17.7.2008 | 00:41
Amma
Ég er ein af þessum heppnu sem hef fengið að njóta samverustunda með öfum og ömmum, já og m.a.s. langömmu. Ég áttaði mig ekki á þeim forréttindum fyrr en ég kynntist strák sem átti "eldri" foreldra og hann hafði bara átt eina ömmu á lífi sem hann mundi eftir. Í dag á ég eina ömmu á lífi.
Amma mín er konan sem kenndi mér vísur og þulur þegar ég var lítil. Hún sat með mér ótal stundir út við glugga í litlu íbúðinni sinni og við spjölluðum um það sem fyrir augu bar. Við höfðum alltaf nóg að skoða og nóg að ræða um, hvort sem útsýnið út um gluggann var bara einn lítill skógarþröstur á vappi úti í garði eða heil skrúðganga að fara um götuna. Hjá henni lærði ég svo margt um nægjusemi, þolinmæði, rólyndi, jákvæðni.. að leggja rækt við hlutina og að ekkert verk er of ómerkilegt til að vera unnið vel og af heilindum.
Amma á í dag 46 afkomendur í fjórum ættliðum. Hún hefur búið ein í litlu íbúðinni sinni síðan afi dó fyrir næstum 30 árum og þangað höfum við komið í ótal heimsóknir og alltaf á amma kleinu, heimabakaða köku, heitt á könnunni, mjólk í ísskápnum, notalegt spjall við eldhúsborðið og svona spari fær maður heila máltíð í stofunni. Stofan er full af myndum af afkomendum og öðrum ættingjum auk ævisagnabóka af ýmsu tagi (sem ég las allar upp til agna hér áður fyrr). Það hefur ekkert breyst í litlu íbúðinni hennar ömmu frá því ég man eftir mér, fyrir utan þegar synir hennar tóku sig til og útbjuggu fyrir hana baðherbergi.
Fyrir nokkrum vikum varð ljóst að amma gat ekki búið ein lengur. Hún var farin að setja kælivöru ofan í skúffu, ruglast á nóttu og degi, gleyma að elda matinn eða elda hann og setja hann svo fram í geymslu þar sem hann fannst seinna (orðinn ónýtur). Inn á milli var hún samt hin skýrasta og algjörlega með á nótunum um lífið og tilveruna.
Blóðtappi í heila er ástæðan fyrir ruglinu og í hennar tilfelli ekkert hægt að gera nema láta henni líða sem best. Fjölskyldumeðlimir skiptast á að vera hjá henni þessa dagana og þó einhver munur sé á henni dag frá degi þá er það huggun að hún er ekki kvalin.
Í mér takast tilfinningarnar á. Ég hitti hana stuttu áður en hún veiktist og þá áttum við m.a. stutt spjall um það sem fyrir augu bar út um gluggann. Ég hef hreinskilnislega ekki fundið kjark til að fara til hennar og sjá hana í því ástandi sem hún er í núna. Það er alltof stutt síðan ég stóð í svipuðum sporum og sat yfir dauðvona ástvini dag og nótt. Mér finnst ég bara ekki ráða við þetta núna og skammast mín fyrir það. Eigið þið kjark aflögu?
Athugasemdir
Drífðu þig til ömmu þinnar.....það verður bara erfiðara og erfiðara ef þú dregur það......sendi þér kjark
Hólmdís Hjartardóttir, 17.7.2008 kl. 01:12
sendi þér kjark líka, ég þorði ekki að hitta ömmu mína meðan hún lá veik og sé enn þann dag í dag eftir því þó árin séu að verða 20 ... hún dó áður en ég fann minn kjark svo ég náði ekki að kveðja hana eins og hún átti svo sannarlega skilið.
Rebbý, 17.7.2008 kl. 08:33
Já hér er hellingur af kjarki til þín. Drífðu þig til Ömmu þinnar. Hún er enn sama konan. Og eins go Rebbý segir þá muntu sjá eftir því síðar ef þú ekki drífur þig.
Ég þekki þetta vel en amma mín varð einmitt svona. Nema að hún bjó reyndar ekki ein heldur inn á MogP og það fór að bera á svona kölkun sem leiddi til þess að henni var ekki treyst einni. En amma breyttist ekkert hún var áfram hún (eins og hún gat) og henni sveið að "geta" ekki lengur eitt og annað. Við sem heilbrigt fólk verðum að standa við hlið þeirra sem gáfu okkur svo mikið í lífinu og gefa til baka þegar þeir þurfa á að hlada. Taka þessu eins og öðrum veðrabreytingum.
Elskuleg knúsaðu ömmu þína frá mér og hjálpaðu henni að takast á við breytingar sína. Hún þarf þess með.
Knús og kveðja úr sveitinni.
JEG, 17.7.2008 kl. 12:03
Vá þú gætir verið að lýsa ömmu minni heitinni. Sonur minn er einmitt jarðaður hjá henni
Amma var með Alzheimer sjúkdóminn. Hún þekkti mig ekki undir lokin og það var hræðilegt. Ég grét og heimsótti hana sjaldan eftir það á elliheimilið. Áður bjó hún alltaf ein og ég var þar daglegur gestur og við miklar vinkonur. Mér fannst betra að muna eftir henni eins og hún var. Sendi ég þér þó strauma með styrk. Gerðu það sem þér finnst réttast. Gott að hitta ömmu og faðma hana og finna "ömmulyktina" ég náði því mjög stuttu fyrir dauðsfall hennar.
Gangi þér vel elskan.
Svala Breiðfjörð Hauksdóttir (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 14:37
Takk allar saman, sætu stelpur Ég sit með tárin í augunum við að lesa þetta.. þið eruð yndislegar allar sem ein
Auðvitað er það rétt að ég á að drífa mig til hennar. Ég er bara soddan voðalegur aumingi þessa dagana. Tárfelli af minnsta tilefni og má hafa mig alla við að komast í gegnum daginn
Sé að ég hef kannski ekki verið alveg skýr með framvinduna. Það hljómar eiginlega eins og ég hafi ekki hitt ömmu mína í einhverjar vikur. Þessi einkenni komu fyrst fram fyrir dálítið mörgum vikum og þá var henni fljótlega útvegað hvíldarpláss á elliheimili og stuttu eftir að hún kom þangað komu fram lömunareinkenni sem gengu samt flest til baka aftur en þá kom í ljós að um blóðtappa var að ræða. Þá fékk hún varanlegt pláss á sjúkradeild. Í síðustu viku veiktist hún svo aftur (tveim dögum eftir að ég heimsótti hana) og sú lömun sem þá kom fram hefur lítið gengið til baka. Hún er því núna algjörlega upp á aðra komin og lömunin kemur m.a. fram í andlitinu.
Ein-stök, 17.7.2008 kl. 15:02
Eindregið drífðu þig að hitta ömmu dúlluna þína því hún á eftir að njóta þín eins og þú hennar! Þér á eftir að líða svo miklu betur í hjartanu þínu. Gangi þér rosalega vel.
Kærleikur til þín kona
www.zordis.com, 17.7.2008 kl. 23:04
Elsku kerlingin mín, hugsa hlýlega til þín
Heiða Þórðar, 18.7.2008 kl. 00:13
Snúllan mín, við hvað ertu hrædd? Þú átt aldrei eftir að gleyma því hvernig hún var. Þetta er enn hún amma þín, amma þín sem hlýtur að elska þig mikið ef að þínar minningar með henni eru svona góðar.
Mér finnst þetta svona pínu, pínu lítið eins og þegar að við komum fram við eldra fólk eins og það sé svoo gamalt. Ég td á það til að segja við tengdó mína (sem er ofurhress, heimsflakkari) "ég skal opna þetta fyrir þig" eða "á ég ekki að bera þetta fyrir þig?". Hvað er ég að bjóða fram mína hjálp, konan biður um hana ef að hana vantar hana. Hún er reyndar svo krúttleg að hún spyr mig stundum sömu spurninga, það verður þá bara til þess að ég fatta að hún er alltaf hún. Ég er enn 23 í hjarta, smá eldri í spegli . Það sama á sjálfsagt við um hana.
Æ það sem að ég er að reina að segja þó að mér sé kannski ekki að takast vel upp með þessari líkingu er.. Komdu fram við hana ömmu þína á sama hátt og þú hefur alltaf gert. Sýndu henni ást þína og virðingu eins og þú hefur alltaf gert. Hlutirnir hafa breyst, já. En amma er alltaf amma og á meðan að hún man, þá man hún það góða rétt eins og þú.
Svo krúttið mitt hér er fullt af kjarki, sem að ég veit þó að þú átt nóg af, eins sterk og dugleg sem þú ert.
Ég mun halda áfram að senda kjarkinn og góðu straumana á meðan ég vaki
Sporðdrekinn, 18.7.2008 kl. 03:02
Æ! Auðvitað veit ég hvað þú ert hrædd við, þessi setning komst vitlaust frá mér. Reyni betur núna: Þú átt alltaf gömlu minningarnar, þær fara ekki neitt. Þú býrð bara til nýjar minningar, öðruvísi minningar.
Ég vildi að ég hefði haft tæki færi á að knúsa hana ömmu mína áður en að hún dó. Mínar síðustu minningar eru af henni veifandi niður af svölunum í húsinu sem að hún og afi bjuggu í, afi býr þar reyndar enn. Hún var of veik, við krakkarnir máttum ekki hitta hana, hún hafði bara komið heim þessa helgi vitandi að hún kæmi aldrei þangað aftur.
Æ nú er ég farin að gráta, málið er, mig langar svo að hafa geta kvatt hana betur, hún lifði í nokkrar vikur eftir þetta. Knúsað hana og sagt henni hvað ég elska hana mikið. Ég hefði vilja fá að fara til hennar á sjúkrahúsið. Segja henni sögur eða bara sitja hjá henni, leggja hönd mína á hennar og finna fyrir ömmu minni. En ég var send í sveit, það átti að hlífa mér af því að ég og amma vorum svo nánar. Ég er pínu reið yfir því þótt að ég skilji mömmu, hún átti nóg með sig.
Ó ég er hætt núna komin á trúnó hér við tölvuna og sé ekkert fyrir tárum. Láttu hjarta þitt ráða vinkona, láttu hjarta þitt ráða
Sporðdrekinn, 18.7.2008 kl. 03:16
Takk allar. Frábær stuðningur frá ykkur og ég er svo þakklát. Ég sigraðist á kjarkleysinu í dag og dreif mig til ömmu. Það var svo sannarlega erfitt að sjá hana í þessu ástandi, en hún var samt greinilega skýrari í hugsun og meira með á nótunum í dag en hún hefur verið undanfarið (sögðu foreldrar mínir). Aftur á móti á hún mjög erfitt með að tala og það var greinilegt að hún vildi gjarnan geta talað meira við okkur. Hún sagði við mig þegar ég var að fara "Þú kemur aftur" og ég fullvissaði hana um að ég myndi gera það.
Ég var búin að hugsa mikið um það hvort ég ætti yfirhöfuð að skrifa eitthvað um ömmu mína og þessa togstreitu mína varðandi það að heimsækja hana en ég er svo glöð að ég gerði það. Við bloggvinir kynnumst betur með því að deila svona reynslu og það færir okkur líka nær hvort öðru. Ég finn til með ykkur sem hafið misst og lýsið ykkar sársauka. Ég hef líka upplifað það áður (nokkrum sinnum) og fyrir utan sorgarferlið sem ég er svo sannarlega að ganga í gegnum varðandi skilnaðinn þá er ekki langt síðan ég upplifði sára sorg vegna missis náinna ástvina og ég er ekki búin að klára það ferli ennþá. En svona er lífið. Maður getur víst ekki valið hvenær maður er tilbúinn til að takast á við erfiða tíma.
Sporðdreki: ég finn innilega til með þér vegna ömmu þinnar. Svona var nú tekið öðruvísi á málunum áður. Eins og þú segir sjálf þá átti líklega mamma þín nóg með sig (tek því þannig að þetta hafi verið mamma hennar sem var veik) og svo veit maður ekki hvernig ömmu þinni hefur sjálfri liðið. Sumir sem eru orðnir svona veikir treysta sér ekki til að horfast í augu við sorg og vanmátt sinna nánustu og börn eru svo opin með slíka hluti. Ég þekki alla vega dæmi um slíkt þar sem viðkomandi treysti sér ekki til að hitta börnin í fjölskyldunni á ákveðnum tímapunkti í veikindaferlinu.
Stórt knús til ykkra allra frá innilega þakklátri Ein-stakri
Ein-stök, 18.7.2008 kl. 22:51
Ó! Hvað ég er ánægð með þig!
Amma þín virðist allavega vera nógu skýr í hugsun til að vita að elsku barnabarnið hennar eigi erfitt með þetta, orð hennar "Þú kemur aftur" segja fullt. Sem að mér finnst ofur fallegt því það segir svolítið hvað þið eruð nánar, (eða ég tek því þannig).
Takk Ein-stök. Þú bendir þarna á þátt í þessu sem að ég hafði aldrei hugsað út í, kannski gat amma bara ekki tekið á móti mér.
Ég sagði hér við aðra færslu hjá þér að við værum öll með bagga frá barnsæsku, bagga sem að við höfum ekki enn unnið úr. Við lesturinn hér við þessa bloggfærslu og svör okkar fram og til baka, hrærir meira í tilfinninga flækjunni í mér en ég bjóst við. Ég hef alltaf verið hrædd um að fólk fari frá mér, ég held að ég sé núna búin að fatta af hverju, eða hluta þess allavega. Amma fór "frá mér" og ég fór í raun aldrei í gegnum sorgarferlið. Það sem að við verðum að gera til að geta hreinsað okkur og kveðja, ég var ekki einu sinni við jarðarförina.
Ég var hjá langömmu minni og konan sú var búin að ganga í gegnum svooo margt um ævina og var því orðin ansi hörð á köflum. Ekki misskilja mig langamma var æði og við áttum yndislegar stundir saman, minningar sem að ég mun alltaf eiga í hjarta mínu. En eftir að hún hafði sagt mér að amma væri dáin (þeir voru ekki skildar) þá fékk ég hressilegt klapp á bakið og "hún er komin á betri stað núna". Krakki á þeim aldri sem að ég var þá, þarf meira en það.
Ég vona að það sé í lagi að ég skelli þessu öllu hér inn, þetta hefur virkað sem losun fyrir mig og vöknun. Ég hefði getað/átt að, bloggað um þetta en mig bara langar ekki til þess.
Knús og Takk
Sporðdrekinn, 19.7.2008 kl. 02:03
Ekki málið elsku Sporðdreki hér má losa að vild úr tilfinningaflórunni
Ég held að það geti meira en vel verið að þessi hræðsla þín við að vera yfirgefin komi frá þessum tíma. Ein vinkona mín hefur alltaf þurft að glíma við þessa sömu hræðslu vegna þess hvernig skilnaður foreldranna bar að (pabbinn kom heim einn daginn, pakkaði niður í tösku og fór! Sást varla í langan tíma eftir það og allir heima fyrir í áfalli og sjokki).
Þessi viðbrögð hjá langömmu þinni minna á samræður sem ég varð einu sinni vitni að milli fjölskyldumeðlima í tengdafjölskyldunni minni. Ætla ekkert að fara mjög náið út í það en þar kom fram viðhorf hjá eldra fólkinu sem ég varð hálf miður mín að heyra. Í stuttu máli snérist það um "búið og gert og maður á ekkert að velta sér upp úr því". Ég áttaði mig á því þarna að við getum ekki dæmt eldra fólk fyrir svona viðhorf því það er bara svo rosalega stutt síðan lífsbaráttan á Íslandi var svo hörð að fólk mátti bara ekki vera að því að "vinna í hlutunum" eða leyfa sér að syrgja.. það varð bara að halda áfram og ekkert væl. Ég fann líka á langömmu minni að hún átti ekki auðvelt með að ræða tilfinningamál - þ.e. ef samræðurnar fóru inn á viðkæma hluti.. það átti ekkert að ræða það.
Ein-stök, 19.7.2008 kl. 13:28
Ég er alveg sammála þér, við höfum engan rétt á að dæma þau. Ég gæti ekki hugsað mér að þurfa að ganga í gegnum helminginn af því sem að langaamma mín gekk í gegnum. Satt best að segja þá held ég að eina leiðin fyrir marga til að geta haldið sönsum hafi bara verið að loka á tilfinningarnar og "gleyma". Ég þarf ekki að fara jafn langt aftur og langamma mín til að sjá fólk í kringum mig reina þetta.
Sporðdrekinn, 19.7.2008 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.