Færsluflokkur: Bloggar
21.2.2009 | 11:23
Panicking
Þegar maður er búinn að eiga marga góða daga og farinn að njóta lífsins til fulls, þá jafnast það á við högg í magann að reka sig á það að maður er alls ekki orðinn heill.
Mitt í vímunni yfir því hvað það væri yndislegt að njóta, langa og hafa þessa dásamlegu athygli og hlýju .. þá þurfti bara smá atvik til að missa fótanna. Ég geri mér í raun fulla grein fyrir því að þreyta er að spila inn í viðbrögðin hjá mér og að ég þarf líka bara að ræða málin til að fá hlutina á hreint. Það sem er mér efst í huga núna er í raun ekki ástæðan fyrir því að ég "panikkaði" heldur það að ég skyldi gera það yfir svo litlum hlut. Í kjölfarið finnst mér ég óörugg, lítil og smá.. alveg upp á nýtt.
Það er vont.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2009 | 23:12
Lífið er dásamlegt :D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2009 | 16:49
Skot? Ást? Eða gredda?
Deitin mín þrjú undanfarið hafa öll endað á kynlífi! Ég veit ekki alveg hvort það er gott eða slæmt.. þ.e. jú kynlíf er gott en það hljómar dálítið illa að fara á fyrsta deit og enda það á kynlífi.. fara svo á annað deit með annarri manneskju helgina eftir og það endar líka á kynlífi..!! Ég er jú orðin dálítið svelt á þessu sviði og mörg ár af engu geta kannski kallað fram einhvern dímon í manni. Ég vil taka það fram að fyrsta deitið var "leikur" af beggja hálfu og engar væntingar um neitt annað. Það er því enginn sár eftir þá reynslu eða vonast eftir einhverju meiru.
Deit 2 og 3 eru annað mál. Eftir marga mánuði af sms-hér og mætast á götu-þar ákvað ég að þiggja boð Riddarans um deit. Ég viðurkenni alveg að hafa hugleitt að það gæti leitt til einhvers en hafði samt ekki mikla trú á því fyrirfram. En vá hvað drengurinn tók mig með trompi! Mér leið eins og drottningu allt kvöldið. Hann sá til þess að mig skorti ekkert í mat, drykk eða öðru.. passaði upp á að mér yrði ekki kalt, bægði frá mér óspennandi félagsskap (á mjög nettan hátt) og gerði ekki nokkrar athugasemdir við það þó ég hyrfi í langan tíma (óformlegur fundur vinkvenna sem drógst á langinn vegna skemmtilegheita fundarkvenna ). Það kvöld endaði með kaffibolla og skemmtilegu spjalli og svo ljúfu en eldheitu kynlífi Næstu daga vorum við í sms og tölvupóstsambandi. Nær daglega beið mín eitthvað notalegt þegar ég opnaði póstinn minn og ég get ekki neitað því að það var ljúft. Seinna deitið okkar var svo í gærkvöldi. Langt og gott spjall og svo eins og eftir bendingu fórum við að kyssast og voilá... Bara geggjað Hann þurfti svo að fara heim áður en dagur rann en þegar ég fór á fætur í morgun beið mín voðalega sætur póstur.
Ég veit satt að segja ekki hversu mikið tilfinninga- og kynlífssvelti spilar inn í hjá mér þessa dagana. Ég nýt þess að hafa þessa athygli og umhyggju og er svo sannarlega til í meira. Ég er samt ennþá skíthrædd við að vera of fljót á mér út í eitthvað sem skilur einhvern eftir í sárum. Við höfum bæði gengið í gegnum skilnað og erum bæði einstæðir foreldrar. Þar af leiðandi skiljum við hvort annað mjög vel en að sama skapi erum við líka að glíma við ýmislegt sem flækir hlutina og gerir það að verkum að við getum ekki hist þegar okkur sýnist eða hvernig sem okkur sýnist.
En ég þarf líklega að fókusera á það sem ég sagði í síðustu færslu; njóta og lifa og hætta að pæla of mikið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2009 | 22:53
Gaman að lifa
Það er bara allt í gangi hjá minni. Búið að vera ansi pökkuð dagskrá og barasta allt jafn skemmtilegt. Aukavinnan sem ég tók að mér hefur gefið mér meira en ég hefði ímyndað mér, Borgarferðin var vel heppnuð, vinkonuhittingurinn skemmtilegur, saumó algjörlega dásamlegur.. hvað var það meira.. já ég fór á deit! Ég er m.a.s. búin að fara á deit nr 2 og er á leið á deit nr 3!!
Ég er að reyna að hugsa ekki of mikið þessa dagana, heldur gera meira af því að bara njóta og lifa lífinu án þess að hugsa of langt fram í tímann eða reyna endalaust að reikna út líkurnar á þessu eða hinu.
Lífið er dásamlegt ....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.1.2009 | 21:57
Brjáluð dagskrá..
Já það er bara alveg vitlaust að gera hjá manni þessa dagana.. vinnan, heimilið, börnin.. já og ýmislegt annað. Ég er búin að koma mér í smá aukastarf og það er bara hrikalega spennandi. Framundan á næstunni er tónleikaferð, heimsókn í höfuðborgina, vinnutörn, matarboð (hjá mér), vinkonuhittingur, saumaklúbbur, blind date.. já þetta er m.a.s. allt á dagskrá næstu vikuna!! Þetta verður spennandi tími, þó hann eigi örugglega eftir að taka á líka þar sem suma daga verður varla pláss fyrir tilhlýðilegan nætursvefn. Ég efast um að ég skrifi hér á bloggið á meðan á þessu stendur. Kem með fréttaskot að þessu öllu loknu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2009 | 18:07
Pollýanna á lyfjum
Í gærkvöldi tók ég þá ákvörðun að dagurinn í dag yrði GÓÐUR.
Ég svaf lítið sem ekkert í nótt. Margar ástæður og ég ætla ekkert að fara út í smáatriðin. En ég vakti börnin með bros á vör og gantaðist í þeim yfir morgunmatnum.
Dagurinn bauð upp á þolinmæðisprufur af ýmsu tagi.. ég tæklaði þær líka með bros á vör.
Undir lok vinnudagsins hættu sellurnar að vinna! Jeps.. gerðu bara verkfall! Það var alveg sama hvað ég rembdist.. athyglin fór út og suður og augun ranghvolfdust af þreytu. Ég gerði grín að ástandinu við vinnufélagana og labbaði heim á leið í vetrarkuldanum.
Þegar ég var nýlögð af stað heim fór ég að finna til í öðrum fætinum. Ég veit bara ekkert hvað kom fyrir hann en ég sárfinn til í fætinum og haltraði alla leiðina heim. Ég haltraði m.a.s. líka í hverfisverslunina og aftur heim!.. gerði líka nett grín að því.
Þegar heim kom reif ég mig úr sokk og komst að því að ofan á ristinni er glæsilegur marblettur, ég get ekki með nokkru móti kreppt tærnar og ekki stigið niður á tábergið.. það er allt bólgið! Ég ligg því bara uppi í sófa og viðra tásurnar.. :D
Það fær EKKERT að eyðileggja daginn fyrir mér.. hann er VÍST GÓÐUR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.1.2009 | 14:31
Janúar; RÆKTIN..
Jamm og já.. þetta verður yfirskrift janúarmánaðar: RÆKTIN...
Ég fór að fara í ræktina á milli jóla og nýárs (gat ekki beðið með að byrja nýtt ár með stæl) og hef staðið mig nokkuð vel. Þessa helgina ætlaði ég að fara ofan í saumana á mataræðinu en hef ekkert komist í þær pælingar. Búin að vinna eins og berserkur enda barnlaus helgi og þá get ég hagað mér eins og mér sýnist (lesist: sofna seint, vakna seint, hugsa bara um mig og vinna á fáránlegum tímum). Ég þarf að negla niður ræktartíma í komandi viku áður en ég geng til náða í kvöld því stærsta málið er að finna tíma þar sem ekkert getur komið í veg fyrir að ég fari.
En.. þegar ég tala um RÆKT.. þá meina ég ekki bara brennsluæfingar og lyfta lóðum. Ég ætla nefnilega líka að gera eitthvað í því að rækta aðrar hliðar.. sálina og andlegu hliðina. Í gærkvöldi fór ég í matarboð til góðra vina og sat þar við rauðvínssötur og spjall fram eftir kvöldi. Það var yndælt og gaf mér mikið. Ég finn alveg að ég hef tilhneygingu til að skríða heim í skjól þegar vinnu sleppir. Skríða bara upp í sófa með tölvuna í fanginu og sjónvarpsfjarstýringuna í næsta nágrenni. Að sumu leiti þarf ég á þessum friði að halda eftir vinnuna (og suma daga meira en aðra), en ég verð samt að passa mig á því að gæðastundir með góðum vinum gefur mér mun meira en tölvusamskipti og sjónvarpsgláp þó slíkt geti verið ágæt leið til "tæmingar".
Ég upplifi þennan tíma núna sem dálítið tómlegan. Ég hrærist í hálfgerðu "engu", sinni störfum og skyldum hálf vélrænt og er eiginlega hvorki hamingjusöm né óhamingjusöm. Það hefur hvarflað að mér að þetta sé lognið á undan storminum, en ég ætla að hætta að hugsa á neikvæðu nótunum svo ég ÆTLA að trúa að þetta sé fyrsta skrefið í átt að sælutímum. Meira eins og þetta séu eftirköst eftir það sem á undan er gengið og ég upplifi tómleika af því að ég þarf ekki að vera að berjast í gegnum daginn, andlega og líkamlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2009 | 14:07
Árið 2008 endanlega kvatt... með lítilli eftirsjá..
Ég var búin að lofa áramótauppgjöri en það hefur heldur betur staðið í mér. Á tímabili var það mér hreinlega ofviða að fara yfir árið því það rifjaði upp alltof margar sárar minningar. Ég geymdi það því aðeins. Svo var líka að þvælast fyrir mér að þetta yrði bara væl og sorg og söknuður og erfitt.. og ekkert jákvætt. En maður vill jú byrja nýtt ár fullur jákvæðni og bjartsýni.
Ég hef stundum skrifað dagbók og á dagbókarskrif síðan um síðustu áramót. Í dag finnst mér alveg hræðilegt að lesa þessi skrif en á sama tíma get ég glaðist yfir að ég er ekki í sömu sporum í dag. Mér leið hræðilega um síðustu áramót og janúar var svo erfiður að ég man varla eftir honum. Í febrúar átti ég stórafmæli sem ég var engan vegin fær um að halda upp á. Ég ákvað að fresta öllum veisluhöldum og sú veisla hefur ekki verið haldin ennþá. Aftur á móti fann ég vel þennan dag hvað ég á marga góða að því þrátt fyrir allt varð dagurinn ógleymanlegur. Febrúar var að öðru leiti næstum jafn erfiður og janúar.. örlítið léttari á tilfinningasviðinu þó. Í mars tókum við hjónin ákvörðun um að skilja og þá byrjaði ég að blogga. Sá mánuður var í raun og veru ekki sá erfiðasti en það tók verulega á að tilkynna sínum nánustu um stöðuna. Ég varð líka lasin í þessum mánuði sem ég skrifaði algjörlega á álagið. Apríl var mánuðurinn þar sem þurfti að takast á við viðbrögð ættingjanna og það var mjög erfitt.. en lagaðist eftir hreinskilnar samræður. Börnin þurftu líka sitt á þessum tíma en við ræddum þetta við þau þarna um mánaðarmótin Apríl/Maí. Á þessum tíma var að komast meira jafnvægi á hlutina innra með mér þó mér liði engan veginn vel ennþá. Ég var ennþá á lyfjum til að takast á við kvíða (fór á þau í Febrúar) og notaði svefntöflur annað slagið til að ná að hvílast. Í Júní var mér farið að líða betur og þá hætti ég að nota öll lyf. Júní og júlí voru nokkuð þægilegir. Rólegir en lítill sumarleyfisfílingur þetta sumarið af ýmsum ástæðum. Í Ágúst keypti ég húsnæði og vann í því eins og berserkur.. og amma dó Það var mjög erfiður tími. September var brjáluð vinna.. heima og heiman og mikið álag, bæði andlegt og líkamlegt. Október var mjög svipaður. Nóvember var mjög erfiður því ofan á annað álag urðu tvö andlát í fjölskyldunni og það var bara mjög erfitt að takast á við það eftir það sem á undan var gengið. Í dag sit ég uppi með þá tilfinningu að ég hafi ekki staðið nógu þétt við bakið á einni af mínum bestu vinkonum þegar hún missti pabba sinn en ég átti ekkert eftir til að gefa á þessum tíma. Ég skreið í skjól eins og sært dýr og sleikti sárin. Desember var frekar skrítinn mánuður. MJÖG erfiður fyrri hluti en seinni hlutinn friðsamari og eiginlega hálfgerður lognpollur eftir storminn. Það var bæði ljúft og sárt. Í rólegheitunum og friðnum sem jólin buðu upp á hafði ég nógan tíma til að hugsa og það var oft mjög erfitt. Ég fékk holskeflu tilfinninga yfir mig. Jólin voru jól sorgar og einmanaleika. Ekki misskilja mig.. ég á marga góða að og ég naut samverustunda með börnunum mínum og öðrum ástvinum. Ekki síst eftir að hafa misst náinn ættingja svo stuttu fyrir jól.. þegar maður gerir sér grein fyrir hversu skyndilega ástvinirnir geta horfið frá manni, þá einhvern veginn metur maður það sem maður á betur. Ég held að þessi tómleikatilfinning og sorg hafi bara verið eðlileg eftirköst eftir allt sem hafði gengið á yfir árið.
Með þessari sorglegu rullu segi ég endanlega skilið við árið 2008 og tek á móti 2009 sem verður hamingjuríkt og gleðilegt ár :D
Bloggar | Breytt 11.1.2009 kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2008 | 14:45
Gleðilegt ár
Óska ykkur öllum ánægjulegra áramóta í faðmi ástvina. Megi nýja árið færa ykkur ótal yndislegar stundir, gleði og uppfylltar óskir.
Áramótauppgjörið kemur síðar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.12.2008 | 03:19
Jólin
Þessi jól hafa verið hálf-undarleg fram að þessu. Einhvern veginn gengur mér illa að finna jólagleðina þó ég geti ekki sagt að þetta hafi verið alveg ónýtir dagar. Aðfangadagskvöld var nokkuð ljúft og börnin nutu þess eins og best verður á kosið. Dagarnir síðan þá hafa gengið nokkuð rólega fyrir sig.. kannski fullrólega hvað mig varðar. Ég hef ekki farið í nema eitt jólaboð og ef eitthvað er þá hef ég upplifað mig frekar eina og yfirgefna þessa dagana. Ég veit að partur af þessu er algjörlega undir mér sjálfri komið því ég gæti jú alveg gert eitthvað í því að bjóða einhverjum til mín og hef m.a.s. fengið heimboð sem ég hef ekki þegið. Tómleikatilfinningin og eirðarleysið er að öllum líkindum til komið vegna breyttra aðstæðna frá síðustu jólum. Það hefur svo margt breyst á þessu ári, ekki bara skilnaður og flutningur.
Ég fann um daginn dagbókarfærslur í tölvunni minni frá því um síðustu jól og áramót. Það var ansi fróðlegur lestur. Reyndar enginn skemmtilestur.. en fróðlegur. Meira um það síðar en ég get a.m.k. glaðst yfir því að þó ég finni fyrir einmanaleika, sorg og þess háttar tilfinningum núna.. þá var vanlíðanin mun verri fyrir ári síðan. Þetta hlýtur að vera á réttri leið?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)