka fyrir hrun Frown Þá vantar t.d. eitthvað fyrir fatainnkaupum og ýmis önnur útgjöld sem óumflýjanleg eru á barnaheimili. (tannlæknir, læknir, lyfjakostnaður, afmælisgjafir, íþróttaiðkun, tónskóli o.s.frv.)

Auðvitað veit ég að ég er alls ekki í verstu stöðunni og ég þekki vel til fólks sem er í síversnandi stöðu frá einum mánuði til þess næsta og sjá enga leið út úr vandanum. Ég er alls ekki að meina að ég sé verst stödd í þjóðfélaginu því það veit ég vel að er langt frá lagi. En undanfarið hef ég samt verið í smá sjálfsvorkunn yfir því að ég hélt að loksins fengi ég aðeins að njóta án þess að hafa sífelldar áhyggjur. Ég hef aldrei haft það þannig og fannst bara allt í lagi að ég fengi að upplifa það.. sorry eigingirnina Blush Eftir að sjálfsvorkunnartímabilinu lauk þá komst mín í baráttuhaminn og núna á bara að finna leið til að bæta stöðuna.

Ég á örugglega eftir að vera með einhverjar vangaveltur um þessa hluti á næstunni og er alveg til í að fá athugasemdir og ábendingar frá ykkur. Núna væri ég t.d. mikið til í að heyra frá öðrum hvað þið eyðið í mat og bensín fyrir ykkar heimili (fjölskyldustærðin og aðrar aðstæður mega gjarnan fylgja). Með því að ræða þessa hluti saman getum við hugsanlega lært eitthvað hvert af öðru og þá náð að gera lífið léttara í leiðinni. Cool


Litið til baka

Ég hef verið að lesa fyrri færslur og er núna búin að lesa 30 af 121 Smile

Það sem er mér efst í huga eftir þann lestur er m.a.:

  1. Vanlíðanin áður sem ég var blessunarlega búin að gleyma. Það rifjuðust upp allir þessir morgnar þar sem ég vildi helst breiða upp fyrir haus og höndlaði ekki að takast á við það sem beið mín. Núna er hver dagur fullur af gleði og tilhlökkun og ævintýrum og yndislegheitum :) Auðvitað get ég verið þreytt á morgnana eins og aðrir og að sjálfsögðu er ekkert ALLT algjör dásemd.. en það er svo mörgum sinnum auðveldara að díla við það heldur en áður Grin
  2. Vanlíðan í vinnunni. Dagarnir þar sem ég þurfti að berjast til að halda andlitinu og var stundum farin að hvæsa á fólkið í kringum mig þegar vanlíðanin var sem verst. Labbandi um með grímu alla daga... Í dag kem ég brosandi og glöð í vinnuna og fólk hefur á orði hvað mér líði greinilega vel.
  3. Börnunum líður greinilega betur. Þau eru rólegri og í betra jafnvægi og við eigum yndislega tíma saman Halo

Ég er sannfærð um að það skref sem við tókum fyrir rúmu ári var það rétta fyrir okkur öll. Ég hefði sjálf aldrei talið að ég ætti eftir að sjá skilnað sem lausn og ég barðist lengi gegn því að sjá að það gæti verið svarið í okkar tilfelli. En svona er lífið.


I'm back :D

Sælar elskurnar.

Ég var alveg dottin úr blogg-gírnum en um síðustu helgi fór ég að flakka um á minni eigin síðu og lesa skriftirnar meira og minna frá upphafi. Það var ansi fræðandi og ég held að ég hafi fengið bloggáhugann aftur Smile

En núna er einhver "lumbra" í mér (eins og amma hefði orðað það) svo ég ætla að skríða í ból.

Skriftirnar bíða aðeins lengur.. en ég ætla að kíkja á ykkur, elsku bloggvinir, strax á morgun Happy


Dásamlega líf

Ég hef ekki gefið mér tíma til að blogga í háa herrans tíð.

Sem betur fer er ástæðan góð Smile Lífið hefur leikið við mig undanfarið og þessa dagana nýt ég þess að sumarið er að taka völdin í lífi mínu... að öllu leiti Cool 

Síðustu dagar hafa einkennst af tiltekt og hreinsunum ýmiss konar. Ég hef verið að taka lóðina í gegn, húsið, bílinn... og svo fer að koma röðin að geymslunni og svo skápum og einstaka skúffum þar sem vill safnast eitt og annað. En ég ætla bara að nota rigningadagana og kuldaköstin í tiltektina innanhúss Wink Maður verður að nýta sumarið eins og hægt er til útiveru Joyful 

Ástin mín, Riddarinn, á sinn þátt í hamingju minni þessa dagana InLove Við verðum sífellt nánari og þrátt fyrir að aðstæður setji okkur nokkuð þröngar skorður í tilhugalífinu þá koma þær samt ekki í veg fyrir að við hittumst Tounge Ég dáist alltaf meira og meira að þessum yndislega manni sem ég var svo heppin að hitta og skil ennþá ekkert í því að hann skuli hafa gengið laus svona lengi Shocking Við konur erum reyndar ótrúlega duglegar við að elta rugludallana og óþokkana en sjáum ekki gullmolana í kringum okkur Whistling

Njótið sumarsins elskurnar mínar. Ég ætla engu að lofa um skriftir á næstunni en ætla mér samt að reyna eftir fremsta megni að setja einhverja punkta hingað inn annað slagið. Grin


Á bleiku skýi

Skilaboð frá Sporðdrekanum ýttu við mér .. ég er alveg búin að vanrækja bloggið undanfarið.

Ég var búin að skrifa slatta en missti það út í klaufaskap og held ég bara geti ekki gefið mér tíma til að skrifa það allt aftur Frown 

Í grófum dráttum; ég hef haft brjálæðislega mikið að gera.. vinnan með ansi miklu álagi sem hefur á stundum verið að gera út af við mig, heimilið og börnin með tilheyrandi uppákomum og verkefnum og svo ástarlífið sem er í fullum blóma InLove 

Ég skrifa meira fljótlega, þarf núna að ganga frá skattaskýrslunni en það verk hefur heldur betur staðið í mér.. meiri fj.. hvað þetta þarf að vera flókið!! Ég þurfti náttúrulega að díla við og skilgreina eitt og annað varðandi skilnaðinn og þetta hefur allt tekið tíma sinn. Vona að ég losi mig við þetta fyrir fullt og allt fyrir nóttina.

 

 


Þreyta... eða ólétta?...

Flökurleiki og tilfinningasemi hafa sett mark sitt á síðustu vikur hjá mér. Ég var orðin alveg sannfærð um að ég væri ólétt! Því fylgdi dálítill tilfinningarússibani en þrátt fyrir hversu stutt við Riddarinn höfum verið svona náin þá var þetta undarlega notaleg tilhugsun. Ég mannaði mig á endanum upp í að ræða þetta við hann og varð ekki fyrir vonbrigðum með hans viðbrögð. Hann tók þessu með mestu ró og fullvissaði mig um að hann stæði 100% með mér sama hvað ég vildi gera í málinu og að við myndum finna út úr þessu í sameiningu. Þegar til kom reyndist óléttan hugarburður einn og vonbrigðin komu meira á óvart en upphaflegar vangaveltur um hugsanlega fjölgun. Svona er maður skrítinn!

Flökurleikinn hefur ekki yfirgefið mig, við bættust bara túrverkir líka :( Ég hef líka verið ofsalega þreytt og orkulaus. Það hefur verið mikið álag á mér undanfarið sem getur spilað inn í en ég skil alls ekki þetta heilsuleysi og hef áhyggjur af því. Ég dreif mig í nudd í vikunni og það gerði mér rosalega gott. Ég fór svo aftur í gær eftir vinnu og fer einu sinni enn fyrir Páskahátíðina. Það og góð hvíld um hátíðarnar verða vonandi til þess að rétta stöðuna af. Annars verð ég að leita til læknis.

 

 


Tilhugalíf..

 

Tilhugalíf á fimmtugsaldri.. börn innifalin!!

Ég er að spá í að gefa út bók um málefnið. Það er dálítið furðuleg tilfinning að vera í þessum sporum. Að sumu leiti upplifi ég mig eins og ég sé aftur orðin 14-15 og sé að pukrast með fyrsta skotið. Það er líka ótrúlega flókið að finna stundir til að hitta elskuna sína þegar börn eru í spilinu (sérstaklega þegar maður er ennþá að reyna að halda þeim fyrir utan málið).

Eins og áður hefur komið fram erum við bæði einstæðir foreldrar, ég með börn á yngri stigum grunnskóla en hann með unglinga. Þar sem ég og Maðurinn erum nýskilin þá er eðlilegt að börnunum okkar finnist enginn annar aðili koma til greina í sambandi með öðru hvoru okkar. Ég hef heldur ekki mannað mig upp í að segja Manninum frá Riddaranum enda hefur mér fram að þessu ekki fundist það koma honum við. Í gærkvöldi vorum við aftur á móti bæði boðin í sama afmælið og fórum ekki þangað sem par en það hefur líklega ekki farið framhjá neinum á staðnum að eitthvað væri í gangi hjá okkur. Fljótt flýgur fiskisaga og allt það.. ég má alveg eiga von á því að börnin fari að frétta eitthvað, Maðurinn eða fjölskyldan. Þá kemur annar partur af því að vera í þessari stöðu á þessum aldri. Ég er orðin nógu fullorðin (eða hvað?) til að stjórna mínu einkalífi sjálf en einhvern veginn virðist það samt vera þannig að einkalíf manns kemur svo mörgum öðrum á einhvern hátt við.

Riddarans megin erum við með annars konar vandamál. Unglingur sem á auðveldara með að átta sig á hlutunum en börnin mín og er núna búinn að leggja saman 2 og 2 og fá út pottþétta 4 í stöðunni! Unglingar eru almennt ekki mikið til í að vita nokkuð um einkalíf foreldra sinna og í okkar tilfelli er þetta flóknara þar sem ég umgengst unglinginn umrædda heilmikið. Unglingurinn er EKKI sáttur með stöðu mála og brást fyrst við með því að sýna mér dónaskap og skæting. Riddarinn tók á því og síðan hafa samskipti mín og unglingsins fallið í fyrra far (sem hefur alltaf verið gott). En núna um helgina hefur unglingurinn verið í uppreisn við pabba sinn og það hefur haft mikil áhrif á okkur bæði.


Status report

Það er orðið ansi langt síðan ég hef bloggað. Á þessum tíma er búið að vera hrikalega mikið að gera hjá mér, mikið álag og ég hef átt ótal margar svefnlitlar nætur. Vinnan á stærstan þátt í þessu álagi en svo koma líka til persónulegri aðstæður, ýmis peningamál, tilfinningaflækjur barnanna og alvarlegt þunglyndi náins fjölskyldumeðlims.

Riddarinn hefur lag á að vera til taks á réttan hátt.. þessi elska. Það hljómar kannski furðulega að líkja þessu saman en mér dettur í hug þjónn á veitingastað. Þjónn sem í alvöru kann sitt fag. Þekkið þið ekki þessa týpu þjóna sem þið vitið ekki af fyrr en akkúrat á þeirri stund sem þið þurfið á þeim að halda? Nærvera þeirra er ekki áberandi en þið vitið samt af þeim og vitið að þið getið treyst á að þeir komi þegar þörf krefur. Góður þjónn er sá sem er kominn að borðinu áður en þú ert farin að leita að honum. Þeta virkar kannski eins og ég noti manninn bara þegar á þarf að halda en það er alls ekki þannig. Við förum mjög varlega í hlutina enda bæði með börn á heimilinu sem þarf að taka tillit til og bæði með skilnaði á bakinu og ekki alveg til í að ana út í nýtt samband. Svo hefur verið mikið að gera hjá okkur báðum og því ekki margar stundir lausar. En við sendum hvort öðru sms í tíma og ótíma skrifum tölvupósta þegar tími gefst til að kvöldi og/eða morgni og eigum eitt og eitt vink í gegnum bílrúðu á ferð okkar um bæinn. Þegar ég tala um að hann sé alltaf til taks, þá meina ég að hann er einstaklega naskur á það hvernig mér líður og hefur stundum hitt á að senda mér eitthvað akkúrat þegar ég þarf mest á því að halda.

Annars höfðum við ekki hist síðan á konudeginum þegar hann færði mér blóm og við áttum spjallið góða sem ég nefndi síðast en loksins í fyrrakvöld höfðum við tækifæri til að hittast og það var alveg yndislegt InLove Notalegt spjall, knús og kúr.. og kelerí.. allt voðalega sætt og notalegt. En ekki lengi.. við höfðum ekki hist í þrjár vikur og allar póstsendingarnar höfðu heldur betur kynt undir..þannig að kvöldið endaði í nokkurra klukkutíma eldheitu ástarlífi. W00t Núna held ég að ég sé orðin fíkill!! Ég vil meira..!! Hvernig gat ég lifað án kynlífs í mörg ár?


Friður í sálinni

Ég fann frið. Er búin að vera hægt og rólega á uppleið síðan á laugardagskvöld og í dag fann ég fullkominn frið aftur. Góð tilfinning.

Það er samt ekki eins og ég hafi tekið einhverja agalega dýfu eða sokkið niður í dýpsta þunglyndi. Það var bara óþægileg tilfinning að átta sig á að "bata" er ekki náð.

Riddarinn sagði við mig að ég mætti eiga von á svona bakslagi lengi ennþá.. það væri a.m.k. hans reynsla. Við áttum stutt en ofsalega notalegt og innilegt spjall á sunnudaginn. Ég fann á þessum tímapunkti að það var gott fyrir mig að taka skref til baka og bara hreinlega "geyma" þessar tilfinningar sem hafa verið að brjótast um í mér. Svo hef ég farið yfir það í rólegheitum .. svona inn á milli atriða í daglega lífinu. Í dag fór ég síðan í nudd og kom út svo yndislega og notalega afslöppuð.

Núna sakna ég hans. Það er líka bara góð tilfinning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband