2.11.2008 | 13:20
Áfengi
Áfengi hefur aldrei verið vandamál fyrir mér þó ég hafi verið ein af þessum "típísku" íslensku unglingum sem byrjaði áfengisneysluna á dry íslensku brennivíni 14 ára gömul á útihátíð. Er ekki stolt af því en þakka fyrir í dag að hafa ekki farið illa út úr þessum árum. Veit ekki hvernig hefði farið fyrir mér ef framboðið á alls konar eitri hefði verið það sama í þá daga eins og það er núna. Eftir að ég komst upp úr gelgjunni er ég er aftur á móti ein af þeim sem á næstum alltaf léttvín og finnst gott að fá mér eitt og eitt glas með kvöldmatnum. En ég drekk afskaplega sjaldan eitthvað sterkara og þá er það helst koníak með kaffinu.
Um síðustu helgi tók ég þá ákvörðun að áfengi og ég ættum ekki samleið nú um tíma. Ég fann fyrir því að ef ég ætlaði að fá mér eitt rauðvínsglas með mat, þá vissi ég ekki fyrr en þau voru orðin þrjú eða ég búin að opna flösku númer tvö. Ég var með öðrum orðum allt í einu hætt að hafa stjórn á því hvernig ég drakk. Í þau skipti sem ég fór út að skemmta mér varð ég nokkrum sinnum illa veik (slapp samt við að verða mér til skammar) og ég hef því túlkað þetta þannig að ég höndli ekki áfengi núna, hvorki á líkama né sál. Ég verð oft niðurdregin eða döpur um leið og ég fæ mér í glas og nær undantekningalaust hef ég verið með móral daginn eftir þó engin ástæða hafi verið fyrir slíkri vanlíðan.
Ég hef strax fundið fyrir jákvæðum áhrifum af þessari ákvörðun. Ég er líkamlega mjög spræk og þessi helgi hefur til dæmis verið alveg dásamleg. Ég skrapp í leikhús á föstudagskvöldið og fannst bara dásamlegt að fá mér kaffibolla í hléinu, skutla barnapíunni sjálf heim og vera komin snemma í háttinn, þægilega þreytt og sátt eftir góðan dag.
Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka til að ná betri stjórn á eigin tilfinningaflækjum og ráða við að fá mér í rauðvínsglas með sunnudagssteikinni.
Athugasemdir
Þarna erum við nú skrambi ólíkar. Því ég og vín erum hreinlega ekki frá sömu plánetu. Mér finnst það yfir höfuð bara vont og er því afskaplega lélegt efni í alka. Þó ég smakki vín......en það er orðið anskoti langt síðan. Já eiginlega bara næstum 5 ár. En ég skil þig vel og það er snilld að þú getir tekið þessa ákvörðun. Og enn meiri snilld að þú standist hana. Gott að þú áttir yndæla helgi því það var nauðsynlegt. KNús og klemm héðan úr sveitinni.
JEG, 2.11.2008 kl. 23:11
Það sem að mér finnst alveg frábært hérna Ein-stökmín er að þú tekur eftir þessu og tekur á því. Það væri svo auðvelt í stöðunni að bara loka augunum og fá sér sopa. Þú ert frábær! Þú mátt vera svo stolt af þér!
Sporðdrekinn, 3.11.2008 kl. 03:12
Flott hjá þér! Það er ekki alltaf auðvelt að taka á vandamálinu og þú greinilega kæfir það. Vonandi nærðu fullum styrk og góðu jafnvægi, það er akkúrat það sem er svo dýrmætt. Glæsilegt!
www.zordis.com, 3.11.2008 kl. 22:01
áfengi hvort sem er létt eða sterkt á það alveg til að draga mann niður, sérstaklega þegar maður er ekki vel upplagður við upphaf drykkjunnar
flott hjá þér að láta það bara eiga sig meðan þú tekur til í þér
Rebbý, 3.11.2008 kl. 23:09
Í raun held ég að þú getir slakað á og ekki sé um neitt vandamál að ræða hvað vínið varðar. Það er vísindalega sannað að alkóhól ruglar ákveðnum efnaskiptum taugaboðefna og stuðlar að depurð. Margir sem eiga sér hamingjusamt líf finna fyrir þessu á eftir áfengisneyslu. Það er því hárrétt hjá þér að láta vera að smakka það á meðan ákveðið ójafnvægi steðjar að þér . . . og svo getur þú notið þess seinna ef svo ber undir ;)
Bullukolla, 4.11.2008 kl. 00:02
Takk allar fyrir stuðninginn og góð og hvetjandi orð
Ein-stök, 4.11.2008 kl. 19:32
já áfram nú . Eigðu góða vikurest og helgi.
Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.