Færsluflokkur: Bloggar
19.7.2008 | 14:02
Living in a box
Mér er farið að líða eins og ég búi bara í kössum. Það nálgast það a.m.k. Ótrúlegt samt hvað maður á alltaf mikið af dóti þegar kemur að flutningum Ég er sko alls ekki búin að pakka þó hér séu komnar myndarlegar stæður af kössum. Hér er ég því inni í kassasúpunni minni í góða veðrinu og hamast við að pakka og pakka. Sonurinn er hjá pabba sínum og Dóttirin í sundi með vinkonu. Við erum að fá góða vinkonu í heimsókn og ég er að vonast til að við getum lagt aðeins land undir fót í sameiningu, hún, ég og börnin mín En til þess að það gangi upp... er ég farin aftur að pakka. Njótið góða veðursins.. ég geri það síðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2008 | 00:41
Amma
Ég er ein af þessum heppnu sem hef fengið að njóta samverustunda með öfum og ömmum, já og m.a.s. langömmu. Ég áttaði mig ekki á þeim forréttindum fyrr en ég kynntist strák sem átti "eldri" foreldra og hann hafði bara átt eina ömmu á lífi sem hann mundi eftir. Í dag á ég eina ömmu á lífi.
Amma mín er konan sem kenndi mér vísur og þulur þegar ég var lítil. Hún sat með mér ótal stundir út við glugga í litlu íbúðinni sinni og við spjölluðum um það sem fyrir augu bar. Við höfðum alltaf nóg að skoða og nóg að ræða um, hvort sem útsýnið út um gluggann var bara einn lítill skógarþröstur á vappi úti í garði eða heil skrúðganga að fara um götuna. Hjá henni lærði ég svo margt um nægjusemi, þolinmæði, rólyndi, jákvæðni.. að leggja rækt við hlutina og að ekkert verk er of ómerkilegt til að vera unnið vel og af heilindum.
Amma á í dag 46 afkomendur í fjórum ættliðum. Hún hefur búið ein í litlu íbúðinni sinni síðan afi dó fyrir næstum 30 árum og þangað höfum við komið í ótal heimsóknir og alltaf á amma kleinu, heimabakaða köku, heitt á könnunni, mjólk í ísskápnum, notalegt spjall við eldhúsborðið og svona spari fær maður heila máltíð í stofunni. Stofan er full af myndum af afkomendum og öðrum ættingjum auk ævisagnabóka af ýmsu tagi (sem ég las allar upp til agna hér áður fyrr). Það hefur ekkert breyst í litlu íbúðinni hennar ömmu frá því ég man eftir mér, fyrir utan þegar synir hennar tóku sig til og útbjuggu fyrir hana baðherbergi.
Fyrir nokkrum vikum varð ljóst að amma gat ekki búið ein lengur. Hún var farin að setja kælivöru ofan í skúffu, ruglast á nóttu og degi, gleyma að elda matinn eða elda hann og setja hann svo fram í geymslu þar sem hann fannst seinna (orðinn ónýtur). Inn á milli var hún samt hin skýrasta og algjörlega með á nótunum um lífið og tilveruna.
Blóðtappi í heila er ástæðan fyrir ruglinu og í hennar tilfelli ekkert hægt að gera nema láta henni líða sem best. Fjölskyldumeðlimir skiptast á að vera hjá henni þessa dagana og þó einhver munur sé á henni dag frá degi þá er það huggun að hún er ekki kvalin.
Í mér takast tilfinningarnar á. Ég hitti hana stuttu áður en hún veiktist og þá áttum við m.a. stutt spjall um það sem fyrir augu bar út um gluggann. Ég hef hreinskilnislega ekki fundið kjark til að fara til hennar og sjá hana í því ástandi sem hún er í núna. Það er alltof stutt síðan ég stóð í svipuðum sporum og sat yfir dauðvona ástvini dag og nótt. Mér finnst ég bara ekki ráða við þetta núna og skammast mín fyrir það. Eigið þið kjark aflögu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.7.2008 | 00:48
Pökkun
Þetta er það sem líf mitt snýst meira og minna um þessa dagana, kassa og aftur kassa. Það góða er að ég hef bara gaman af þessu og er svo spennt fyrir tímanum framundan. Get ekki beðið eftir að fá húsið mitt afhent og geta látið hendur standa fram úr ermum við að koma mér fyrir. Síðustu dagar hafa samt verið ansi strembnir og þar kemur reyndar fleira til en flutningarnir.. en ég skrifa meira um það síðar. Ég hef ekki sofið nógu vel og er undir miklu álagi allan daginn og hamast þá við að pakka, bæði til að ýta öðrum hlutum frá mér og líka til að koma sem mestu í verk og sem fyrst. Það sem eftir er af júlímánuði er í mikilli óvissu eins og staðan er núna, nema það að ennþá stendur til að ég fari í bústað með börnin. Það kemur sér vel fyrir mig að veðrið er ekki spennandi þessa dagana. Það kallar ekkert á mig að vera annars staðar en hér inni hjá mér að pakka.
Maðurinn kom í heimsókn í dag og við fórum yfir bækur, spólur og dvd myndir. Við höfum ekki verið dugleg við að merkja þessa hluti og þar sem við höfum að mörgu leiti svipaðan smekk þá áttum við stundum í vandræðum með að muna hver átti hvað.. nú eða ákveða hver ætti að eiga það hér eftir. Við ræddum líka skipti á húsgögnum og fleiri munum. Þetta hefur allt gengið mjög snuðrulaust fyrir sig og án átaka en í kvöld reyndar örlaði á eftirsjá og söknuði hjá mér og ég er ekki frá því að hann hafi upplifað það líka. Það er svo skrýtið að þegar við hittumst þá fannst okkur að mörgu leiti eins og við hefðum fundið týnda helminginn. Við höfum svo svipaðan smekk fyrir bókum, myndum, tónlist, húsum, húsgögnum.. og þannig mætti lengi telja. Við deilum líka skoðunum á mjög mörgu í lífinu og tilverunni. Það var því mjög auðvelt fyrir okkur að tala saman fram á rauðar nætur og finna sameiginleg áhugamál til að deila. Á þessari stundu finn ég fyrir ákveðnum vanmætti. Er það alveg vonlaust að maður geti fundið sálufélaga og látið hlutina ganga? Ég trúi varla að ég geti fundið einhvern eins og hann hvað þetta varðar. Hvað þarf til að samband geti gengið upp?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.7.2008 | 18:40
Stelpufrí
Ég ætla að verja komandi helgi í höfuðstað landsins með góðum vinkonum.. ein og barnlaus Á dagskránni er kvöldverður og bíóferð (Mama mia) með Sálufélaganum, grillkvöldverður og rauðvín með Perlunni og verslunarferðir með Litlu systur. Vá hvað ég hlakka til. Ég ætla að kíkja í Ikea og fleiri búðir til að skoða ljós, gardínur og skemmtilega smáhluti til að krydda upp á tilveruna í nýju híbýlunum. Svo á að manna sig upp í að fara í buxnaleit. Leiðist alveg óskaplega að kaupa mér buxur og þarf oft á áfallahjálp að halda eftir slíka ferð. Eins gott að ég verð umkringd góðum sálum með hjartað á réttum stað og styrka öxl til að halla sér að.
Í framhaldinu tekur svo við pökkun og frágangur en ég er líka með í bígerð nokkrar skemmtilegar uppákomur fyrir börnin til að krydda tilveruna. Heimsóknir til góðra vina í sveitina, dýragarðskíkk og fleira. Við förum líka í bústað áður en við fáum nýja húsið afhent og það verður yndislegt að slaka á í heita pottinum og njóta lífsins áður en hasarinn skellur á.
Mikið ofboðslega er lífið yndislegt og spennandi
Eigið góða helgi elskurnar og njótið þess að vera til
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.7.2008 | 14:59
Húseigandi
Þar kom að því. Á reyndar eftir að skrifa undir kaupsamninginn en málið virðist í höfn og ég fæ mitt einstaka hús afhent 1. ágúst Síðustu tveim dögum hef ég varið að mestu uppi í sófa með stafla af húsablöðum ýmiss konar og velt fyrir mér möguleikum. Til að byrja með er stefnan tekin á að mála, setja upp sturtu, rífa niður einn vegg.. setja upp hillur, skápa og festingar til ýmissa nota.. en annars á bara að drífa sig inn í slotið fyrir veturinn og hugsa málin þar. Maður þarf jú að þreyfa á sálinni í húsinu og átta sig á veðri og vindum á svæðinu áður en hægt er að taka stærri ákvarðanir. Dreymir t.d. um bílskúr, verönd, pott.. já og ýmislegt fleira. En einmitt núna er ég bara rosalega hamingjusöm yfir að eiga húsið MITT
Ég er annars að berjast við einhverja slæmsku í kroppnum. Hálsinn sár, orkan í mínus og höfuðverkurinn lætur mig ekki í friði. Ég held jafnvel að þetta sé svolítið sálrænt. Mig dreymdi um að fara í ferðalag með börnin í sumar en það hefur ekki ennþá ræst og núna er lítið eftir af fríinu. Ég er líka að berjast við að koma síðustu málum á hreint á milli okkar hjóna. Peningamálunum blessuðum. Verð mikið fegin þegar það er komið í höfn.
Best að harka af sér og rölta út. Þarf í pappírsreddingar og er svo heppin að geta labbað.. held að það ætti að hressa líkama og sál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.7.2008 | 22:42
Dásemdir einlífsins
Áður en ég byrja á dásemdunum vil ég þakka Rebbý og Ókunnri fyrir þeirra innlegg við síðustu færslu.
Krabbinn er aldeilis ótrúlegt eintak af vinkonu. Þrátt fyrir peningabasl og þar af leiðandi lítil ráð á fatakaupum þá galdrar þessi elska fram flíkur sem breyttu Einstakri úr feita fílnum í skutlu með flottar línur og sjálftraustið rauk upp úr öllu valdi. Eftir að hafa skellt smá lit á andlitið og ýft hárið skunduðu vinkonurnar á djammið. Þar tóku við nokkrir klukkutímar af háværri tónlist, geðveikum troðningi og mörgum óvæntum endurfundum. Að balli loknu þurfti Krabbinn að draga Einstaka í burtu, jafn trega í taumi og hún var við að fara á staðinn!! Úff.. aumingja Krabbinn að eiga svona vinkonu.
Þar sem börnin verða fjarverandi af heimilinu í sólarhring í viðbót ákvað ég að njóta einverunnar í botn og gera eitthvað fyrir sjálfa mig. Eitthvað sem ég á erfitt með að gera með börn á heimilinu. Ég keypti vax og ákvað að spreyta mig á því að fjarlægja eigin óæskileg líkamshár í friði og ró. Jamms.. til að gera langa sögu stutta þá er ég núna búin að gefast upp, eftir klukkustunda baráttu við klístrað vax og uppskeran aðeins sár húð, pirringur og flest óæskileg hár sitja sem fastast á sínum stað. MIG VANTAR VAXFÉLAGA!! Er hægt að fá svoleiðis á netinu? Á Amazon kannski? Eða bjóða í einhvern á E-bay?
Er annars búin að hella hvítvíni í glas og draga fram kassa af húsablöðum. Held ég ráði betur við að hanna nýja heimilið mitt. Vaxið fær að bíða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.7.2008 | 22:12
Út á lífið?
Efast um að ég fái mörg svör hér en ég varð að láta þetta flakka.
Þessa stundina er ég stödd hjá Krabbanum sem vinnur ötullega í því að sannfæra mig um að ég sé gella og hafi fullt erindi út á lífið. Einstakri líður aftur á móti eins og stóra fílnum sem hefur farið í megrun.. lafandi og dillandi eitthvað og eitthvað hingað og þangað. Egóið í mínus og skemmtanafíknin algjörlega í núlli. Löngunin til að vera jákvæð og hress er til staðar en það er eins og lítill púki innra með mér togi í og neiti öllu samstarfi við upprifinn Krabbann sem telur að ég fái einhver mögnuð viðbrögð ef ég bara sýni mig meðal lifenda (eða "dauðra"!?).
Hvað skal gera? Setja upp sparibrosið og vona að enginn sjái að glóðin er dauð hið innra (og vona að enginn verði fyrir hristandi keppunum í dansfílingnum) eða halda sig stíft við að vera félagsskítur og hanga innandyra við rauðvínssötur og fara snemma í rúmið?
(Svei mér þá... Krabbinn er farinn að rífa fram eigin fataskáp til að reyna að ná mér út úr "skápnum")
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2008 | 00:46
Smá mistök
Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar var Ein-stök að komast að því að hún er bara ennþá harðgift, thank you very much! Eins gott að maður hefur ekki hlaupið á sig á þessum tíma og orðið uppvís að framhjáhaldi eða hórlifnaði eins og það er einhvers staðar kallað. Ég var annars ansi stutt í löglegu sambandi og hef því stundað hórlifnaðinn ansi oft og lengi á ævinni
En aftur að mistökunum. Ég nefnilega lenti í þeirri óþægilegu, gamalkunnu, en samt sem áður löngu gleymdu, aðstöðu um daginn að eiga ekki til hnífs og skeiðar. Þá rifjaðist upp sú staðreynd að ég hefði ekki ennþá sótt um meðlag og ekki gengið eftir frágangi á fjármálum milli okkar hjóna. Ég hringdi til að kanna þetta með meðlagið og fékk þá þær upplýsingar að umsókn mín um meðlag (sem ég átti eftir að fylla út) yrði ekki gild fyrr en við værum búin að skila inn samningi okkar á milli svo hægt væri að taka skilnaðarmálið fyrir. Þá semsagt áttaði Ein-stök sig á því að hún væri bara alls ekki ein eða stök.. þó hún sé náttúrulega samt sem áður EINSTÖK. ALVEG EINSTÖK meira að segja
En nú er búið að ganga frá samningnum, frágangur á fjármálum er langt kominn, meðlagið komið í kerfið (fæ greitt síðar í mánuðinum) og minns getur með sanni farið að kalla sig Ein-staka... aftur.
Já og ég gerði tilboð í hús í dag, föstudag. Hugsið fallega til mín elskurnar því ég þarf að bíða þar til á mánudag eftir svari.. er samt byrjuð að raða húsgögnunum niður í nýju híbýlin og skipuleggja breytingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2008 | 12:13
Á lífi..
Ég gat ekki látið þessa þunglyndislegu færslu standa óáreitta lengur. Búnir að vera ágætir dagar undanfarið. Er enn í tiltekt og hreinsunum og er svo heppin að foreldrar mínir ætla að slást í lið með mér í dag. Dóttirin fór í heimsókn til pabba síns en Sonurinn kúrir hjá mömmu á meðan.
Ég er búin að vera að taka á hreyfingunni hjá mér undanfarið og sett hana í forgang fyrir allt annað (nema börnin að sjálfsögðu). Ég hef komist að því að þreki og þoli hefur farið aftur en aftur á móti virðist ég mjög fljót að ná því upp og andleg líðan nýtur góðs af í leiðinni.
Aftur í puðið sem, ótrúlegt en satt, ég er að njóta alveg í botn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2008 | 11:58
Tætibuska
Það er voðalega skrýtið ástand hjá mér þessa dagana. Ég er að atast í mörgu, verð fyrir alls konar truflunum, næ ekki að klára neitt og pirringurinn vex með hverjum deginum.
Í gær festi Maðurinn kaup á íbúð. Ég samgleðst honum og bauð honum m.a.s. í mat til að fagna. Í dag fann ég samt gömlu öryggisleysistilfinninguna hellast yfir mig. Þessi ímynd af því þegar hann kemur og týnir saman dótið sitt en ég sit eftir með minningarnar og sundurtætt húsakynni. Ég veit að ég er að díla við gamla drauga og þarf bara að koma hausnum út úr þessum hugsanagangi. Ef ég á að segja eins og er þá held ég satt að segja að mig sé farið að vanta tíma fyrir mig eina. Smá "alone time". Ég hef verið með annað barnið eða bæði alla daga (2 daga með annað-hina með bæði)síðan 8. júní. Við erum saman alveg 24/7 og þó börnin mín séu yndisleg og gaman að vera með þeim þá er ég hreinlega farin að finna fyrir svona álagseinkennum. Stöðugt áreiti og maður er alltaf "á vaktinni". Aðalástæðan er náttúrulega ekkert börnin heldur það að þetta er tími mikilla breytinga og ég hef svo margt að hugsa og þarf hreinlega að fá að fara í gegnum það. Á sama tíma eru þau náttúrulega líka að ganga í gegnum miklar breytingar og kunna ekki alveg að bregðast við þeim. Dóttirin er farin að loka sig ansi mikið af, það þarf að ýta henni út um dyrnar til að hún fari og hitti vinina og Sonurinn tekur skapofsaköst sem eru algjörlega "out of character" fyrir hann. Þannig að á meðan ég er að berjast við eigin drauga og eigin hugsanir þá þarf ég ótal sinnum yfir daginn að draga djúpt andann, telja niður í huganum áður en ég tek á ótal litlum málum sem varða börnin.
Í guðs bænum ekki taka þessu sem einhverju væli og fara að segja mér að taka mig saman í andlitinu eða skammast mín fyrir að vorkenna sjálfri mér þegar börnin mín eigi erfitt. Ég er aðallega að "tappa af". Ég geri mér grein fyrir því að margir berjast við stærri hluti en ég. Í dag er mitt Everest bara eitthvað svo óhugnanlega stórt og óyfirstíganlegt.
Og eftir að hafa tappað af... þá ætla ég að ráðast á eitthvert af verkefnunum mínum og stefna á að klára nokkur í dag. Wish me luck.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)