Færsluflokkur: Bloggar
11.10.2008 | 16:34
Rautt ... eða hvað?
Ég er smá saman að koma heimilinu mínu í stand. Gengur frekar hægt hjá einstæðri, tveggja barna móður í rúmlega fullri vinnu en.. það kemur.. Áður en ég byrjaði að pakka á "gamla staðnum" var ég búin að ákveða að hafa rautt þema í nýja svefnherberginu mínu og með það í huga safnaði ég ýmsu saman sem passaði inn í rauða-svefnherbergis-þemað mitt. Svefnherbergið er ekki nema hálfklárað ennþá en þangað eru komnar rauðar seríur, ýmsir gripir frá börnunum mínum eins og Valentínusar-hjarta, rautt handarfar lítillar stelpu og sætur rauður kertastjaki. Þetta verður voðalega kósý þegar allt er komið og þarna ætla ég mér að eiga ljúfar stundir. Fyrst aðallega ein með sjálfri mér. Ég verð að viðurkenna að rauði liturinn var dálítið valinn með það í huga að ég ætlaði að fá meiri ástríðu í lífið. Í dag væri ég reyndar meira til í bláan lit eða grænan. Ég varð nýlega á milli tannanna á Gróu frá Leiti og lét það ekki ná mér fyrr en í dag. Það er hægt að taka á ýmsu þegar maður einn fær að finna fyrir neikvæðu afleiðingunum en það stingur þegar það bitnar á fólki í kringum mann. Í dag veit ég ekki hvort mig langar meira til að pakka saman og flytja.. eða ganga í klaustur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.10.2008 | 22:08
Hann er kominn aftur...
.. hláturinn
Neyddist til að fara á "viðburð" í dag sem ég ætlaði alls ekki að nenna á.. en viti menn.. það var svooo gaman Ég hló bara alveg helling í dag og vá hvað mér líður mikið betur. Er svo heppin að til stendur að ég fari í hitting fljótlega þar sem örugglega verður mikið hlegið líka.
Varð bara að deila þessu með ykkur. Óska þess að þið njótið þess að hlægja hátt og hjartanlega eins og ég gerði í dag.. sem mest og oftast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.10.2008 | 17:41
Andleg ládeyða
Þetta hefur verið skrítinn tími. Það var orðið svo langt frá síðustu færslu og mér fannst ég verða að skrifa eitthvað en ég hef í raun ekkert að segja. Upplifi sjálfa mig sem tilfinningalega flatneskju þessa dagana. Tíminn flýgur frá mér, lítið gerist, ég er alltaf ósátt við eigin frammistöðu í öllum mínum hlutverkum og ég virðist hvorki geta grátið né hlegið nýlega. Kannski þarf ég bara hvíld frá öllu tilfinningalegu róti.
En ég er a.m.k. á lífi og verð sjálfsagt bara að þrauka þetta tímabil eins og annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2008 | 23:25
Um sorgina
Ég átti bara ekki til orð til að lýsa tilfinningum mínum um daginn.. og á það í raun ekki ennþá. En sorgin í þetta skiptið tengist ótímabæru dauðsfalli einnar yndislegustu manneskju sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, henni Hrafnhildi Lilju. Ég er ennþá dofin og alls ekki búin að átta mig á þessari ömurlegu og óafturkallanlegu staðreynd. Það bara helltist yfir mig sorg, doði, vantrú, reiði.. já og svo ótal margt annað. Einhver erfiðasta vika sem ég hef upplifað er að renna sitt skeið og það tengist því miður fleiru en þessari sorg. Samt sem áður á ég ennþá eftir stór og erfið verkefni áður en vikunni lýkur. Verkefni sem ég er engan vegin tilbúin til að takast á við.
Ég er ekki ein af nánustu ættingjum Hrafnhildar Lilju en við erum svo mörg sem syrgjum hana. Ég finn svo innilega til með fjölskyldunni hennar sem er enn einu sinni að takast á við sorgina eftir sviplegt fráfall fjölskyldumeðlims og ég hugsa til þeirra látlaust. Því miður þekki ég ekki fjölskylduna hennar, þó ég hafi verið svo heppin að fá að kynnast henni, en vonandi fæ ég færi á því að sýna þeim á einhvern hátt hvað það gaf mér mikið að kynnast henni.
En núna verð ég að reyna að sofna. Verkefnin bíða á morgun og ekkert hægt að hlaupast undan þeim. Góða nótt elskurnar og munið að að njóta ástvina ykkar, faðma þá oft og segja þeim endalaust hvað þeir séu frábærir og stórkostlegir og hvað þið elskið þá mikið. Þannig var mín kæra Hrafnhildur Lilja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.9.2008 | 15:21
"Skemmtanalífið"
Fór út á lífið í gær. Rosalega gaman og ég hitti fullt af skemmtilegu fólki. Ég á samt í dálítilli krísu með þetta svokallaða skemmtanalíf. Þegar fólk fær sér í glas losnar um ýmislegt og fólk fer að opna sig um alla mögulega og ómögulega hluti. Ég bý í það litlu samfélagi að flestum er kunnugt að ég er núna "á markaðnum" og það hefur sín áhrif. Einhverjir hafa verið að sýna áhuga og svo virðast ansi margir finna ástæðu til að tjá sig þegar þeir eru í glasi um kosti eða galla ýmissa vonbiðla.
Það stuðaði mig í nótt hversu margir giftir fóru að gera hosur sínar grænar fyrir mér . Bæði konur og karlar. Ég bara fíla ekki svoleiðis. Sumir voru ekki einu sinni að leyna því að þeir væru að sækjast eftir einhverju hjá mér og urðu sér hreinlega til skammar. Mér finnst það ömurlegt fyrir maka viðkomandi og vona að bærinn fari ekki að líta á mig sem hugsanlegan hjónabandsdjöful
Svo er ný persóna komin til sögunnar í sápuóperu Ein-stakrar. Ég kalla hann Riddarann. Hann hefur sýnt mér áhuga en á mjög kurteisan og hógværan hátt. Er opinskár um að hann hafi áhuga en er ekkert að bögga mig neitt. Ég er búin að komast að því að hann á eitt og annað sameiginlegt með Manninum sem bæði heillar mig og hræðir. Núna í morgun varð ég að horfast í augu við það að ég væri að verða háð þessum áhuga hans. Það er notalegt að finna að einhver hafi einlægan áhuga á manni og sýni manni umhyggju á þann hátt sem hann gerir, án þess að vera kæfandi. En ég held að kannski sé ég að verða hrifin af hrifningu hans! Meikar það sens? Ég meina.. hann er ljúfur og notalegur og góður maður í alla staði. En ég er orðin dauðhrædd um að særa hann ef ég hafna honum ekki strax. Ég er ekkert að gefa honum undir fótinn en ýti honum heldur ekki frá mér. Hann hefur sjálfur gengið í gegnum skilnað og við ræddum það lítillega í nótt að það tæki sinn tíma að klára slíkt ferli. Nú velti ég því fyrir mér hvort ég verði að vera hörð og útskýra fyrir honum að áhugi sé ekki fyrir hendi, svo hann sé ekki að eyða tíma sínum í að bíða eftir að ég verði tilbúin fyrir annað samband.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2008 | 01:51
Skiptir stærðin máli?
Ég hef lent í (fyrir tilviljun?) þremur umræðum nýlega um stærð getnaðarlima.
Við vinkonurnar höfum þá verið að bera saman reynslu okkar og velta fyrir okkur stærðum og upplifun af mismunandi stórum limum.
Ein lýsti því að hún hefði hreinlega ekki fundið að vinurinn var kominn inn
Önnur talaði um nettan vin sem hún með um tíma og lýsti þeirri upplifun þannig að vinurinn hefði ekki haft stærra hlutverk en snípurinn (sem sumum finnst nú reyndar gegna ágætis hlutverki en ég veit ekki hvað karlmönnum þætti um samlíkinguna).
Nokkrar töluðu um það að hafa upplifað að vera með karlmönnum með einstaklega stóra limi og að sú reynsla hefði verið meira sársaukafull heldur en ánægjuleg.
Eftir þessar sögur og margar aðrar var sameiginleg niðurstaða sú að stærðin skipti í raun ekki máli en að karlmenn með litla félaga væru oft nærgætnari við konur og kannski vanari að hafa meira fyrir hlutunum því þeir gæfu sér oftar góðan tíma til að dekstra við konuna. Að sama skapi virðast þeir með stóru vinina oft of uppteknir af eigin stærð og mikilfengleika til að hugsa um nokkuð annað. Engu líkara en þeim finnist stærðin ein skipta máli og vera gulltrygging fyrir ánægju beggja aðila.
Að sjálfsögðu er þetta ekki algilt en mér þætti gaman að vita hvað karlmönnum þætti um þessar pælingar. Líka hvort þeir spá í konur á svipaðan hátt? Er eitthvað við okkur sem þeim finnst við of uppteknar af? Já maður má nú spekúlera
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2008 | 00:31
Laughing my ass off..
Eftir erfiða viku með veikindum, sálarangist og ýmsum flækjum ákvað ég að létta mér tilveruna í kvöld með samveru við nokkra unglinga. Það borgaði sig aldeilis. Ég hló svo mikið að mig verkjaði í andlitið þegar heim kom.. rassinn verður sóttur seinna..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.9.2008 | 09:36
Upprisa
Í gær svaf ég slatta, hugsaði mikið, ældi, skældi og .. já kannski óþarfi að fara út í allar hliðar á þessum veikindum.. En með líkamlegum veikindum hefur andlega hliðin farið flikk-flakk og heljarstökk. Ég grét m.a.s. í fanginu á Manninum sem hughreysti mig og sagði við mig það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig í LAAAANGAN tíma. Ég veit ennþá ekki hvort mér líður betur eða verr eftir að hafa grátið fyrir framan hann. En í gær sannfærðist ég um að við öll þurfum meiri faglega aðstoð í gegnum þetta. Börnin hafa bæði átt erfitt. Þau sýna það á ólíkan hátt en þeim líður báðum illa og í gegnum samtal okkar Mannsins í gær varð mér ljóst að honum hefur ekki liðið neitt betur en mér. Hann stakk upp á (og bauðst til) að hringja í Ráðgjafann sem við fórum til í fyrravetur og ræða málið við hann. Það er í fyrsta skipti sem hann hefur tekið af skarið með eitthvað í þessu ferli og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég hef ekki hugmynd um hvert þetta leiðir okkur en ég er nokkuð viss um að þetta er rétt skref.
Ég held að líkamleg veikindi séu að yfirgefa mig. Ákvað að halda mig heima í dag líka til að ná upp líkamlegum og andlegum kröftum. Vinnan mín er nefnilega mjög krefjandi á andlegu hliðina og nauðsynlegt að vera 100% fær um að takast á við það. Í dag ætlar Ein-stök að rísa upp úr öskustónni og byrja upprisuna hægt og rólega. Mér hættir til að vilja klára hlutina af í einum hvelli og líkar ekki að dvelja við sársaukann. Ég held ég verði samt að kyngja því að ég flýti ekki þessu ferli, hvorki hjá mér né öðrum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.9.2008 | 17:32
Hrun
Stundum held ég að ég sé einhver súperkona. Ég geri miklar kröfur á sjálfa mig. Í vinnu, heima fyrir, sem móðir, vinkona o.s.frv., o.s.frv. Í dag er dagur uppgjafar. Ég er búin á því. Líkamlega útkeyrð, andlega úrvinda, hef ekkert að gefa, verkefnin hlaðast upp og mér finnst ég ekki ráða við neitt í lífi mínu þessa dagana. Í nótt varð ég alveg fárveik og ældi lifur og lungum. Fjörið hefur haldið áfram í dag og magauppreisnin fær útrás í báðar áttir (jebb.. bæði Gullfoss og Geysir). Ég hef aðallega nærst á bláberjasúpu og eplasafa. Fyrir um klukkutíma fékk ég lyst á kók og súkkulaði.. og engu öðru.. svo núna er ég búin að liggja fyrir og spæna í mig súkkulaði og líður þessa stundina eins og stóra, feita, lata og vonlausa fílnum. Börnin eru hjá mér þessa helgi og það bætir ekki líðanina að vera algjörlega ófær um að sinna þeim af neinu viti. Það erfiðasta við daginn var svo þegar ég heyrði í Manninum áðan. Hann ætlar nefnilega að hitta börnin á morgun og ég hringdi í hann til að fá nánari plön hjá honum svo ég vissi hvernig ég ætti að haga morgundeginum og þegar hann vissi af ástandinu á mér þá talaði hann svo fallega og innilega til mín að ég brotnaði niður og fór að gráta. Hann heyrði það samt ekki því ég náði að kveðja áður en ekkinn náði yfirhöndinni. Voðalega getur maður verið aumur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)