ein

Upprisa

Í gær svaf ég slatta, hugsaði mikið, ældi, skældi og .. já kannski óþarfi að fara út í allar hliðar á þessum veikindum.. En með líkamlegum veikindum hefur andlega hliðin farið flikk-flakk og heljarstökk. Ég grét m.a.s. í fanginu á Manninum sem hughreysti mig og sagði við mig það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig í LAAAANGAN tíma. Ég veit ennþá ekki hvort mér líður betur eða verr eftir að hafa grátið fyrir framan hann. En í gær sannfærðist ég um að við öll þurfum meiri faglega aðstoð í gegnum þetta. Börnin hafa bæði átt erfitt. Þau sýna það á ólíkan hátt en þeim líður báðum illa og í gegnum samtal okkar Mannsins í gær varð mér ljóst að honum hefur ekki liðið neitt betur en mér. Hann stakk upp á (og bauðst til) að hringja í Ráðgjafann sem við fórum til í fyrravetur og ræða málið við hann. Það er í fyrsta skipti sem hann hefur tekið af skarið með eitthvað í þessu ferli og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég hef ekki hugmynd um hvert þetta leiðir okkur en ég er nokkuð viss um að þetta er rétt skref.

Ég held að líkamleg veikindi séu að yfirgefa mig. Ákvað að halda mig heima í dag líka til að ná upp líkamlegum og andlegum kröftum. Vinnan mín er nefnilega mjög krefjandi á andlegu hliðina og nauðsynlegt að vera 100% fær um að takast á við það. Í dag ætlar Ein-stök að rísa upp úr öskustónni og byrja upprisuna hægt og rólega. Mér hættir til að vilja klára hlutina af í einum hvelli og líkar ekki að dvelja við sársaukann. Ég held ég verði samt að kyngja því að ég flýti ekki þessu ferli, hvorki hjá mér né öðrum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: M

Þú átt eftir að rísa upp og verða sterkari með hverjum deginum.  Skil vel hvernig þér líður. Talið að skilnaður sé álíka og andlát fyrir sálina að upplifa. 

Finnst þú skrifa svo einlægt og alltaf gott að koma hingað inn, þótt þér líði nú ekki alltaf vel. Virkar samt sterk kona á mig.

Gangi þér sem best ein-stök

M, 9.9.2008 kl. 10:46

2 Smámynd: Rebbý

gott að heyra að maðurinn er að taka meiri þátt í þessu ferli og heimsóknin til ráðgjafans getur aldrei verið skref í ranga átt svo endilega takið skrefið hvað sem kemur síðar út úr því.

sendi orkuskot til þín frá mér ... ég má alveg vera þreytt næstu daga

Rebbý, 9.9.2008 kl. 11:37

3 Smámynd: JEG

Ææjjj þetta er alltaf svooo erfitt.......tala nú ekki um þegar maður er veikur líka.  Og börnin þau extra erfið ofan á allt annað.  Því þau eiga jú erfitt með að sætta sig við svona og skilja þetta ekki greyjin. 

En sendi þér smá orkuknús úr sveitinni og vona að heilsan sé að verða góð.  Því ekki veitir af svona til að hafa batterýin í lagi fyrir veturinn.

JEG, 9.9.2008 kl. 13:39

4 Smámynd: www.zordis.com

Vonandi gengur þér vel og hvað sem verður að þér líði vel og getir verið heil fyrir sjálfa þig og börnin þín.

Eðlilegt að öllum líði ílla á heimilinu þar sem að börnin skynja vanlíðan og mátt þinn.  Gangi ykkur vel

www.zordis.com, 9.9.2008 kl. 14:12

5 Smámynd: Sporðdrekinn

Kannski urðu þessi veikindi þín að gerast, nú hefur maðurinn séð að þú ert ekki súperwoman 24/7 bara 23/7 og hann þarf að vera sterkur, taka á hlutunum. Mér finnst yndislegt að heyra að hann hafi stungið uppá að fara aftur til ráðgjafans, nú er hann tilbúinn.

Gangi ykkur öllum vel

Þú munt alltaf rísa upp aftur kæra Einstök og það sterkari í hvert skipti

Sporðdrekinn, 9.9.2008 kl. 15:51

6 Smámynd: Ein-stök

Takk, elsku M fyrir falleg orð. Ég er alveg sammála þessari lýsingu á skilnaði. Þetta er eins og að missa hluta af sálinni og það er sár sem maður þarf að læra að græða aftur

Ég er einmitt sammála því að við getum aldrei tapað á því að fara til ráðgjafans eins og þú segir Rebbý. Takk fyrir orkuskotið sæta mín

Það er einmitt málið. Þetta verður vítahringur. Þegar maður er veikur þá verða börnin erfiðari og maður á erfitt með að höndla það undir þeim kringumstæðum.. og það verður satt að segja mjög erfitt að ná heilsu. Einmitt það að börnin eru saklaus fórnarlömb í þessu öllu kvelur mann endalaust því þegar þeim líður illa þá skrifar maður það alltaf á sjálfan sig.. að maður hefði átt að geta lagað þetta.. bara einhvern veginn.. þó það sé vitleysa.

Takk Zordís Það er líka það sem ég þrái. Ekki bara að mér fari að líða betur og verða sáttari heldur fyrst og fremst það að ég verði nógu heil til að geta hjálpað þeim í gegnum þetta án þess að bregðast illa og vitlaust við.. sem er daglegur viðburður þessar vikurnar.

Ég sé að þú ert pínu forlagatrúar eins og ég.. eða veit ekki hvort það er rétt orðað en ég leita oft að ástæðu fyrir því að hlutir gerist.. sérstaklega slæmir hlutir eða óþægilegir. Mér finnst þetta góð túlkun hjá þér. Ég er búin að vera sterki, ákveðni aðilinn í þessu. Þó ég hafi grátið fyrir framan hann áður þá er orðið langt síðan og ansi margt gerst síðan það var. En ég var svo niðurbrotin í gær og hann skynjaði það alveg þannig og spurði mig t.d. hvort þetta væri búið að vera rosalega erfitt. Það var því stórkostlegt skref fram á við að hann skyldi taka þessa ákvörðun algjörlega af eigin hvötum. Takk sæta mín fyrir fallegu orðin og hughreystinguna.

Ein-stök, 9.9.2008 kl. 23:31

7 Smámynd: Ein-stök

Úps.. Gleymdi að setja JEG og Sporðdrekann inn á rétta staði. Þetta með vítahringinn er svarið til JEG og það síðasta til Sporðdrekans.

Takk svo allar saman fyrir stuðninginn.. þið gefið mér helling með svona sendingum

Ein-stök, 9.9.2008 kl. 23:33

8 identicon

Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 20:16

9 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég var að hugsa.... já haltu þér bara

Kannski er ekki bara málið að þú hafir grátið fyrir framan hann heldur að þú varst viðkvæm. Ekki reið út í hann eða að reyna að halda coolinu og fjarlægð á milli ykkar. Því eins og þú sagðir "Ég er búin að vera sterki, ákveðni aðilinn í þessu".

Hefur þú kannski alltaf verið sterki aðilinn í sambandinu ykkar, sá sem stjórnar og tekur ákvarðanirnar?

Ég var skömmuð af vinkonu minni fyrir að vera svoleiðis í mínu hjónabandi, hún sagði "Leifðu honum að vera með í þessu hjónabandi".

Málið er að ég beið of lengi, núna kunnum við hvorugt að hafa hann virkan. En kannski fáum við tækifæri til að læra það.

Fenguð þið tíma?

Sporðdrekinn, 11.9.2008 kl. 22:17

10 Smámynd: Ein-stök

Takk Unnur mín

Þetta er alveg ágætis innlegg hjá þér elskulegi Sporðdreki. Það er rétt að ég talaði um að ég væri búin að vera sterki aðilinn í þessu.. en það er meira í sambandi við ferlið hjá Ráðgjafanum heldur en sambandið í heild. Jú í sumu hef ég þurft að vera sterki aðilinn, halda utan um fjármálin og flestar stærri ákvarðanir en Guð veit að ég hef reynt að fá hann til að vera virkari í því. Ég kom t.d. peningamálunum alveg yfir á hann þegar ég átti eldra barnið og var sjálf tekjulaus um tíma. Þá lét ég hann alveg um peningamálin og kom ekkert nálægt þeim sjálf (var áður búin að berjast við að fá hann til samvinnu við mig án árangurs) og í stuttu máli þá átti sá tími eftir að draga dilk á eftir sér. Ekki meira um það.

Ekki misskilja mig.. ég skil alveg hvað þú ert að fara með þessu og ég hef alveg velt því fyrir mér hvort ég hafi ekki leyft honum að blómstra í þessu sambandi. Hvort að ég sé búin að vera of ráðandi og hreinlega kæfandi fyrir hann. Hvort ég hafi aldrei fyllilega kunnað að meta hann fyrir að vera sá sem hann er. En það er erfitt að svara því. Ég get heldur ekki bakkað það mikið að ég sé ekki lengur ég sjálf.

Það er rétt að ég hef verið upptekin af því að halda coolinu fyrir framan hann og vera sterk, sýna honum að ég geti bjargað mér án hans og eiginlega farið offari í að sanna það. Ég horfðist einmitt í augu við það núna eftir þessa "uppákomu" að ástæðan væri sú að ég væri í raun svo rosalega sár við hann og fyndist ég svo illa svikin af honum. Svik liggja nefnilega ekki alltaf í framhjáhaldi.. þau geta líka legið í hreinni vanrækslu. Það að opna sig ekki og hleypa manni aldrei að sér getur verið jafn slæmt (sumir myndu jafnvel segja verra) en að ljúga hreinlega að manni um það hver maður er.

Ég er annars komin með tíma hjá Ráðgjafanum! Maðurinn hringdi í mig til að tilkynna mér það. Ég var á hraðferð þegar hann hringdi og gat því ekki spjallað neitt við hann og veit því ekki hvort hann fékk annan tíma eða hvernig þetta símtal hans við Ráðgjafann fór fram. Hann sagði samt svolítið sem kom upp um það hvað honum er búið að líða illa undanfarið. Hann hefur náttúrulega ekki látið það í ljós við mig.. við þurfum líklega fleiri grátstundir saman til að opna á málin

Takk æðislega Sporðdreki fyrir þetta. Það er svo ágætt að velta þessu fyrir sér frá ýmsum hliðum

Ein-stök, 12.9.2008 kl. 00:39

11 Smámynd: Sporðdrekinn

Það er gott að þú ert komin með tíma  það er líka gott að lesa að maðurinn er að opnast.

Sporðdrekinn, 12.9.2008 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband