ein

Færsluflokkur: Bloggar

Ljúfa líf

 

Lífið er gott þessa dagana. Ég á reyndar dálítið erfitt með að komast í jólagírinn en að öðru leyti er lífið bara dásamlega ljúft núna. Ég tryggði mér smá "mömmufrí" því börnin hafa verið hjá pabba sínum í heila viku. Enn ein jarðarförin fór fram í þessari viku og það var mjög erfið upplifun að öllu leyti. Það er svo erfitt þegar fólk kveður svona skyndilega og fyrir aldur fram. En.. að öðru leyti hef ég notað þessa daga til að hvíla mig, dekstra við mig, vinna þegar mér hentar og bara spjalla við gott fólk. Ég finn mjög vel í dag hversu gott ég hef haft af þessari hvíld.

Við Maðurinn höfum spjallað dálítið mikið saman þessa dagana og það er mjög gott andrúmsloft og þægilegt á milli okkar. Hann ætlar að koma til mín í næstu viku og hjálpa mér með smá framkvæmdir hér heima við því ég vil ekki biðja pabba minn að koma til að hjálpa mér eins og staða er. Hann er búinn að missa svo mikið undanfarnar vikur og má alveg við því að slaka svolítið á og safna í orkusarpinn sinn, þessi elska. Við Maðurinn erum líka búin að ákveða að vera saman á Aðfangadagskvöld með börnin okkar. Ég ræddi þetta við Sála sem sagði að sambandinu okkar á milli væri þannig háttað að það væri bara gott fyrir börnin ef við veldum þessa leið.

Í síðustu færslu óskaði ég eftir ást.. svei mér þá ef það er ekki eitthvað farið að gerast þar W00t Meira um það síðar.. ég ætla að kanna þetta betur áður en ég fer að gaspra ..


Ást óskast

 

Ég held ég hafi sjaldan þráð það svona heitt að verða ástfangin. Það er svo langt síðan ég var það síðast og ég verð að viðurkenna að stundum fyllist ég vonleysi yfir að það eigi eftir að gerast aftur. Það er náttúrulega ekkert langt síðan ég skildi en það er í raun og veru aukaatriði. Þetta er bara tilfinning sem lætur mig ekki í friði.

Nýlega áttum við Maðurinn gott spjall og ég held að við höfum náð að gera upp síðustu atriðin í okkar sambandi. Ég fékk a.m.k. ákveðna lausn frá hlutum sem hafa verið að angra mig og leið mikið betur á eftir.

Annars hafa síðustu vikur tekið verulega á og fátt af því sem þar hefur gengið á snertir skilnaðinn. Þetta hefur verið tími endalausra áfalla, jafnt vegna hversdagslegra hluta á borð við rafmagnsbilana og pípulagnavesens sem og alvarlegri og sárari atburða eins og andláts, ekki bara eins heldur fleiri ástvina. Ég hef þess vegna lítið skrifað á bloggið undanfarið og það sem ég hef skrifað hefur verið ansi mikið litað af þessum erfiða tíma. Ég ætlaði mér alltaf að skrifa á þetta blogg það sem snerti skilnaðinn og mínar tilfinningar í kringum hann og þess vegna vildi ég vera nafnlaus. Ég hef því ekki verið að tíunda alla þessa atburði hér á síðunni en vildi nefna þetta núna þar sem ég sé að depurðin skín í gegn í skrifum mínum og fólk er að rangtúlka það.  Ég er EKKI í sorg vegna skilnaðarins, né dvel ég í fortíðinni hans vegna. Ég finn alveg fyrir sorg annað slagið vegna þess sem er liðið, en ég vil ekki að þið haldið að ég liggi heima hjá mér útgrátin í ástarsorg. Ég syrgi marga þessa dagana og felli mörg tár en þau eru ekki vegna Mannsins eða þess sem við áttum saman.

Ég vona svo innilega að þið séuð að njóta aðventunnar betur en ég og minni ykkur aftur á að knúsa ástvinina oft og segja þeim hvað þeir skipta ykkur miklu máli. Við vitum ekki hvað við fáum mikinn tíma saman. Kærleiksknús til ykkar allra Heart

 


Farðu vel með þig

Falleg orð og vel meint. Ég er að velta því fyrir mér af hverju ég fæ að heyra þetta svona oft þessa dagana. Ekki það að ég kunni ekki að meta umhyggju fólks en ég hlýt að bera það með mér að vera að bresta.. eða hrynja.. eða .. eitthvað.

Ég veit bara ekki hvernig ég á að fara betur með mig. Finnst ég svosum ekkert fara illa með sjálfa mig og það sem íþyngir mér þessa dagana er það sama og íþyngir ansi mörgum einstæðum foreldrum; ég næ ekki að sinna vinnu, heimili, börnum.. og svo sjálfri mér eins og ég myndi helst vilja. Annað slagið verð ég pirruð á því að koma ekki fleiru í verk, hleypi í mig hörku og vinn eins og brjálæðingur. Þá sé ég virkilegan árangur en á móti kemur að ég geng of nærri mér og enda oftar en ekki líkamlega veik og andlega niðurbrotin.

Svoleiðis hefur staðan verið undanfarið. Ég held (vona) að ég sé á réttri leið núna eftir að ég ákvað að viðurkenna vanmátt minn og tilkynnti mig veika í vinnu. Búin að böðlast áfram í vinnu eins og lufsa og það hefur skilað afskaplega litlu nema pirringi hjá sjálfri mér og athugasemdum vinnufélaga í þá átt að ég verði nú að fara að tala við lækni. Leið lítið betur með það.

 


Sjálfsvinnan

Einstök hefur stundað sjálfsvinnuna af miklu kappi undanfarið.

1) Ég skrifa daglega í bókina mína og er alltaf að sjá betur og betur hvað það er stórsniðug hugmynd. Með því að skrifa daglega niður jákvæða punkta og hvað ég er þakklát fyrir í lífinu, þá fókusa ég meira á þessa jákvæðu þætti.

2) Ég er núna búin að hitta hr Sála 3x og það er bara frábært. Gerir mér reglulega gott að öllu leiti.

3) Ég fer vikulega í nudd sem gerir heilmikið fyrir bæði líkama og sál

4) Ég gríp öll tækifæri sem gefast á góðum og uppbyggjandi félagsskap. Fór t.d. einu sinni í vikunni á heimakynningu með skemmtilegum hóp og það var bæði skemmtileg og nærandi kvöldstund.

5) Í þessari viku fékk ég mér nýtt hárlúkk sem sló í gegn Tounge

6) Ég heimsótti miðil í vikunni (var eiginlega skikkuð til að fara.. of löng saga hér) og þar komu punktar sem nýttust mér vel til sjálfsskoðunar. Ég er ekki búin að klára þann pakka því í kvöld ætla ég að setjast niður með Eldri systur og hlusta á upptöku af þeim fundi. Ég hugsa að það gæti opnað á umræðu okkar á milli sem ég hef svolítið verið að skjóta á frest.

Svo er framundan vinnuhelgi án barna og ég ætla að njóta þess að fókusa á mig og mína vinnu án þess að þurfa að deila kröftunum í allar áttir. Held líka að ég fari að drífa í þessu með kortið í ræktina. Cross-trainerinn minn heima er ekki að gera nóg fyrir mig. Langar líka óskaplega mikið til að nýta "frelsið" (lesist: barnleysið) til að droppa inn á góðar vinkonur í kaffibollaspjall. Allt þáttur í sjálfsvinnunni því hvað er betra en samverustundir með góðum vinum? Grin

Ég vona að þið eigið ljúfa og endurnærandi helgi elskurnar mínar Heart

 


Áfengi

Áfengi hefur aldrei verið vandamál fyrir mér þó ég hafi verið ein af þessum "típísku" íslensku unglingum sem byrjaði áfengisneysluna á dry íslensku brennivíni 14 ára gömul á útihátíð. Er ekki stolt af því en þakka fyrir í dag að hafa ekki farið illa út úr þessum árum. Veit ekki hvernig hefði farið fyrir mér ef framboðið á alls konar eitri hefði verið það sama í þá daga eins og það er núna. Eftir að ég komst upp úr gelgjunni er ég er aftur á móti ein af þeim sem á næstum alltaf léttvín og finnst gott að fá mér eitt og eitt glas með kvöldmatnum. En ég drekk afskaplega sjaldan eitthvað sterkara og þá er það helst koníak með kaffinu.

Um síðustu helgi tók ég þá ákvörðun að áfengi og ég ættum ekki samleið nú um tíma. Ég fann fyrir því að ef ég ætlaði að fá mér eitt rauðvínsglas með mat, þá vissi ég ekki fyrr en þau voru orðin þrjú eða ég búin að opna flösku númer tvö. Ég var með öðrum orðum allt í einu hætt að hafa stjórn á því hvernig ég drakk. Í þau skipti sem ég fór út að skemmta mér varð ég nokkrum sinnum illa veik (slapp samt við að verða mér til skammar) og ég hef því túlkað þetta þannig að ég höndli ekki áfengi núna, hvorki á líkama né sál. Ég verð oft niðurdregin eða döpur um leið og ég fæ mér í glas og nær undantekningalaust hef ég verið með móral daginn eftir þó engin ástæða hafi verið fyrir slíkri vanlíðan.

Ég hef strax fundið fyrir jákvæðum áhrifum af þessari ákvörðun. Ég er líkamlega mjög spræk og þessi helgi hefur til dæmis verið alveg dásamleg. Ég skrapp í leikhús á föstudagskvöldið og fannst bara dásamlegt að fá mér kaffibolla í hléinu, skutla barnapíunni sjálf heim og vera komin snemma í háttinn, þægilega þreytt og sátt eftir góðan dag.

Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka til að ná betri stjórn á eigin tilfinningaflækjum og ráða við að fá mér í rauðvínsglas með sunnudagssteikinni.

 


Á uppleið

Held að það sé hægt að segja að ég sé á hægri uppleið. Róleg uppleið semsagt. En á uppleið, það er á hreinu. Átti erfitt með að vakna í morgun en byrjaði samt daginn frekar snemma (ekki eins snemma og ég ætlaði en samt..). Síðan fór dagurinn eiginlega bara hægt og rólega batnandi. Ég hélt á tímabili að allt væri að snúast til verri vegar þegar ég var boðuð á óvæntan fund sem ég var engan vegin til í að takast á við. En viti menn.. m.a.s. hann varð mér til gæfu Smile Ég hef samt alveg þurft að berjast til að halda í jákvæðnina og trúna á að allt verði gott aftur. Ég er ennþá dálítið meyr en samt langt í frá jafn viðkvæm og ég var um daginn.

Ég tók mig til og byrjaði að skrifa í bókina góðu í gærkvöldi. Setti þar inn nokkur góð spakmæli og góð orð sem ég hef fengið send undanfarið. Síðan skrifaði ég fyrir hvað ég væri þakklát þann daginn og nokkra punkta um daginn í dag. Þegar ég vaknaði í morgun var það mitt fyrsta verk að teygja mig í bókina og lesa þetta aftur yfir. Núna ætla ég aftur í rúmið til að skrifa í bókina og stefni að ennþá betri morgundegi W00t

 


Kæri sáli..

 

 

Stundum leiðir lífið mann eitthvert sem maður í raun var ekki búinn að ætla sér.. ég fór til sálfræðings um daginn til þess að eiga við hann nokkur orð um Soninn. Endirinn varð 2ja tíma spjall sem fjallaði aðallega um mig og mína líðan. Það var mjög gott að tala við hann og ég kom frá mér hlutum sem ég á alla jafna frekar erfitt með að tjá mig um (nema í nafnleysi á netinu-hehe). Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að túlka líðanina eftir þennan fund. Ég er búin að vera rosalega meyr og aum, hugsa mikið og finnst það ekkert auðvelt því það sækja á mig hlutir sem ég verð að viðurkenna að ég hef ýtt til hliðar. Í raun má segja að það hvernig ég geng um heima hjá mér þessa dagana segi ansi mikið um það hvernig ég er (ekki) að tækla hlutina. Ég er búin að kaupa mér ný húsgögn sem þarf að skrúfa saman og við það get ég unnið lon og don. Aftur á móti bíður mín líka alls konar dót í kössum og hrúgum sem þarf að koma fyrir, fara yfir og henda og ég höndla það engan vegin. Ég hef sjálf túlkað þetta þannig að ég þoli ekki að róta meira í tilfinningunum og það að fara í gegnum gamalt dót á þessum tímapunkti í lífinu þýðir nákvæmlega það. Endalaus stefnumót við fortíðina og flest af því stingur (annað hvort af því að minningin er ljúf eða sár.. allt stingur).

Ég fór gangandi í búð núna áðan og þegar ég kom heim þá upplifði ég svona algjört líkamlegt þrekleysi og andlega vanlíðan. Ég veit svei mér ekki lengur hvort hefur meiri áhrif á hitt en mér finnst ég a.m.k. engan veginn vera að fúnkera í lífinu núna. Stundum held ég að ég sé komin með einhvern alvarlegan líkamlegan sjúkdóm en stundum er ég á því að þetta sé "eingöngu" álagseinkenni af öllu því sem á undan er gengið.

Ég er bara í uppgjöf í dag. Veit ekkert á hvaða enda ég á að byrja. Þessa stundina er ég að hugsa um að leggja mig! Hver veit nema sólin verði farin að skína þegar ég vakna aftur !?

 


Naflaskoðun

 

Þegar líkaminn stoppar mann svona af eins og minn gerði núna um daginn og manni er þar með kippt út úr daglegri rútínu, þá er hætt við að ýmsar hugsanir komi upp á yfirborðið sem maður hefur jafnvel reynt að halda niðri .. hvort sem er meðvitað eða ómeðvitað.

Ég var því eiginlega neydd í hálfgerða naflaskoðun og hún tók bara verulega á. Það getur verið svolítið sárt að horfast í augu við hlutina. Það góða við þetta núna var að ég komst að því að ég á auðveldara með að koma á jákvæðu hliðarnar hjá sjálfri mér en oft áður. Þ.e. þetta voru ekki eins niðurbrjótandi pælingar eins og mér hætti til hér áður fyrr. Ég veit að skrif mín síðasta mánudag hljómuðu ekki beinlínis á jákvæðnisnótunum en sá þankagangur stóð sem betur fer stutt við. Eftir það var ég orðin öllu brattari með sjálfa mig og er búin að stunda "pep-talk" innra með mér í gríð og erg.

Ég á marga góða að (eins og áður hefur komið fram) og m.a. hefur ein frænka mín verið dugleg við það undanfarið að senda mér hvatningu og skemmtilegar tilvitnanir sem eiga vel við mig. Í dag keypti ég mér sæta stílabók og ætla núna markvisst að safna jákvæðum athugasemdum og góðum hvatningaorðum í hana. Þessa bók ætla ég síðan að hafa á náttborðinu og hún verður það síðasta sem ég glugga í á kvöldin og það fyrsta sem ég kíki á á morgnana.


Vaninn er sterkur

Ég er búin að hafa rosalega mikið að gera undanfarið og keyrt sjálfa mig áfram, stundum á viljanum einum saman. Það hlaut því að enda með þessu.. vaknaði öll í rusli í morgun. Höfuðverkur, ógleði, bullandi kvef.. bara allur pakkinn Frown 

Fyrir utan það að hafa mikið að gera þá er andlegt álag búið að vera mikið líka. Sonurinn sýnir hegðun í skólanum sem ég skrifa algerlega á vanlíðan og óöryggi og mér finnst ég svo vanmáttug gagnvart því. Ég er búin að taka fyrsta skrefið í að fá faglega aðstoð fyrir hann. Ég fékk líka á mig smá aukapakka sem þýddi aukaálag á heimilið og sálarlífið og mér finnst það ennþá vera að draga dilk á eftir sér.

Ég fór í smá gleðskap um daginn. Ég var þreytt og vínið sem ég drakk (sem var ekki mikið) fór beint í hausinn á mér. Ég vaknaði daginn eftir með timburmenn og þvílíkan móral því ég fór á trúnó með nokkrum (sem betur fer góðum) vinkonum og puðraði út úr mér ýmsum leyndarmálum. Það er alltaf dálítið óþægileg tilfinning sem fylgir því að opna sig svona. Mér finnst ég alltaf hafa gefið dálítið skotleyfi á mig fyrst eftir að ég opna svona fyrir mínar innstu hugsanir og tilfinningar. Þegar gleðskapnum var að ljúka keyrði ein (önnur) ágæt vinkona mig heim og hún eiginlega las mér svolítið pistilinn. Hún talaði og ég grét! Ekkert þægilegt.. en samt losandi. Það sem hún sagði var allt satt og rétt og ég held að ég hafi alveg þurft á þessari yfirhalningu að halda.

Ég er ekki ennþá komin að fyrirsögninni en ég er búin að komast að því að ég sit ennþá föst í ýmsum vana frá hjónabandinu. Ég er ekki ennþá búin að kveikja á því að þetta sé svona endanlegt og ég sit ennþá uppi með framtíðarsýn og drauma sem voru okkar.. en verða aldrei. Ég er líka föst í viðjum tilfinninga frá hjónabandinu og veit ekki alveg hvernig ég á að gera þær upp. Hvernig á maður að komast yfir það að makinn elski mann og komi að flestu leyti vel fram við mann en VILJI mann ekki? Hvernig á nokkur að vilja mann ef maðurinn sem elskar mann gerir það ekki?

Núna er kannski líkamlegur slappleiki að hafa áhrif á andlegu hliðina. Hausinn fer í yfirvinnu þegar líkaminn beilar.


Pepp óskast

Sparkaði í Gróu og alveg komin yfir það dæmi. Búin að hafa það þokkalegt en í dag er ég bara pínulítil í mér. Bara þannig dagur einhvern veginn. Langar bara til að hnipra mig saman í fósturstellingunni uppi í rúmi og breiða upp fyrir haus.

Datt í hug að leita eftir einhverju upplífgandi á netinu en finn voðalega lítið sem höfðar til mín. Eigið þið gott pepp handa aumri sál?

Er ekkert að sækjast eftir vorkunn (sé um hana sjálf Pinch ) heldur einhverju upplífgandi og skemmtilegu sem veitir yl í sálina eða færir bros á vör.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband