11.1.2009 | 14:31
Janúar; RÆKTIN..
Jamm og já.. þetta verður yfirskrift janúarmánaðar: RÆKTIN...
Ég fór að fara í ræktina á milli jóla og nýárs (gat ekki beðið með að byrja nýtt ár með stæl) og hef staðið mig nokkuð vel. Þessa helgina ætlaði ég að fara ofan í saumana á mataræðinu en hef ekkert komist í þær pælingar. Búin að vinna eins og berserkur enda barnlaus helgi og þá get ég hagað mér eins og mér sýnist (lesist: sofna seint, vakna seint, hugsa bara um mig og vinna á fáránlegum tímum). Ég þarf að negla niður ræktartíma í komandi viku áður en ég geng til náða í kvöld því stærsta málið er að finna tíma þar sem ekkert getur komið í veg fyrir að ég fari.
En.. þegar ég tala um RÆKT.. þá meina ég ekki bara brennsluæfingar og lyfta lóðum. Ég ætla nefnilega líka að gera eitthvað í því að rækta aðrar hliðar.. sálina og andlegu hliðina. Í gærkvöldi fór ég í matarboð til góðra vina og sat þar við rauðvínssötur og spjall fram eftir kvöldi. Það var yndælt og gaf mér mikið. Ég finn alveg að ég hef tilhneygingu til að skríða heim í skjól þegar vinnu sleppir. Skríða bara upp í sófa með tölvuna í fanginu og sjónvarpsfjarstýringuna í næsta nágrenni. Að sumu leiti þarf ég á þessum friði að halda eftir vinnuna (og suma daga meira en aðra), en ég verð samt að passa mig á því að gæðastundir með góðum vinum gefur mér mun meira en tölvusamskipti og sjónvarpsgláp þó slíkt geti verið ágæt leið til "tæmingar".
Ég upplifi þennan tíma núna sem dálítið tómlegan. Ég hrærist í hálfgerðu "engu", sinni störfum og skyldum hálf vélrænt og er eiginlega hvorki hamingjusöm né óhamingjusöm. Það hefur hvarflað að mér að þetta sé lognið á undan storminum, en ég ætla að hætta að hugsa á neikvæðu nótunum svo ég ÆTLA að trúa að þetta sé fyrsta skrefið í átt að sælutímum. Meira eins og þetta séu eftirköst eftir það sem á undan er gengið og ég upplifi tómleika af því að ég þarf ekki að vera að berjast í gegnum daginn, andlega og líkamlega.
Athugasemdir
gott hjá þér að ætla að taka þetta allt saman í gegn - en gættu samt að því að stundum er nóg að taka til í einu horni í einu (byrja á líkamsræktinni og taka svo andlegu hliðina eftir smá tíma) svo maður gefist ekki bara upp.
Rebbý, 11.1.2009 kl. 15:07
Eftir myndunum að dæma þá þarftu nú ekki að hafa miklar áhyggjur af "ræktinni".
... þetta eru annars örugglega myndir af þér, ha ?
Gísli Hjálmar , 12.1.2009 kl. 19:15
Það er örugglega mikið til í því Rebbý enda verður "andlega" ræktin meira viðuð við að passa upp á gæðastundir með vinum, koma sér í einn og einn nuddtíma og annað dekur.. semsagt ekki bara þjösnast á kroppnum heldur líka vera góð við hann.. hehe
Jú jú Gísli þetta er alveg ég sko... uuu.. EFTIR nokkrar vikur sko..
Ein-stök, 12.1.2009 kl. 22:27
"Meira eins og þetta séu eftirköst eftir það sem á undan er gengið og ég upplifi tómleika af því að ég þarf ekki að vera að berjast í gegnum daginn, andlega og líkamlega."
Ég held að það sé rétt hjá þér að hugsa þetta svona snúllan mín
Sporðdrekinn, 13.1.2009 kl. 05:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.