20.10.2008 | 10:10
Vaninn er sterkur
Ég er búin að hafa rosalega mikið að gera undanfarið og keyrt sjálfa mig áfram, stundum á viljanum einum saman. Það hlaut því að enda með þessu.. vaknaði öll í rusli í morgun. Höfuðverkur, ógleði, bullandi kvef.. bara allur pakkinn
Fyrir utan það að hafa mikið að gera þá er andlegt álag búið að vera mikið líka. Sonurinn sýnir hegðun í skólanum sem ég skrifa algerlega á vanlíðan og óöryggi og mér finnst ég svo vanmáttug gagnvart því. Ég er búin að taka fyrsta skrefið í að fá faglega aðstoð fyrir hann. Ég fékk líka á mig smá aukapakka sem þýddi aukaálag á heimilið og sálarlífið og mér finnst það ennþá vera að draga dilk á eftir sér.
Ég fór í smá gleðskap um daginn. Ég var þreytt og vínið sem ég drakk (sem var ekki mikið) fór beint í hausinn á mér. Ég vaknaði daginn eftir með timburmenn og þvílíkan móral því ég fór á trúnó með nokkrum (sem betur fer góðum) vinkonum og puðraði út úr mér ýmsum leyndarmálum. Það er alltaf dálítið óþægileg tilfinning sem fylgir því að opna sig svona. Mér finnst ég alltaf hafa gefið dálítið skotleyfi á mig fyrst eftir að ég opna svona fyrir mínar innstu hugsanir og tilfinningar. Þegar gleðskapnum var að ljúka keyrði ein (önnur) ágæt vinkona mig heim og hún eiginlega las mér svolítið pistilinn. Hún talaði og ég grét! Ekkert þægilegt.. en samt losandi. Það sem hún sagði var allt satt og rétt og ég held að ég hafi alveg þurft á þessari yfirhalningu að halda.
Ég er ekki ennþá komin að fyrirsögninni en ég er búin að komast að því að ég sit ennþá föst í ýmsum vana frá hjónabandinu. Ég er ekki ennþá búin að kveikja á því að þetta sé svona endanlegt og ég sit ennþá uppi með framtíðarsýn og drauma sem voru okkar.. en verða aldrei. Ég er líka föst í viðjum tilfinninga frá hjónabandinu og veit ekki alveg hvernig ég á að gera þær upp. Hvernig á maður að komast yfir það að makinn elski mann og komi að flestu leyti vel fram við mann en VILJI mann ekki? Hvernig á nokkur að vilja mann ef maðurinn sem elskar mann gerir það ekki?
Núna er kannski líkamlegur slappleiki að hafa áhrif á andlegu hliðina. Hausinn fer í yfirvinnu þegar líkaminn beilar.
Athugasemdir
Það er gott að hafa góða að og geta látið allt flakka.
Sumir þurfa ekki líkamlegt samband. Okkur hinum sem finnst bæði gott, gaman og nauðsynlegt að fá að tjá okkar ást á þann hátt skiljum ekki hvernig það er hægt að þurfa ekki.
Stundum eru líkamleg eða andleg veikindi ástæðan fyrir þessari engri löngun, en stundum er fólk bara svona.
Þú veist að þú ert wanted.
Spurningin er villt þú einhvern annan?
Sporðdrekinn, 20.10.2008 kl. 13:33
Mjög gott að geta tappað svona af.. það er alveg rétt hjá þér. Sem betur fer er þessum elskum mjög vel treystandi.
Ég hef heyrt að til sé fólk sem þurfi hreinlega ekki á þessu að halda, eins og þú ert að nefna. Ég skil það samt ekki. Verð bara að viðurkenna það. Mér finnst þetta bara partur af annarri nánd í sambandinu og skil ekki hvernig er hægt að undanskilja hann frá öðru. Svo er líka málið að alveg sama hvaða ástæðu Maðurinn hefur, minn haus hefur samt tekið þessu svona og ég fæ hann ekki ofan af því. Ég get ýtt þessu til hliðar flesta daga og þegar ég finn fyrir einhverri athygli eða jákvæðum athugasemdum frá fólki þá getur mér um tíma jafnvel fundist ég algjört æði (hehe) en svo þegar mér líður ekki nógu vel þá kemur þetta upp á yfirborðið. Mér finnst ég eiga að geta haldið í sjálfstraustið sama hvað öðrum finnst en ég er samt ekki að ná því.
Og í sambandi við að vera wanted. Jú ég finn fyrir því og nýt þess að fá athygli þegar svo ber undir en það er náttúrulega ekki málið, heldur það að ég hef ekki trú á að áhuginn myndi haldast ef viðkomandi kæmi nær mér (eða svæfi hjá mér). Ég vil svo sannarlega aðra manneskju í lífið (fyrir utan börnin sko). Er bara enginn einfari í mér þó ég geti notið þess á stundum að vera ein og útaf fyrir mig. Ég er bara ekki týpa sem getur sætt sig við að hafa ekki annan aðila til að deila hlutunum með, hlægja með, gráta með, njóta og elska.
Ein-stök, 20.10.2008 kl. 16:42
Ég skil þig mjög vel, of vel.
Ég hef sjálf orðið fyrir hrikalegri höfnun, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur frá þeim sem að ég elska af öllu hjarta. Þeim sem að ég hafði gefið líkama minn og sál í mörg ár.
Ég skil því mjög vel þetta að stundum vera súper örugg og finnast maður vera bommba númer eitt. Og svo það að hægt er að hrapa niður í dýpstu dali þar sem að sjálfsöryggi er ekki einu sinni til í prenti.
Ástarsorg er víst ekki eitthvað sem að við getum skilið eftir á tröppunum, við verðum að drattast með hana þar til að hún er orðin þunn og gegnsæ. Þá fer okkur vonandi að líða vel alla daga, við getum séð í gegn og vitum að við eigum gott skilið og að það sé einhver þarna úti sem býður eftir að fá að elska okkur 100% eins og við erum.
Ég var að lesa yfir þetta aftur og ég sver það að ég gæti hafa skrifað síðustu málsgrein þína, beint frá hjartanu.
Sporðdrekinn, 20.10.2008 kl. 17:25
Innlitsknús á þig mín kæra. Skil vel hvað þú meinar og ég hef sko upplifað nákvæmlega þetta sem þú talar um. Og veistu mig svíður enn þegar ég hugsa um þann tíma þegar ég opnaði augun og viðurkenndi að málin væru eins og þau voru .....óásættanleg.
Kveðja úr sveitinni.
JEG, 20.10.2008 kl. 17:30
Veistu . . þú átt ekki að skammast þín fyrir neitt og ekki láta lesa yfir þér. Þú átt að vera stolt af einlægni þinni og það setur þig einu skrefi framar en vinkonum þínum. Þær leyna enn sinni ;) Lærðu bara af því sem hefur betur mátt fara, vertu bjartsýn og horfðu fram á veginn. Fortíðin er farin . . . kveddu hana með stæl . . . skvísa.
Bullukolla, 20.10.2008 kl. 22:00
Elsku Sporðdrekinn minn. Við erum svo miklir sálufélagar
JEG: Takk fyrir knúsið og skilninginn. Ég skil líka þennan sársauka og man hvernig mér leið þegar ég gerði það upp við mig að ég gæti bara ekki sætt mig við þetta lengur.
Takk Arna Sniðugt að þú skulir segja þetta því ég var að fá mjög svipuð skilaboð.. af miðilsfundi takk fyrir. Horfa fram á veginn og hætt að hafa áhyggjur af fortíðinni
Ein-stök, 20.10.2008 kl. 23:30
Sporðdrekinn, 21.10.2008 kl. 01:34
Stundum er tímabært að fletta blaðsíðunni og byrja á þeirri næstu. Við breytum ekki fortíðinni það er núið og framtíðin sem við getum breytt ... Áfram kona!
Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 09:34
Takk fyrir hvatninguna Unnur María Ég er alveg sammála þér um að tímabært sé að byrja á nýrri blaðsíðu í lífinu. Málið er bara að stundum virðist maður ekki hafa lesið nógu vel það sem var á fyrri blaðsíðunni og því kemst maður bara ekkert áfram með þá næstu. Hikstar bara á orðunum og þarf sífellt að kíkja til baka til að tékka á því hvað maður er að lesa núna.
vá hvað ég er orðin rosaleg í líkindarmáli (hehe).
Ég er annars í nokkuð góðum gír í dag og með færslu í hausnum sem ég bara hef ekki tíma til að koma niður akkúrat núna..
Ein-stök, 24.10.2008 kl. 12:25
Gott að þér líður betur ... Sammála Örnu í því sem hún segir og gangi þér vel að vinna þig frá þessu, einn dag í einu!
www.zordis.com, 24.10.2008 kl. 13:03
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég breytt, og vit til að greina þar á milli.
KNús til þín
Líney, 24.10.2008 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.