10.1.2009 | 14:07
Árið 2008 endanlega kvatt... með lítilli eftirsjá..
Ég var búin að lofa áramótauppgjöri en það hefur heldur betur staðið í mér. Á tímabili var það mér hreinlega ofviða að fara yfir árið því það rifjaði upp alltof margar sárar minningar. Ég geymdi það því aðeins. Svo var líka að þvælast fyrir mér að þetta yrði bara væl og sorg og söknuður og erfitt.. og ekkert jákvætt. En maður vill jú byrja nýtt ár fullur jákvæðni og bjartsýni.
Ég hef stundum skrifað dagbók og á dagbókarskrif síðan um síðustu áramót. Í dag finnst mér alveg hræðilegt að lesa þessi skrif en á sama tíma get ég glaðist yfir að ég er ekki í sömu sporum í dag. Mér leið hræðilega um síðustu áramót og janúar var svo erfiður að ég man varla eftir honum. Í febrúar átti ég stórafmæli sem ég var engan vegin fær um að halda upp á. Ég ákvað að fresta öllum veisluhöldum og sú veisla hefur ekki verið haldin ennþá. Aftur á móti fann ég vel þennan dag hvað ég á marga góða að því þrátt fyrir allt varð dagurinn ógleymanlegur. Febrúar var að öðru leiti næstum jafn erfiður og janúar.. örlítið léttari á tilfinningasviðinu þó. Í mars tókum við hjónin ákvörðun um að skilja og þá byrjaði ég að blogga. Sá mánuður var í raun og veru ekki sá erfiðasti en það tók verulega á að tilkynna sínum nánustu um stöðuna. Ég varð líka lasin í þessum mánuði sem ég skrifaði algjörlega á álagið. Apríl var mánuðurinn þar sem þurfti að takast á við viðbrögð ættingjanna og það var mjög erfitt.. en lagaðist eftir hreinskilnar samræður. Börnin þurftu líka sitt á þessum tíma en við ræddum þetta við þau þarna um mánaðarmótin Apríl/Maí. Á þessum tíma var að komast meira jafnvægi á hlutina innra með mér þó mér liði engan veginn vel ennþá. Ég var ennþá á lyfjum til að takast á við kvíða (fór á þau í Febrúar) og notaði svefntöflur annað slagið til að ná að hvílast. Í Júní var mér farið að líða betur og þá hætti ég að nota öll lyf. Júní og júlí voru nokkuð þægilegir. Rólegir en lítill sumarleyfisfílingur þetta sumarið af ýmsum ástæðum. Í Ágúst keypti ég húsnæði og vann í því eins og berserkur.. og amma dó Það var mjög erfiður tími. September var brjáluð vinna.. heima og heiman og mikið álag, bæði andlegt og líkamlegt. Október var mjög svipaður. Nóvember var mjög erfiður því ofan á annað álag urðu tvö andlát í fjölskyldunni og það var bara mjög erfitt að takast á við það eftir það sem á undan var gengið. Í dag sit ég uppi með þá tilfinningu að ég hafi ekki staðið nógu þétt við bakið á einni af mínum bestu vinkonum þegar hún missti pabba sinn en ég átti ekkert eftir til að gefa á þessum tíma. Ég skreið í skjól eins og sært dýr og sleikti sárin. Desember var frekar skrítinn mánuður. MJÖG erfiður fyrri hluti en seinni hlutinn friðsamari og eiginlega hálfgerður lognpollur eftir storminn. Það var bæði ljúft og sárt. Í rólegheitunum og friðnum sem jólin buðu upp á hafði ég nógan tíma til að hugsa og það var oft mjög erfitt. Ég fékk holskeflu tilfinninga yfir mig. Jólin voru jól sorgar og einmanaleika. Ekki misskilja mig.. ég á marga góða að og ég naut samverustunda með börnunum mínum og öðrum ástvinum. Ekki síst eftir að hafa misst náinn ættingja svo stuttu fyrir jól.. þegar maður gerir sér grein fyrir hversu skyndilega ástvinirnir geta horfið frá manni, þá einhvern veginn metur maður það sem maður á betur. Ég held að þessi tómleikatilfinning og sorg hafi bara verið eðlileg eftirköst eftir allt sem hafði gengið á yfir árið.
Með þessari sorglegu rullu segi ég endanlega skilið við árið 2008 og tek á móti 2009 sem verður hamingjuríkt og gleðilegt ár :D
Athugasemdir
Það líst mér vel á, taka á móti árinu með bjartsýni og von.
Ég samhryggist þér varðandi þá sem hafa fallið frá.
Lífið gefur og lífið tekur - þetta sagði hún móðir mín einu sinni við mig þegar ég var lítill og ósáttur við lífið og tilveruna. En þá sótti oft í öruggt og opið fang hennar - sem svo læknaði allt.
Það er eitthvað við þessi skrif þín sem fá mann til að kíkja við og lesa það sem þú blogga um. Það er kannski vegna þess að þú hefur verið eitthvað svo einlæg og hreinskilin í skrifum þínum hérna á bloggsíðunni.
... endilega haltu því áfram.
Gleðilegt ár og megi algóður Guð fylgja þér og þínum á lífsbrautinni.
kv, GHs (spámaður)
Gísli Hjálmar , 10.1.2009 kl. 17:39
Árið 2009 mun vonandi verða léttara.
Tek undir með Gísla að ég samhryggist vegna þeirra sem féllu frá.
Rebbý, 10.1.2009 kl. 22:39
Takk fyrir þessi fallegu orð og hlýhug Gísli minn (Spámaður m.m.) Óska þér og þínum velfarnaðar á þessu nýja ári... og um ókomna tíð.
Takk Rebbý mín.. og já, ég vona (trúi) að þetta ár verði léttara.. og gleðiríkara..
Ein-stök, 11.1.2009 kl. 02:13
Þú ert búin að ákveðja að nýja árið verði hamingjuríkt og gleðilegt .....þá er ekki um neitt annað að velja en að meika það besta úr því. Horfa á björtu hliðarnar og brosa. Ég trúi að þér takist það sko vel. Knús og klemm í klessu og mundu ....þú getur þetta
JEG, 11.1.2009 kl. 10:59
Takk JEG og ég held að þetta sé einmitt málið. Ákveða fyrirfram að þetta verði gott ár og tækla svo hvert verkefni fyrir sig með bros á vör. Ég er ekki verri manneskja þó mér takist það ekki alltaf en ég ætla svo sannarlega að gera mitt besta.
Knús og klemm til baka mín kæra
Ein-stök, 11.1.2009 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.