ein

Færsluflokkur: Bloggar

Afgreitt mál?

Á föstudaginn hringdi ég í Manninn til að segja honum að ég væri að koma "í bæinn" með börnin, athuga hvort hann vantaði eitthvað héðan (þar sem mestallt hans dót er hér) og nefna við hann nokkur praktískt atriði í sambandi við fjármál og fleira sem við erum enn að ganga frá. Hann stoppaði mig í miðju kafi og sagði: "Mig langaði bara að segja þér hvað mér finnst gaman að heyra í þér". Mín varð alveg kjaftstopp. Ég held að hann sé farinn að sakna mín ekkert síður en barnanna. Lífið er skrýtið. Fyrir um 2 mánuðum var það mér efst í huga að finna að ÉG skipti hann einhverju máli en þarna á föstudaginn áttaði ég mig á því að það hvað honum finnst um mig skiptir mig ekki lengur neinu máli. Mér hefur liðið bara alveg hreint dásamlega þessar vikurnar og hef bara ekkert saknað hans Undecided Mér finnst ég standa á stökkpalli inn í nýja og spennandi framtíð og ég viðurkenni það fyrir mér núna að Maðurinn er ekki inni í þeirri framtíðarmynd.

Nosy Tanikely's Dreamy Water


Símtal

Dóttirin hringdi í pabba sinn í dag og setti símann á hátalarann því hún var að athafna sig eitthvað við tölvuna í leiðinni. Ég varð því vitni að hluta af símtalinu og vildi að ég hefði ekki heyrt það. Það var svona:

 

Pabbinn: Ætlið þið að koma til X um helgina eða á ég að koma?

Dóttirin: Komd' þú

Pabbinn: Já allt í lagi

 

Hvað finnst ykkur? Á þetta ekki að koma mér við? Shocking

 

P.s. hefði mátt útskýra þetta betur þetta með x-ið. En ég setti það í staðinn fyrir nafn bæjarins sem Maðurinn býr núna í.


Gleðilega þjóðhátíð

Ég ætla að vera í Þjóðhátíðarfíling í dag, skoppandi út um borg og bí með börnin mín, blöðrur, ís og nammi og hrúgurnar geta bara beðið hér heima.

Njótið dagsins elskurnar mínar og munið af hverju við höldum daginn hátíðlegan. Ekki allir eru svo heppnir að geta fagnað slíkum degi.


Tætingur

 

Í gær byrjaði ég á rosalegri geymslutiltekt. Sú byrjun fólst að mestu í að týna út úr geymslunni kassa, poka og ýmislegt dót og setja það í hrúgur. Ein hrúga sem tilheyrði börnunum, ein hrúga með útilegudóti, ferðatöskum, gestasængum og gestarúmi, ein með öllu sem tilheyrir jólunum o.s.frv. Eftir að hafa útbúið þessar fallegu hrúgur á gangi og holi ákvað ég að hvíla mig á geymslutiltektinni.

Næst dró ég fram gömlu garðsláttuvélina sem faðir minn lánaði mér í fyrra (löng saga en ég hef ekki átt garð til að slá ansi lengi hence engin sláttuvél til í minni eigu) og fór að berjast við að koma henni í gang. Það gekk illa. Maðurinn kom á þessum tímapunkti með Soninn og hann fór að berjast við sláttuvélina með mér. Eftir mikil átök og fikt, bættum við bensíni á hana og nokkrum átökum seinna fór dýrgripurinn í gang. Ég spændi svo um garðflötina og lauk slætti á nýjum mettíma. Æddi síðan alla leið inn á baðherbergi áður en ég áttaði mig á útganginum á mér en það var hægt að rekja grasslóðina eftir mig frá útihurð og að baðkari. Ég var orðin svo þreytt á þessum tímapunkti að ég fór bara beint úr sturtunni í náttfötin og leyfði grasinu að vera á gólfinu.

Dagurinn í dag hefur síðan farið í fasteignabras, atvinnupælingar fyrir systur mína, námskeiðabrölt með barni, gestagang (leikfélagar barnanna sem þurfti líka að sinna), símhringingar... púff man ekki meir. En á þeim stundum sem ég hef náð að anda hef ég fundið fyrir yfirþyrmandi þreytu. Hvort sem um er að kenna litlum svefni, streitu dagsins eða fáránlegu mataræði - líklega bara blanda af öllu þessu. Hrúgurnar góðu skreyta ennþá ganginn og grasið hefur þyrlast skemmtilega yfir þær þar sem ég dr... ekki til að sópa það upp áður en börnin fóru að þeytast um öll gólf, grasið liggur enn órakað á lóðinni því ég hafði engan tíma til að hirða það í dag (svo var líka óhuggulega kalt og óspennandi í dag - afsökun, ég veit) og fyrir utan dyrnar liggja pokar sem eiga að fara í endurvinnslu og fatasöfnun rauðakrossins. Glæsilegt..? Ég er ekki alveg búin ennþá.

Í dag lá leið mín framhjá barnaskóla staðarins og út hljóp starfsmaður skólans til að láta mig vita að þar væri ennþá allur afrakstur Sonarins eftir veturinn Blush Maðurinn var jú með börnin þegar skóla lauk þar sem ég var í útlandinu og ég man eftir að hann talaði um að hann þyrfti að ná í þetta en ég var alveg sofandi fyrir því að það hefði aldrei gerst. Sonurinn er afkastamikill teiknari svo þetta reyndist þó nokkurt magn af ýmiss konar pappír sem myndaði nýja hrúgu þegar heim kom. Um kvöldmatarleitið kom vinur Sonarins í heimsókn og þeir ákváðu að rifja upp minningar vetrarins þannig að núna liggur afraksturinn af teikniæði og fjörugu ímyndunarafli drengsins út um öll gólf, yfir grasslóðina og hrúgurnar.

Hugsið ykkur! Hvernig lítur þetta út þegar ég fer að flytja?

Ég er sprungin á því eftir daginn. Henti mér í sófann eftir síðbúinn kvöldmat og hef síðan úðað í mig sælgæti og kóki. Hefði kannski átt að henda mér yfir hrúgurnar á ganginum til að fullkoman lúkkið.


Í tilefni af EM


Tíu ára krísa!?

Ég er farin að halda að ég hafi of mikinn tíma til að hugsa þessa dagana. Eða ofvirkan huga. Eða.. kannski er ég að forðast að hugsa um ákveðna hluti og hugsa þá um einskis nýta hluti í staðinn Shocking Þetta er orðið svolítið þvælið.

Það sem ég ætlaði að skrifa um var að ég fór að hugsa um að það gerast alltaf einhverjir stórviðburðir í lífi mínu árið sem ég næ heilum tug. Þegar ég varð tíu ára eignaðist ég yngra systkini. Ég hafði verið "litla barnið" fram að því og það breyttist því ansi margt í mínu lífi við þetta. Þarna byrjaði eiginlega átakamikið, erfitt en lærdómsríkt tímabil í lífi mínu sem stóð meira og minna næstu 10 árin. Þau ár einkenndust af einelti, sálarflækjum, fyrstu ástinni, fyrstu ástarsorginni, fyrstu kynnum af sorginni (missti á þessum árum afa, þrjár frænkur og vinkonu) og að sjálfsögðu öllum þessum típísku flækjum unglingsáranna. Hormónarnir að flækjast fyrir manni, tilfinningarnar í flækju, verða skotinn í "röngum aðilum", prófa ýmislegt í fyrsta skipti, áfengi, reykingar, kynlíf, keyra bíl... Ég veit að flestir ganga í gegnum mest af þessu á þessum árum en það urðu svo skýr kaflaskil hjá mér þegar ég varð 10 ára.

Árið sem ég varð tvítug varð mér að mörgu leiti erfitt en samt upphafið af góðum tíma. Það var árið sem kærastinn gekk út og ég fékk hreinlega áfall við þá lífsreynslu. Það árið lenti ég líka í bílslysi sem hafði mikil áhrif á líf mitt á þeim tíma. Árin á milli tvítugs og þrítugs voru að öðru leiti ofsalega góð. Á þessum tíma eignaðist ég marga af mínum bestu vinum (tryggustu vinir mínir í dag eru þeir sem ég eignaðist fyrir 10 ára og á milli tvítugs og þrítugs), ég ferðaðist mikið, fór í skemmtilegt nám, bjó erlendis um tíma og það var mjög góður tími, kom heim og fór í vinnu þar sem taumlaus gleði og húmor réði ríkjum (ég var spauglaust með strengi í maganum dag eftir dag af hlátri og á hverjum morgni hlakkaði ég til að fara í vinnuna), kynntist Manninum og undir lokin á þessu tímabili eignaðist ég Dótturina. Það var árið sem ég varð þrítug!

Árið sem ég varð þrítug byrjuðu fjárhagsvandamálin að gera okkur erfitt fyrir. Næstu árin voru óttalegt basl. Barnabasl, fjármálabasl, veikindi náinna ættingja (mjög erfitt), endalausir flutningar, gera upp hús, kaupa fokhelt og klára það, bílabasl, fluttum erlendis og það var bara basl, háskólanám sem var gífurlega erfitt undir þessum kringumstæðum og allan þennan tíma varð samband okkar algjörlega undir í baráttunni. Við ræktuðum ekki sambandið og við sinntum ekki hvort öðru sem skildi. Það má samt ekki gleyma að Sonurinn fæddist á þessum tíma og hann var (og er) mikill gleðigjafi.

Núna er konan orðin fertug. Þetta árið hefur tekið verulega á a.m.k. enn sem komið er og atburðir orðið sem marka þáttaskil í lífi mínu - eins og þegar ég varð 10, 20 og 30 ára. Athyglisvert að þegar ég upplifi jákvæða atburði sem breyta lífi mínu til frambúðar - eins og þegar ég eignaðist systkini 10 ára - þá fylgja erfið ár á eftir en þegar ég upplifi neikvæða atburði (sem líka breyta lífi mínu til frambúðar) þá fylgja góð ár.

Ef reglan er komin til að vera í lífi mínu þá er núna að byrja 10 ára jákvætt tímabil. Ég er að hugsa um að trúa því en ég ætla að gera betur.. ég ætla að halda áfram að hafa jákvætt tímabil eftir að næstu tíu árum lýkur Wink

Í lokin; 10 ára - fæðing systkinis, 20 ára - "skilnaður", 30 ára - fæðing barns, 40 ára skilnaður.. tilviljun? Líklega.. en skrýtið samt


Örlög? Forlög?

Það er svo skrýtið stundum hvernig hlutirnir virðast eiga að fara á ákveðinn hátt og það er bara alveg sama hvað maður berst upp á hæl og hnakka, maður fær engu breytt. Ég hef oft hugsað um það þessar síðustu vikur hvað mér sé eiginlega ætlað í blessuðum húsnæðismálunum. Allt sem mér dettur í hug klikkar, það húsnæði sem ég er jákvæð fyrir áður en ég fer að skoða reynist ekki hentugt, það húsnæði sem ég vil er ekki í boði og það sem er í boði er eitthvað sem ég hef engan áhuga á. Ég er nú samt ekkert búin að gefast upp. Það er ekki í boði. Ég finn að allt innra með mér fer í uppreisn við tilhugsunina um að vera áfram í því húsnæði sem ég er í núna og þá aðallega vegna þess að hér höfum við Maðurinn búið saman í þrjú ár og ég þarf svo sárlega á því að halda að byrja upp á nýtt á nýjum stað. Það var fyrst í gær sem það hvarflaði að mér að horfa á þetta frá öðru sjónarhorni. Þ.e. að umbylta þessari íbúð. Fara yfir allt dót og losa mig við og henda, fá að mála, breyta uppröðun og jafnvel kaupa eitt og annað nýtt eins og ljós, gardínur eða húsgögn til að breyta stemningunni. Aftur á móti læðist að mér sá grunur að ef ég fer þessa leiðina þá verði ég samt sem áður strax farin að leggja grunninn að því að flytja burt frá litla bænum mínum eftir árið. Þessi húsnæðismál hafa svolítið virkað á mig eins og litli bærinn sé að slá mig utan undir með blautri tusku. Kannski er mér ekkert ætlað að vera hérna mikið lengur.

 


Letilíf

 

 

 

Það hefur verið einhver værð yfir mér þessa dagana. Allt einhvern veginn í slow-motion. Ég (við) ekki enn búin að ganga frá samningnum milli okkar Mannsins, húsnæðismálin á hold, fjármálin í frysti.. ég bara er - ekkert meira. Ég hef lesið óvenju mikið undanfarið, leyst ógrynni af sudoku-þrautum, farið í stuttar ævintýraferðir með börnunum (sundferð, ísferð, verslunarferð o.fl.) og svo bara verið hálfgert zombie inn á milli. 

Um helgina ætla foreldrar mínir að kíkja í heimsókn og ef ég þekki móður mína rétt þá verður eitthvað tekið á því. Konan er vinnualki m.m. og gengur fyrir einhverjum orkugjafa sem flestum er hulinn. Spurning hvort ég næ að tappa af konunni um helgina? Bandit 


I'm back ...

happy-face

Ég fór í vinnutengt ferðalag og hef því verið fjarri öllu bloggeríi undanfarið. Ferðin gerði mér rosalega gott því þó hún hafi verið vinna og álag, þá var mjög gott fyrir mig að skipta um takt í smá tíma. Ég kom heim andlega úthvíld og til í að takast á við mín mál hér heima fyrir.

Er í þessum skrifuðu orðum að stökkva út til að skoða 1 stk hús.. ætla svo að kíkja á bloggvini og sjá hvað er að frétta Smile


Bara smá grín í dag


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband