ein

Færsluflokkur: Bloggar

á hraða snigilsins

Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér og þá finn ég fyrir pirringi gagnvart því hvað hlutirnir ganga hægt varðandi skilnaðinn. Maðurinn hefur verið hér alla vikuna. Dálítið skrítið ástand því ég finn svo vel á honum að hann lítur eiginlega ekki á þetta sem heimili sitt lengur. Hann hálf-lufsast hérna um og mér finnst hann eiginlega bæði kærulaus um hlutina og ganga illa um Angry Svo sit ég uppi með sektarkennd yfir að tuða (ef ég geri það) og fyrir að hugsa svona því ég er svo lítið heima og er því ekki að sinna heimilinu heldur. Sem betur fer er þetta með vinnuna bara tímabundið ástand og ég á að geta stýrt henni betur í framtíðinni. Ég verð að viðurkenna að á síðustu árum hef ég átt það til að láta vinnuna gleypa mig svolítið, því það hefur alltaf verið eitthvað sem ég hef ráðið við á meðan mín biðu vandamál heima sem ég virtist ekkert geta gert við (NOT for lack of trying). Ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég tók ákvörðun um ráðgjafann á sínum tíma var sú að ég fann að ég var farin að fjarlægjast börnin mín Blush Sem betur fer hef ég fundið mikinn mun á því núna síðustu mánuðina. Sérstaklega gagnvart Dótturinni því við erum miklu nánari og hún er farin að gera kröfur á að eiga stelputíma í friði fyrir bróður sínum. Það er gott og blessað og við höfum haft tækifæri til að láta slíkar óskir rætast. Ég hugsa samt að það sé kominn tími á að huga að Syninum líka. Held að við þurfum bæði á því að halda þó hann hafi ekki fundið það hjá sjálfum sér að gera kröfu á slíkt.

Ég er komin með nafn á góðum og traustum ráðgjafa til að ræða við um peningamálin. Nú þarf bara að finna tíma til að koma á fundi okkar á milli. Með ábendingunni um ráðgjafann fylgdi spurning um hvort við værum búin að fá okkur lögfræðing. Ég verð að viðurkenna að ég hafði bara ekki hugsað út í að þess þyrfti. Fram að þessu hefur enginn bent okkur á það - hljómar það heimskulega? Woundering 


Af fjármálum og fleiru..

Í gær heimsóttum við hjónin Sýslumann og fengum drög að samningi um þá þætti sem þurfa að vera á hreinu í lagalegu tilliti; meðlag, fjármál, skipting eigna o.s.frv. Þar fengum við m.a. á hreint að arfur fellur undir aðrar eignir og telst sameiginleg eign okkar, þar sem ekki voru nein tilmæli frá þeim látna í erfðaskrá um annað. Ég er nokkuð viss um að þetta er eitthvað sem ekki margir hugsa út í. Því miður eru alltof margir sem ekki gera neinar ráðstafanir varðandi erfðamál, líftryggingar og foræði barna ef eitthvað kemur uppá. En aftur að okkar málum. Ég var búin að segja við Manninn að mér þætti ekki eðlilegt að ég tæki helminginn af arfinum sem hann fékk en á móti var hann búinn að segja að honum þætti ekki eðlilegt að ég fengi ekkert af honum. Við vorum því lauslega búin að ræða okkar á milli nokkurs konar millistig á milli "ekkert" og "helmingur".

Eftir heimsóknina til Sýslumanns og aftur í dag, lögðumst við í fasteignapælingar, skoðuðum bráðabirgða-greiðslumat hjá ibl.is og reiknuðum út hugsanlegar vaxtabætur á rsk.is. Mikil rannsóknarmennska og flóknar pælingar í gangi. Útkoman var ekkert sérstaklega spennandi. En kannski erum við ekki að gera þetta rétt, því ég skil ekki hvernig nokkur maður getur eignast þak yfir höfuðið miðað við okkar niðurstöður. Hvernig ber maður sig að í þessu? Við keyptum okkur húsnæði síðast fyrir 6 árum og síðan þá hafa bankarnir farið að bjóða húsnæðislán, hægt er að taka erlend lán (eða kannski ekki í dag?) og mér persónulega finnst þetta orðinn agalegur frumskógur. Ég veit að það er erfitt fyrir ókunnuga að ráðleggja í svona, ég hef ekki einu sinni sagt frá því hérna í hvaða sveitarfélögum við ætlum að búa. En.. hver er ykkar skoðun/reynsla.. hversu mikið hlutfall af kaupverði íbúðar ætti maður að leggja upp með? Hvað eru lán vegna íbúðarkaupa hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum ykkar? Hefur eitthvert ykkar reiknað út rekstur heimilisins, mat, bensín og annað? Væri afskaplega þakklát ef þið væruð til í að deila einhverju með mér. Einu sinni vorum við í þeirri stöðu fjárhagslega að þurfa að telja hverja krónu og ekkert mátti útaf bera. Þá vissi ég alltaf nákvæmlega hvað við eyddum miklu í mat, bensín, föt o.s.frv. og þá meina ég hvern lið fyrir sig. Því er bara ekki að heilsa núna því síðustu árin höfum við getað leyft okkur að slaka aðeins á og þá týndist bókhaldarinn á heimilinu.


En af hverju...?

Dóttirin heldur áfram að krefja okkur svara Blush "Af hverju þurfið þið að skilja?" Ég verð að viðurkenna að stundum er þolinmæðin af skornum skammti þessa dagana og í kvöld varð ég frekar stutt í spuna við hana. Undecided Blush Ég var að reyna að útskýra fyrir henni að við værum alltaf til í að ræða við hana um það hvernig henni liði, hvernig dagurinn hefði verið, hvað hún væri að hugsa og hvað henni þætti um hlutina en að það sem væri á milli okkar pabba hennar væri okkar mál og engra annarra. Ég sagði henni að ég vissi að það hefði áhrif á hana (og þau) en að samt sem áður gæti enginn stjórnað okkar sambandi annar en við tvö. Við værum búin að taka þessa ákvörðun og við yrðum bara að hjálpast að í gegnum þetta. Hvað finnst ykkur? Hefði ég getað gert þetta öðruvísi?

Mér finnst ég alltaf mjög ákveðin, sjálfsörugg og viljasterk þegar ég tala við hana á þessum nótum. En á eftir sit ég uppi með sviðið hjarta, tómleika í sálinn og tár á hvarmi og hugsa sjálf "já en AF HVERJU?"


Áframhaldandi hreinsunarbrjálæði

Vaknaði svona líka sperrt og fersk í morgun og stökk framúr til að elda hafragraut Smile Leið eins og einhver hefði gefið mér vítamínsprautu í rassinn W00t Eftir að hafa spólað í gegnum nokkur "hefðbundin" heimilisstörf, eins og að skella í þvottavél, vaska upp, búa um og annað þess háttar, tók fjörkálfurinn í mér völdin svo um munaði þegar ég tók til við bílaþvott! Sá bílaþvottur var nú kannski ekki alveg eins nosturslegur eða nákvæmur og baðherbergistiltektin í gær en ég þvoði bílinn að utan, ryksugaði vandlega, henti öllu rusli og strauk yfir mælaborð og hurðir að innan. Semsagt ekkert bón (reyndar ekki þörf á því heldur) og engin tannstönglaherferð í þetta skiptið en bíllinn var alveg dásamlega hreinn og ilmandi á eftir.

Fermingarveislurnar gengu eins og í sögu. Ég dressaði mig m.a.s. upp í flík sem ég hefði ekki trúað fyrir viku síðan að ég myndi klæðast. Ég hef geymt viðkomandi flík inni í skáp sem hálfgert langtímamarkmið því ég sá fyrir mér að ég þyrfti að léttast og stæla ákveðna vöðva áður en ég gæti skartað henni en í dag var sjálfsálitið í blússandi plús svo ég lét vaða. Ég fann m.a.s. skartgripi sem pössuðu svona glæsilega við og leið bara alveg eins og drottningu þegar ég lagði af stað í fermingarveislurnar. Ég naut dagsins að flestu leiti. Hitti marga sem ég hef ekki hitt lengi og náði að spjalla við marga áhugaverða og skemmtilega gesti. Ég fann samt fyrir því að mér þótti óþægilegt þegar fólk spurði spurninga sem snertu Manninn. Það er ekki alltaf við hæfi að snúa samræðum upp í "veistu.. ég get bara ekki svarað því af því að við erum að skilja!", sérstaklega ekki þegar maður er að spjalla við fólk sem maður þekkir bara lítillega. Svo kom Maðurinn og börnin fögnuðu honum, fjölskyldan mín tók honum hlýlega og mér leið - enn og aftur - einsog ég væri persóna í vitlausu leikriti. Það kemur annað slagið yfir mig þessi fáránlega tilfinning um að þetta sé bara einhver vitleysa í MÉR og að með því að taka þetta skref til fulls sé ég að skapa öðrum óhamingju og vansæld.

En ég ætla ekki að dvelja við þær hugsanir núna. Ég er orðin alltof þreytt eftir langan dag og þá er hætt við að hugurinn leiti í rangar áttir. Ég ÆTLA mér að halda í jákvæðan hugsunarhátt og trúna á að ég eigi skilið það sem ég þrái.


Hreinsun

Mín fékk útrás við þrif í dag. Heldur betur. Var búin að ákveða að verja einhverjum hluta dagsins í þrif en þetta varð með dálítið öðru sniði en ég hafði ætlað. íbúðin er öll mjög vanrækt eftir álag undangenginna vikna. Það hefur verið ansi mikið að gera í vinnunni en vegna aðstæðna hér heima fyrir þá hef ég einbeitt mér að börnunum á meðan þeirra tími stendur yfir (þ.e. eftir skóla og fyrir svefn). Allt sem heitir tiltekt og þrif hefur því setið á hakanum og ég er viss um að flestir þarna úti eru mér sammála um þá forgangsröðun. Í morgun var samt ástandið komið upp fyrir skítastuðul "húsmóðurinnar" og þar sem eldhúsið var þokkalegt, þá varð baðherbergið fyrir barðinu á þrifnaðaræðinu sem rann á konuna. Ég tók baðherbergið gjörsamlega í nefið. Þvoði loft, veggi, glugga, gluggatjöld og sturtuhengi. Skrúbbaði flísarnar, hamaðist á blöndunartækjunum með kísillosandi efnum og allt postulínið sömuleiðis Smile Ekki nóg með það heldur tæmdi ég alla skápa, fór yfir hvert einasta stykki sem þar leyndist, henti og endurraðaði eftir að hafa þrifið allar hillur. Síðast færði ég allt sem ekki var naglfast fram á gang (þ.á.m. stóran skáp og eina lausa hillu) og skúraði gólfið. Ég m.a.s. lagðist á hnén með skrúfjárn til að ná almennilega inn í allar rifur og samskeyti.

Það sem var samt best við þetta var að ég naut þess í botn. Ég naut hverrar mínútu af þessum atgangi og held að ég hafi bæði fengið líkamlega útrás og andlega íhugun út úr þessari aðgerð. Börnin voru samt ekki vanrækt því ég átti góða stund með þeim í morgun áður en framkvæmdir hófust, síðan voru þau upptekin með góðum vinum í allan dag og ég bauð upp á brauð og kökur í kaffinu fyrir 5 stykki káta krakka. Um kvöldmatarleytið elduðum við börnin síðan saman hamborgara (hver með sínu lagi) og skemmtum okkur síðan yfir Herbie áður en haldið var í rúmið (með nýþvegnum rúmfötum) til að skiptast á nokkrum vel völdum bröndurum og fara með bænir í lok dagsins.. já þvílíkur dagur Grin

Fyrst ég gat skemmt mér svona yfir þrifum og tiltekt.. hvað ætli ég geti þá ekki gert með tvær veislur á morgun? Það verður rosalegt W00t


Á netvafri

Undanfarnar vikur hef ég verið að leita mér upplýsinga á netinu um ýmislegt sem varðar skilnaði. Í kvöld ákvað ég að setja upp smá tenglalista yfir síður og greinar sem ég hef verið að lesa á þessum tíma. Tenglunum á mjög líklega eftir að fjölga þar sem við erum rétt að byrja á þessu ferli og ég er ennþá að vafra á netinu sem og annars staðar.

Ég þigg allar ábendingar um gagnlega tengla eða hvar hægt er að finna góðar upplýsingar og fræðslu fyrir fólk í mínum sporum.

Annars hefur þessi dagur verið svona "hvorki né". Ég var ótrúlega hress í morgun miðað við svefnlausa nótt en það dró aðeins úr kraftinum þegar leið á daginn. Börnin áttu góðan dag því Sonurinn eignaðist glænýtt gírahjól sem hann tók næstum því með sér í rúmið í kvöld og Dóttirin hitti burtflutta vinkonu og lék sér hin sælasta við hana allan seinnipart dagsins. Í kvöld hefur depurðin sótt aftur á mig og kvíði fyrir því sem framundan er. Okkur er t.d. boðið í tvær fermingarveislur um helgina og ég sé fram á að fara í þær báðar ein með börnin og allt í einu er það orðið eitthvað fyrirkvíðanlegt verkefni Errm Mér finnst ég semsagt vera dálítill "lúser" þessa stundina.. svo það er líklega best að koma sér í rúmið, biðja bænirnar og "láta sig dreyma um eitthvað fallegt" eins og hún amma mín sagði alltaf - blessuð sé minning hennar Halo

Góða nótt elskurnar InLove


Eitthvað fór úrskeiðis

.. þegar Maðurinn ræddi við Dótturina um daginn. Hún kom til mín í kvöld og spurði mig af hverju pabbi hennar þyrfti að flytja. Það varð fátt um svör hjá mér af ýmsum ástæðum. Ég var mjög þreytt eftir andlega og líkamlega erfiða daga og ég fann að ég átti erfitt með að fara út í einhverja viðkvæma umræðu á því augnabliki. Var aðallega hrædd um að ég myndi klúðra því eitthvað. Ég er ekkert smeyk við að gráta fyrir framan hana því fullorðnir gráta jú líka. En allavega.. hún fór að ræða þetta við pabba sinn og þá hafði hann greinilega ekki útskýrt fyrir henni ástæðu þess að hann væri að leita sér að húsnæði annars staðar Shocking Ég veit hreinlega ekki hvað hann sagði henni, eða hvað hann taldi sig vera að segja henni. En næsti klukkutími fór a.m.k. í sáran grát og ótal spurningar. Hún krefur okkur svara um AF HVERJU þetta sé svona og af hverju við getum ekki búið saman fyrst okkur þykir vænt hvoru um annað og ýmislegt í þeim dúr. Ég held að ég sé ekkert öðruvísi en aðrir sem hafa lent í þessari stöðu með það að líða eins og kjána yfir sumum spurninganna og eiga erfitt með að finna réttu svörin. Hvað segir maður við 10 ára gamalt barn í þessari stöðu? Við förum ekki að útlista fyrir henni samband okkar og þar af leiðandi er erfitt fyrir hana að skilja okkar hálfsoðnu útskýringar. Við reynum að vera hreinskilin og hún sér að það er allt í góðu á milli okkar, þ.e. engin leiðindi og enginn vondur við neinn.

Maðurinn er semsagt "heima" núna. Hann er í prófum þessa dagana og hefur því ekki gert neitt í því að kanna húsnæðismálin. Núna aftur á móti fer að koma tækifæri til þess. Það er ótrúlegt hvað jafnvægið á heimilinu fer úr skorðum þegar hann kemur Pinch Börnin voru rosalega ánægð að sjá hann en bæði hafa verið uppstökk og pirruð eftir að hann kom. Sonurinn fékk reiðiskast sem er sjaldgæf sjón, henti hlutum og öskraði. Dóttirin fékk smá tilfelli yfir smámálum. Andrúmsloftið milli okkar hjóna er samt mjög afslappað. Þar sem hann hefur verið í burtu alla vikuna og mikið að gera í vinnunni hjá mér þá greip ég tækifærið og vann aðeins lengur en vanalega. Kom því mjög þreytt heim og þá var hann búinn að versla inn djúsí kvöldmat og sukk fyrir kvöldið. Ands... ég GET ekki látið þetta vera þegar hann er hér - annars kaupi ég svona lagað bara ekki. Svo fitna ég og verð hundóánægð með mig og örg útí bæði mig og hann. En nú er ég að missa mig út um víðan völl.. ætla að hætta þessu pikki og drífa mig í rúmið til barnanna. Óska þess að þið eigið ljúfa nótt og góðan morgundag.


Í lausu lofti

Þannig líður mér þessa dagana.

Ég er einstæð móðir en ekki með nein "réttindi" einstæðrar móður.

Ég er "skilin" en samt ekki.. ég þarf t.d. að deila fjármálum með manni sem ekki kann að hafa samskipti um þau mál og ég er LÖÖÖNGU búin að fá nóg af því.

Mig hungrar í athygli, ást, blíðu, skilning, samveru... svo margt en slíkt er ekki hægt að panta í póstkröfu. Ég veit að ég verð að sætta mig við að það verður einhver tími í að ég eigi möguleikann á að upplifa þetta aftur.

Ég get ekki beðið eftir að finna jarðtenginguna aftur. Ég þarf að komast í MITT húsnæði, MINN bíl, ráða MÍNUM fjármálum, eiga MINN tíma... þá get ég farið að stilla strengina upp á nýtt.


Söknuður

Ætla að skrifa bara örstutt núna. Langaði bara að koma frá mér tilfinningu dagsins:

Dagurinn er eilífð án þín.
Kvöldið kalt og tómlegt án þín..

Ég hef verið að upplifa mikinn söknuð undanfarið. Þá er ég að tala um söknuð eftir Manninum. Ég sakna þess að hafa hann hjá mér og með mér daglega. Hann hefur alltaf átt auðvelt með að hressa mig við þegar ég er döpur og láta mig hlægja þegar ég hef þurft á því að halda.

Aftur á móti veit ég að ég bara GET ekki búið með honum, né verið með honum í sambandi lengur. Það er búið að taka langan tíma, blóð, svita og tár að komast að þeirri niðurstöðu og ég á alls ekki auðvelt með hana.


Skilnaður að borði og sæng

Til að fá skilnað að borði og sæng þarf að gera samkomulag um eftirfarandi atriði:

  • forsjá og lögheimili barna
  • umgengni
  • meðlagsgreiðslur
  • lífeyrisgreiðslur
  • fjárskipti, það er hvernig skipta á sameiginlegum eignum

Við erum að vinna í þessum atriðum núna.

  • forsjá og lögheimili barna

Við verðum með sameiginlega forsjá en eins og staðan er í dag þá verða börnin með lögheimili hjá mér.

  • umgengni

Eins og áður hefur komið fram þá er erfitt fyrir okkur (vegna búsetu) að koma því í kring að börnin verði jafnt hjá okkur foreldrunum (getum t.d. ekki skipst á með viku hér og viku þar). Aftur á móti þykir okkur báðum önnur hvor helgi hjá Manninum of lítil umgengni fyrir bæði föður og börn. Við ætlum því að skoða skóladagatal næsta skólaárs og setja okkur niður eitthvert skipulag þar sem hann fær þau til sín í lengri fríum. Mér datt líka í hug að hægt væri að fá frí fyrir börnin í skólanum einn og einn föstudag ef vel stendur á hjá Manninum (sem er í námi) til að lengja helgina frá fimmtudegi til sunnudags.

  • meðlagsgreiðslur

Við höfum ekki skoðað þær neitt sérstaklega. Eru ekki fyrirfram ákveðnar reglur um þetta?

  • lífeyrisgreiðslur

Höfum heldur ekki skoðað þetta en mér skilst að þetta atriði þurfi einna helst að skoða ef annar aðilinn hefur unnið úti um árabil en hinn verið heima !?

  • fjárskipti

Þetta þarf líka að skoða. T.d. kemur inn í þetta arfur sem Maðurinn fékk og það sem við höfum heyrt um þau mál ber ekki saman. Annars vegar að arf sé hægt að undanskilja frá öðrum eignum en hins vegar að allt sem hjón eigi komi til jafnra skipta, nema um annað sé samið fyrir hjónabandið eins og t.d. með kaupmála. Arfurinn kom til eftir að við giftum okkur.

Ef einhver sem les þetta veit meira en ég/við um eitthvað af ofantöldum atriðum þá eru allar ábendingar vel þegnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband