28.10.2008 | 13:54
Kæri sáli..
Stundum leiðir lífið mann eitthvert sem maður í raun var ekki búinn að ætla sér.. ég fór til sálfræðings um daginn til þess að eiga við hann nokkur orð um Soninn. Endirinn varð 2ja tíma spjall sem fjallaði aðallega um mig og mína líðan. Það var mjög gott að tala við hann og ég kom frá mér hlutum sem ég á alla jafna frekar erfitt með að tjá mig um (nema í nafnleysi á netinu-hehe). Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að túlka líðanina eftir þennan fund. Ég er búin að vera rosalega meyr og aum, hugsa mikið og finnst það ekkert auðvelt því það sækja á mig hlutir sem ég verð að viðurkenna að ég hef ýtt til hliðar. Í raun má segja að það hvernig ég geng um heima hjá mér þessa dagana segi ansi mikið um það hvernig ég er (ekki) að tækla hlutina. Ég er búin að kaupa mér ný húsgögn sem þarf að skrúfa saman og við það get ég unnið lon og don. Aftur á móti bíður mín líka alls konar dót í kössum og hrúgum sem þarf að koma fyrir, fara yfir og henda og ég höndla það engan vegin. Ég hef sjálf túlkað þetta þannig að ég þoli ekki að róta meira í tilfinningunum og það að fara í gegnum gamalt dót á þessum tímapunkti í lífinu þýðir nákvæmlega það. Endalaus stefnumót við fortíðina og flest af því stingur (annað hvort af því að minningin er ljúf eða sár.. allt stingur).
Ég fór gangandi í búð núna áðan og þegar ég kom heim þá upplifði ég svona algjört líkamlegt þrekleysi og andlega vanlíðan. Ég veit svei mér ekki lengur hvort hefur meiri áhrif á hitt en mér finnst ég a.m.k. engan veginn vera að fúnkera í lífinu núna. Stundum held ég að ég sé komin með einhvern alvarlegan líkamlegan sjúkdóm en stundum er ég á því að þetta sé "eingöngu" álagseinkenni af öllu því sem á undan er gengið.
Ég er bara í uppgjöf í dag. Veit ekkert á hvaða enda ég á að byrja. Þessa stundina er ég að hugsa um að leggja mig! Hver veit nema sólin verði farin að skína þegar ég vakna aftur !?
Athugasemdir
Sendi þér hughreystingarknús mín kæra og farðu vel með þig. Þetta er langt frá því að vera auðvelt en það er auðvitað hlutur sem þú veist jafn vel og ég. Gott hjá þér að spjalla við Sálann því það hlítur að hafa hjálpað þér mín kæra.
JEG, 28.10.2008 kl. 14:20
Hertu upp hugann vinkona . . varla verður morgundagurinn verri. Hugsaðu þér hvað það getur verið gaman að koma þér vel fyrir á nýjum stað með bland af gömlu og nýju. Þú getur haft þetta nákvæmlega eins og þú vilt og ert að leggja grunn að breyttri framtíð. Gerðu það vel og jákvætt ;)
Bullukolla, 28.10.2008 kl. 20:02
Það getur veri svo erfitt að opna rifu á vegginn sem að búið er að setja upp inni í huga og um hjarta. Stundum er það svo sárt að við bara flýtum okkur að loka aftur áður en að við sjáum hvað er þarna inni. Heimsókn til sála getur gert svona rifur.
Ég kannast við þessa þreytu, fyrstu mánuðina hélt ég að ég væri svona þunglynd, en lyfin gerðu mér ekkert gagn þegar að það kom að þreytunni. Ég hef verið að spá í það undanfarið hvort að ástarsorgin geti leikið mann svona.
En eins sárt og erfitt það er krúsin mín þá verðum við víst að opna fyrir og losa um þar til að við erum hættar að loka fyrir. Ekki að ég sé komin svo langt, langt því frá, ég veit bara að einn daginn þá mun ég ná þessum áfanga, mig hlakkar svo til og það munt þú líka gera
Ég vona að dagurinn þinn sem framundan er verði þér góður og að þú farir sátt í rúmið annað kvöld
Sporðdrekinn, 29.10.2008 kl. 00:42
Takk JEG fyrir öll knúsin og faðmlögin undanfarið Nei þetta er allt annað en auðvelt en það er gott að finna skilning frá einhverjum eins og þér sem hefur gengið í gegnum þetta líka.
Arna það sem hefur verið erfiðast undanfarið er þetta andlega og líkamlega þrekleysi.. þessi yfirþyrmandi þreyta sem lamar mig. Ég horfi á það sem þarf að gera í kringum mig og spauglaust þá LANGAR mig að gera það, en ég hef lítið sem ekkert þrek til þess. Ég er í alvöru mjög spennt fyrir nýja heimilinu mínu og nýju upphafi. Þetta snýst ekki um það að ég sé föst í fortíðinni og komist ekki frá henni. En mér finnst það taka rosalega á að róta í gömlu dóti og rifja í leiðinni upp minningar sem ég á ekkert auðvelt með að takast á við núna.
Alveg rétt Sporðdreki. Ég hef sjaldan upplifað eins erfiðan dag eins og þennan dag sem ég fór til Sála. Þó ég væri að losa um hlutina og þætti gott að tala við hann, þá var þetta nákvæmlega eins og þú lýsir. Það var eins og ég hefði gert rifu og ég réði bara ekkert við það sem þaðan lak út.
Svo er þetta með þreytuna. Ég talaði við góða vinkonu (Krabbann) í gærkvöldi og mér varð rosalega létt þegar hún sagðist alveg vita um hvað ég væri að tala. Loksins skildi mig einhver! Hún skildi fyrir 2 árum og man eftir að hafa gengið í gegnum svona tímabil af lamandi þreytu sem henni fannst á þeim tíma bara alls ekki eðlileg. Ég átti einmitt eina töflu af kvíðastillandi uppi í skáp og tók hana í gær en hún hjálpaði ekkert. Enda upplifi ég þetta ekki sem kvíða. Ég er bara lamandi þreytt, bæði andlega og líkamlega og vil helst bara fá að vera í friði og sofa. Mér finnst þetta ekki heldur vera neinn raunveruleikaflótti því það sem er erfitt í lífi mínu í dag eru draugar fortíðar en ekki nútíðin eða framtíðin. Ég finn ekki fyrir kvíða, vanmætti eða leiða gagnvart stöðu minni í dag eða því sem bíður.. frekar spenningi. En takk.. þessi dagur lofar strax góðu. Er í fríi með börnunum og ætla að njóta þess eftir bestu getu
Ein-stök, 29.10.2008 kl. 09:53
. . en það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt. Því fyrr því betra !
Bullukolla, 29.10.2008 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.