6.10.2009 | 22:11
Ein-staklega pirruð
Þessa dagana er ég óvenju pirruð. Óvenju pirruð miðað við mitt lundarfar því ég er almennt lífsglöð og ekki mikið fyrir drama eða svartsýnisraus. Það er samt farið að þykkna ansi mikið í mér yfir stöðunni í þessu þjóðfélagi. Ég viðurkenni alveg að ég hef ekki verið að fylgjast með öllum fréttatímum undanfarið ár, né hef ég nennt að velta mér upp úr hverri ákvörðun eða umræðu sem fram hefur farið á Alþingi. En afleiðingarnar af hruninu eru farnar að svíða ansi sárt á eigin skinni í dag og mér finnst satt að segja ansi svart framundan.
Án þess að fara út í hvert smáatriði í mínum einkahögum þá get ég samt upplýst það að ég er ekki ein af þeim óheppnu sem voru búin að fjárfesta með hjálp svokallaðra myntkörfulána, né var ég skuldsett upp fyrir höfuð þegar hrunið varð síðasta haust. Ég þótti í ansi góðum málum sem einstæð móðir fyrir ári síðan. Keypti mér m.a. húsnæði á frekar vægu verði með það fyrir augum að hafa rými til að flikka upp á pleisið í rólegheitum og einnig var ætlunin að geta andað án þess að vera í endalausri fjárhagslegri spennitreyju. Ég hef nær alltaf þurft að berjast í bökkum fjárhagslega og upplifað tíma þar sem eingöngu síhækkandi yfirdráttur og yfirkeyrt visa-kort kom í veg fyrir sult á heimilinu. Ég hef líka upplifað það að hafa hreinlega ekki átt í mig né á, tíma þar sem ég þurfti að róta í gegnum alla vasa og krukkur á heimilinu til að öngla saman í rafmagnsreikninginn til að komast hjá því að lokað yrði fyrir rafmagnið, þurft að böðlast með börn og bónus-poka í strætó því bíllinn var bilaður og enginn peningur fyrir viðgerð o.s.frv.
Fjárhagurinn hafði vænkast á síðustu árum en ég get ekki sagt að ég hafi "notið" þess þar sem önnur mál voru mér ofar í huga og mér mun mikilvægari en peningar. Síðasta haust þegar ég var loksins að komast út úr andlegri vanlíðan eftir skipbrot í hjónabandinu þóttist ég sjá fram á bjartari tíma. Loksins. Ég ætlaði að verja næstu árum í að njóta lífsins með börnunum mínum, nostra við nýja heimilið okkar og ferðast þegar tækifæri væri til. En hvernig er staðan í dag? Ég skulda eingöngu íbúðasjóðslán (og það mun lægra en flestir) og námslánið mitt. Ég á ekki bíl á bílaláni, né önnur neyslulán. Ég er heldur ekki með yfirdrátt og enginn á neitt inni hjá mér í dag. Aftur á móti hefur spariféð farið jafnt og þétt í neyslu heimilisins og þessi mánaðarmótin þurfti ég að semja um visareikning - eitthvað sem ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur af í mörg ár. Þess má geta að á þeim reikningi var enginn óþarfi, eingöngu matarinnkaup og bensínsopi á bílgarminn. Ég ligg yfir reikningunum mínum með smásjá þessa dagana og reyni að finna glufur. Þessa stundina er útlitið þannig að ég á 90 þúsund eftir af launum + meðlagi þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Ætli það nægi fyrir mat og bensíni? Ég veit að ég fór með 80 þús í þann pakka fyrir hrun Þá vantar t.d. eitthvað fyrir fatainnkaupum og ýmis önnur útgjöld sem óumflýjanleg eru á barnaheimili. (tannlæknir, læknir, lyfjakostnaður, afmælisgjafir, íþróttaiðkun, tónskóli o.s.frv.)
Auðvitað veit ég að ég er alls ekki í verstu stöðunni og ég þekki vel til fólks sem er í síversnandi stöðu frá einum mánuði til þess næsta og sjá enga leið út úr vandanum. Ég er alls ekki að meina að ég sé verst stödd í þjóðfélaginu því það veit ég vel að er langt frá lagi. En undanfarið hef ég samt verið í smá sjálfsvorkunn yfir því að ég hélt að loksins fengi ég aðeins að njóta án þess að hafa sífelldar áhyggjur. Ég hef aldrei haft það þannig og fannst bara allt í lagi að ég fengi að upplifa það.. sorry eigingirnina Eftir að sjálfsvorkunnartímabilinu lauk þá komst mín í baráttuhaminn og núna á bara að finna leið til að bæta stöðuna.
Ég á örugglega eftir að vera með einhverjar vangaveltur um þessa hluti á næstunni og er alveg til í að fá athugasemdir og ábendingar frá ykkur. Núna væri ég t.d. mikið til í að heyra frá öðrum hvað þið eyðið í mat og bensín fyrir ykkar heimili (fjölskyldustærðin og aðrar aðstæður mega gjarnan fylgja). Með því að ræða þessa hluti saman getum við hugsanlega lært eitthvað hvert af öðru og þá náð að gera lífið léttara í leiðinni.
Athugasemdir
Eg er sennilega ekki dómbær á aðstæður þar sem ég hef búið erlendis í langan tíma. Við erum 4 í fjölskyldu og finnum fyrir því hvað Ísland er orðið dýrara. Flug hefur hækkað og öll neysla á meðan á fríi stendur er dýrara. Við kíktum í lok Ágúst og vorum í 10 daga og þrátt fyrir að greiða með sterkri mynt þá var fríið meir en helmingi dýrara heldur en oft áður.
Ég finn til með þeim sem hafa lent ílla vegna hruns er hefur átt sér stað á Íslandi, hvers á fólk að gjalda?
Matarkarfan hefur hækkað sem og allur innflutningur.
Sá á facebook sala á notuðum fötum, skiptimarkaðir etc. Fólk finnur leiðir og það ættu sem flestir að skilja eftir spor sín og koma með sína reynslu og hugmyndir.
Gangi þér vel í þinni baráttu ...
www.zordis.com, 6.10.2009 kl. 23:21
Takk fyrir þetta Zordís
Já það hefur allt hækkað hér á Fróni undanfarið ár.. og sumt alveg fram úr hófi. Mér finnst það líka vera eitthvað sem við megum alveg hafa í huga. Ég hef heyrt mörg dæmi þess að fólk hefur klárlega verið að misnota sér aðstæður og hækkað eitthvað sem alls ekki var eðlilegt að hækkaði.. eða a.m.k. ekki eins mikið og raun ber vitni.
Mér finnst mikilvægt að við hjálpumst að með ýmis ráð og leiðbeiningar í gegnum þetta allt. Ég er þessa dagana mikið að velta því fyrir mér hvaða leið sé hægt að fara í þeim efnum. Ég hef a.m.k. ekki ennþá rekist á bloggsíðu eða facebook-síðu þar sem fólk er að skiptast á gagnlegum upplýsingum um hvar t.d. sé hagstæðast að versla, hvað eigi að forðast, hvaða rétt fólk hefur í hinum og þessum málum o.s.frv. Ég vil gjarnan sjá eitthvað slíkt komast í gagnið.
Ein-stök, 15.10.2009 kl. 23:04
Ég var í hjónabandi í ca 20 ár og það eru líka um 20 ár síðan ég skildi. Mér hefur gengið mjög vel fjárhagslega, mínar skuldir eru svipaðar og hjá þér, húsnæðislán í lægri kantinum og bíllinn gamall, góður og skuldlaus. Það fyrsta sem ég ákvað eftir að ég skildi var að læra að lifa á því sem ég aflaði, ég hætti að nota visa kortið og vandi mig af ýmsum ósiðum sem ég hafði komið mér upp á meðan ég lifði í allsnægtum. T.d. hætti ég að telja það til skemmtunar að gramsa í tískubúðum og í dag á ég meira af klassískum fötum sem ég nota óspart með nýjum blússum eða slæðum og treflum. Ég var hörð við sjálfa mig og t.d. tók ég strætó í vinnuna í mörg ár, ég var alltaf smá hrædd um að ef ég færi að eyða óspart þá myndi ég missa íbúðina mína, ég mátti ekki hugsa þá hugsun til enda og planaði því allt mjög vel. Ég hef verið dugleg að eltast við tilboð á kjöti og hamstrað í frystinn þegar koma góð tilboð, ég fylgist líka vel með öllum tilboðum í matvöruverslunum og kaupi oft mikið þegar koma góð tilboð. Jæja, þetta er orðið frekar langt hjá mér en ég ætlaði bara að skrifa örlítið! Smá í viðbót, ég hef aldrei notað yfirdráttinn, tími ekki að eyða peningum í dráttarvexti. Ég hef ferðast talsvert bæði innanlands og utan og tel mig ekki lifa neinu nískulífi, ég held að það sé mikilvægast að skipuleggja sig bara mjög vel.
Ég vona að þetta komi að einhverju gagni. Gangi þér vel.
Sjálf_stæð (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 23:50
sjálf_stæð gefur mjög góða mynd af því sem bomsan vildi sagt hafa... vera gætin og hagsýn. Kreditkortið er varasamt og best að geyma það í bankanum ef eitthvað mjög óvænt kemur upp. Bomsan er ekki til fyrirmyndar á þessu sviði, en hún er ekki ein í sínum fjármálaheimi....
bomsan, 17.10.2009 kl. 01:12
Sæl Sjálf_stæð og takk fyrir þitt innlegg
Mér líkar hvernig þú hugsar og ég er alveg innilega sammála þér. Ég var ekki búin að vera svona lengi í mínu hjónabandi og áður fyrr var lífið oftast mesta basl þannig að það var ekki um það að ræða að hafna einhverjum lúxus. Ég fer nær aldrei í tískuverslanir (nema þar sé útsala) og visakortið hefur lengstum legið ofan í skúffu. Ég hef notað visa-kortið fyrir ákveðnar fastar greiðslur og t.d. við að bóka flug (sem gerist ekki oft nú orðið). Í sumarfríinu gekk ég hins vegar í þá gildru að fara að nota kortið til að kaupa mat og bensín þegar ég var hætt að ná endum saman í mánaðarlok Það bara má ekki. Þess vegna sat ég uppi með reikning um síðustu mánaðarmót sem ég bara gat engan vegin borgað í einu lagi. Sama gildir um bílareksturinn. Ég bý á litlum stað og geng dags daglega flest sem ég þarf að fara. En til þess að fara í hagstæð matarinnkaup verð ég að keyra um klt leið og bíllinn minn sýpur alveg slatta En semsagt.. ég held að við séum alveg með svipaða hugsun í þessu. Maður þarf að vera með allar klær úti og fylgjast vel með því sem maður er að gera.
Takk aftur.. alltaf gaman að fá svona innlegg
Bomsan: Já blessað visakortið er stórvarasamt. Það er nú reyndar ekki nóg að geyma það í bankanum fyrir "visafíklana" nema þá að það sé lokað fyrir notkun í leiðinni En það verður líka hver og einn að finna sín mörk í þessu eins og öðru.
Takk fyrir þitt innlegg
Ein-stök, 23.10.2009 kl. 20:23
Vá.. hvaða risastafir eru þetta? Kann ekkert á að breyta þessu.. svo þið verðið bara að hönda þetta svona
Ein-stök, 23.10.2009 kl. 20:29
Ég verd thví midur ad taka undir ord thín Einstök, hér er ekkert brudl og ekkert visa kort en einhvern vegin thá virdast hlutirnir verda verri og verri, ég veit ekki hvernig thetta endar :( En Ljónid er sem betur fer ad syna styrk og bendir á ad vid séum öll heilbrigd og vid hjónin ástfangnari en nokkru sinni ádur.
Gangi thér vel kaera bloggVinkona
xoxo til thín
Sporðdrekinn, 26.10.2009 kl. 15:07
Langar ad setja inn línu vid sídustu faerslu thína:
Knús, knús og koss, koss aedi gaedi!
Thad er gott ad geta brosad ég er svo ánaegd thín vegna, mundu thessa faerslu thína thegar ad restin dregur thig nidur.
xoxo
Sporðdrekinn, 26.10.2009 kl. 15:11
Elsku Sporðdreki
Já er þetta svona hjá ykkur líka? Ég er reyndar alveg sammála ykkur Ljóninu. Við erum heppin að hafa heilsuna og hvert annað Við Riddarinn vorum einmitt að ræða það um daginn að í okkar stöðu þá væri ekkert annað í myndinni en að reyna að halda sjó, vera skynsamur og passa upp á í hvað peningarnir eru að fara. Í dag eru svo margir í þeirri stöðu að vera að velta á undan sér hlassinu og það er bara skelfilegt að standa frammi fyrir því. Enn sem komið er þá er ég a.m.k. ekki farin að safna skuldum.
Takk fyrir falleg orð mín elskulega. Yndislegt að heyra að þið eruð svona ástfangin og hamingjusöm. Það er sama staða hérna megin Lífið er svo sannarlega ljúft.
Ein-stök, 26.10.2009 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.