4.12.2008 | 12:17
Ást óskast
Ég held ég hafi sjaldan þráð það svona heitt að verða ástfangin. Það er svo langt síðan ég var það síðast og ég verð að viðurkenna að stundum fyllist ég vonleysi yfir að það eigi eftir að gerast aftur. Það er náttúrulega ekkert langt síðan ég skildi en það er í raun og veru aukaatriði. Þetta er bara tilfinning sem lætur mig ekki í friði.
Nýlega áttum við Maðurinn gott spjall og ég held að við höfum náð að gera upp síðustu atriðin í okkar sambandi. Ég fékk a.m.k. ákveðna lausn frá hlutum sem hafa verið að angra mig og leið mikið betur á eftir.
Annars hafa síðustu vikur tekið verulega á og fátt af því sem þar hefur gengið á snertir skilnaðinn. Þetta hefur verið tími endalausra áfalla, jafnt vegna hversdagslegra hluta á borð við rafmagnsbilana og pípulagnavesens sem og alvarlegri og sárari atburða eins og andláts, ekki bara eins heldur fleiri ástvina. Ég hef þess vegna lítið skrifað á bloggið undanfarið og það sem ég hef skrifað hefur verið ansi mikið litað af þessum erfiða tíma. Ég ætlaði mér alltaf að skrifa á þetta blogg það sem snerti skilnaðinn og mínar tilfinningar í kringum hann og þess vegna vildi ég vera nafnlaus. Ég hef því ekki verið að tíunda alla þessa atburði hér á síðunni en vildi nefna þetta núna þar sem ég sé að depurðin skín í gegn í skrifum mínum og fólk er að rangtúlka það. Ég er EKKI í sorg vegna skilnaðarins, né dvel ég í fortíðinni hans vegna. Ég finn alveg fyrir sorg annað slagið vegna þess sem er liðið, en ég vil ekki að þið haldið að ég liggi heima hjá mér útgrátin í ástarsorg. Ég syrgi marga þessa dagana og felli mörg tár en þau eru ekki vegna Mannsins eða þess sem við áttum saman.
Ég vona svo innilega að þið séuð að njóta aðventunnar betur en ég og minni ykkur aftur á að knúsa ástvinina oft og segja þeim hvað þeir skipta ykkur miklu máli. Við vitum ekki hvað við fáum mikinn tíma saman. Kærleiksknús til ykkar allra
Athugasemdir
Mikið rosalega líst mér vel á þig núna.
Þú virðist bara vera mannleg ... með væntingar til lífsins og alles.
Sennilega hef ég eitthvað misskilið bloggfærslur þínar um daginn. Og ég biðst velvirðingar á því.
Það er gott að elska, söng Bubbi nokkur Morthens um dagana. Ég get tekið undir það með þér og Bubba. Það er gott að elska. En það verður þá líka að vera gagnkvæmt á milli aðila - ekki satt?
Þú átt örugglega eftir að finna einhvern sem vekur upp þessar tilfinningar hjá þér aftur. Hann er samt sennilega ekki á skemmtistöðunum. En hann kemur þegar hann á að koma - vertu viss!
Samkvæmt svo mörgu þá virðist nikkið þitt eiga vel við þig.
Þú ert örugglega vel menntuð. Þú virðist vera ákveðin. Þú veist hvað þú vilt og þú veist hvað þú vilt ekki. Það kæmi mér ekki á óvart að þú sér td. kennari í framhalds- eða háskóla.
... og þú hefur snyrtilega og aðlaðandi framkomu - allt framkomið byggi ég á því sem hægt er að lesa úr bloggfærslum þínum.
En ... mér hefur nú oft skjátlast á lífsleiðinni - kannski er það einnig núna.
Njóttu vel.
kv, GHs
Gísli Hjálmar , 4.12.2008 kl. 13:06
Það er aldeilis rulla Gísli Hjálmar! Gott að sjá að þú áttaðir þig á því að ég væri mannleg (hehe).
Þú ert glöggur þykir mér. Lýsingin passar bara ansi vel
Varðandi ástina.. þá er ég að reyna að trúa því að hún banki upp á þegar tíminn er réttur. Held einmitt að skemmtistaðir séu ekki álitlegur kostur til að leita á..enda forðast ég slíka staði.
Takk fyrir minn kæri
Ein-stök, 4.12.2008 kl. 14:34
Ég samhryggist þér, Ein-stök mín.
Ástafanginn..... úff já takk. Haldast í hendur, hvíslandi leyniorðum og liggja í faðmi þess sem elskar þig. Góðir tímar.
Þetta kemur krútta, allt gott gerist hægt. Ástin bankar upp á hjá þér þegar að þú ert tilbúin.
Sporðdrekinn, 4.12.2008 kl. 15:46
Takk fyrir það elsku Sporðdreki.
Nákvæmlega þessi lýsing hjá þér segir það sem ég hef verið að hugsa. OH.. hlakka svo til að upplifa þetta aftur.
Ein-stök, 4.12.2008 kl. 16:20
Þar sem þú ert nú svo elskuleg þessa daganna þá er ekki úr vegi að spyrja þig hvort ég ætti kannski að leggja fyrir mig spádóma sem aukavinnu?
Ég sé td. að framundan eru erfiðir tímar, hjá mörgum, á mörgum stöðum, í mörgum löndum og á margan hátt.
... svolítið margslungið - en satt engu að síður.
Ég spá þér líka glæstri framtíð. Þú þarft bara að fatta það
Njóttu helgarinnar
kv, GHs
Gísli Hjálmar , 4.12.2008 kl. 18:05
Þessa dagana? Látt'ekki sonna.. ég er ALLTAF elskuleg
En .. já, það er ekki nokkur spurning Gísli minn. Spádómar liggja greinilega vel fyrir þér. Líst best á þetta með glæstu framtíðina mína. Má ég kannski biðja þig um að minna mig á það reglulega að ég EIGI glæsta framtíð!?
Vona að þú njótir þinnar helgar (en þú hinn mikli spámaður veist náttúrulega nákvæmlega hvernig þín helgi verður!?)
Kv
Ein-stök, 4.12.2008 kl. 18:47
Talandi um miðla þá finst mér alltaf jákvætt þegar viðkomandi endar rulluna hjá sér og segir, Vertu ÞÚ ... Það felst svo mikið í því að vera við sjálf.
Það er yndisleg tilfinning að vera ástfangin, vera hálf dofin og kæruleysileg, með þúsund fiðrildi í mallakútnum og hálf þvalur í lófanum. Ég er búin að upplifa svona tilfinningu 2x og í hið seinna var ég sko ekkert á leið í ástina.
Hún koma óvænt en get sagt þér að þessi ást sem ég upplifi núna beið nokkur lífsskeið ....
Sendi þér sætt faðmlag því þegar upp er staðið erum við öll ein í heiminum!
www.zordis.com, 6.12.2008 kl. 13:27
... og hvernig gengur svo leitin ?
Gísli Hjálmar , 8.12.2008 kl. 16:17
Leitin Gísli Hjálmar? Meinarðu þá leitin að ástinni? Ég ætla sko að bíða eftir því að hún banki upp á, sjáðu til. Sendi huglæg boð út í tómið og óska eftir þessari einu sönnu... það hlýtur að virka?
Ein-stök, 9.12.2008 kl. 19:42
Þú finnur ekkert í tóminu manneskja.
... komon!
Gísli Hjálmar , 9.12.2008 kl. 20:58
hehe.. og hvað leggur þú til, mikli miðill?
Ein-stök, 9.12.2008 kl. 22:57
Það er nú alltaf hægt að ráða sig á góðan frystitogarar - svona ef allt annað þrýtur.
... annars skal ég kíkja í kúluna mína og sjá hvort ég finni ekki eitthvað annað ráð fyrir þig.
Gísli Hjálmar , 10.12.2008 kl. 08:19
Frystitogara.. já það er alveg hugmynd. Held samt að það sé vinna sem henti illa fyrir einstæða móður !? Með fullri virðingu fyrir sjómönnum á frystitogurum þá finnst mér þeir reyndar ekki bestu kandidatarnir í fjölskylduföðurhlutverkið. Eða.. var það ekki annars það sem þú varst að meina?..
Kíktu í kúluna maður og segðu mér eitthvað krassandi
Ein-stök, 10.12.2008 kl. 19:41
Hummhum, hóst, hóst!
Þú munt sennilega fara í jólaköttinn. Það er allavega eitthvað svoleiðis dýr sem birtist í "kúlunni" ... ertu kannski með ofnæmi fyrir köttum?
Jæja, hvað sem því líður þá verður þú fyrir einhverju sem mun gleðja þig á einhvern hátt. Það mun ske einhvern tímann og við einhverjar sérstakar aðstæður á næstu mánuðum.
Þú munt einnig þurfa þess að láta einhvern skipta um smurolíu á bíl þínum, einhvern tímann í vetur - allavega einhvern tímann fyrir vorið.
Þú munt verða full ef þú drekkur of mikið af Rauðvíni í starfsmannapartýinu. Og sennilega verða þér til ævivarandi skammar.
Það mun leiða til þess að Þú munt leggjast inná meðferðarstöðina Vog. En þar kynnist þú væntanlegum sambýlismanni þínum. Sá maður verður þá búinn að fara í 38 meðferðir á Vogi - og mun þurfa á einni meðferð að halda til viðbótar eftir að þig ruglið saman reitum ykkar. Bara vegna þess hversu slæm fyllibytta þú varst orðin.
... að öðrum kosti munt sennilega bara mæta í vinnunna þína einsog ekkert hafi í skorist.
Og þú munt einnig sinna börnum þínum tveimur og heimili einsog frábær móðir sem þú gerir alltaf.
kv, Spámaðurinn
Gísli Hjálmar , 11.12.2008 kl. 10:39
Annars grínlaust þá er þetta það bezta. Hlustaðu vel á textann. Þetta á nefnilega svo rosalega vel við í lífinu - oft á tíðum allavega.
http://www.youtube.com/watch?v=8Kd8xp86reY
Gísli Hjálmar , 11.12.2008 kl. 13:12
Gísli Hjálmar.. þú ert bara snillingur. Held ég hafi aldrei fengið eins ítarlega framtíðarlýsingu. Læt þig vita þegar þetta er allt komið fram
Ætla núna að hlusta...
Ein-stök, 11.12.2008 kl. 20:52
... og hvernig fannst þér textinn?
Ég get alveg spáð betur fyrir þér.
Það kostar bara meira. Þú veist ... kreppan og allt það
Gísli Hjálmar , 12.12.2008 kl. 16:52
Textinn er góður.. og lagið yndislegt.
Skil að þú verðir að verðleggja frekari spádóma enda algjörlega gulls ígildi.. sjáum hvernig þetta lítur út á næstu dögum .. eða vikum Ég á það þá inni hjá þér.
Ein-stök, 13.12.2008 kl. 17:57
Passaðu þig bara að vera ekki svo ástfangin af ástinni, að hvaða fífl sem er passar í grímubúninginn ;)
Bullukolla, 21.12.2008 kl. 01:03
Vá Arna.. ég var að uppgötva þetta komment frá þér núna og það var bara eins og talað beint til mín þessa stundina. Ég gerði mér nefnilega grein fyrir því alveg nýlega að ég er í verulegri hættu með að gera einmitt þetta.. verða ástfangin af ástinni. Hef brennt mig á því áður að falla í raun fyrir aðdáun einhvers á mér. Það getur verið svo notalegt að horfa á sjálfan sig í svo jákvæðum spegli.
Ein-stök, 24.12.2008 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.