16.7.2008 | 00:48
Pökkun
Þetta er það sem líf mitt snýst meira og minna um þessa dagana, kassa og aftur kassa. Það góða er að ég hef bara gaman af þessu og er svo spennt fyrir tímanum framundan. Get ekki beðið eftir að fá húsið mitt afhent og geta látið hendur standa fram úr ermum við að koma mér fyrir. Síðustu dagar hafa samt verið ansi strembnir og þar kemur reyndar fleira til en flutningarnir.. en ég skrifa meira um það síðar. Ég hef ekki sofið nógu vel og er undir miklu álagi allan daginn og hamast þá við að pakka, bæði til að ýta öðrum hlutum frá mér og líka til að koma sem mestu í verk og sem fyrst. Það sem eftir er af júlímánuði er í mikilli óvissu eins og staðan er núna, nema það að ennþá stendur til að ég fari í bústað með börnin. Það kemur sér vel fyrir mig að veðrið er ekki spennandi þessa dagana. Það kallar ekkert á mig að vera annars staðar en hér inni hjá mér að pakka.
Maðurinn kom í heimsókn í dag og við fórum yfir bækur, spólur og dvd myndir. Við höfum ekki verið dugleg við að merkja þessa hluti og þar sem við höfum að mörgu leiti svipaðan smekk þá áttum við stundum í vandræðum með að muna hver átti hvað.. nú eða ákveða hver ætti að eiga það hér eftir. Við ræddum líka skipti á húsgögnum og fleiri munum. Þetta hefur allt gengið mjög snuðrulaust fyrir sig og án átaka en í kvöld reyndar örlaði á eftirsjá og söknuði hjá mér og ég er ekki frá því að hann hafi upplifað það líka. Það er svo skrýtið að þegar við hittumst þá fannst okkur að mörgu leiti eins og við hefðum fundið týnda helminginn. Við höfum svo svipaðan smekk fyrir bókum, myndum, tónlist, húsum, húsgögnum.. og þannig mætti lengi telja. Við deilum líka skoðunum á mjög mörgu í lífinu og tilverunni. Það var því mjög auðvelt fyrir okkur að tala saman fram á rauðar nætur og finna sameiginleg áhugamál til að deila. Á þessari stundu finn ég fyrir ákveðnum vanmætti. Er það alveg vonlaust að maður geti fundið sálufélaga og látið hlutina ganga? Ég trúi varla að ég geti fundið einhvern eins og hann hvað þetta varðar. Hvað þarf til að samband geti gengið upp?
Athugasemdir
Hólmdís Hjartardóttir, 16.7.2008 kl. 01:05
Æ elsku snúllan mín, þú ert ekki að ganga í gengum auðvelda hluti þessa dagana. Sálufélagar koma í ýmsum stærðum og gerðum og þú munt finna annan, eða.... að þessi þroskast og þið náið saman á ný, maður veit aldrei fyrr en ævin er öll.
Þú spyrð stórt "Hvað þarf til að samband geti gengið upp?". Guð hvað ég væri til í að vita svarið við henni þessari! Sumir sálufélagar eiga ekki einu sinni margt sameiginlegt, finna bara að þetta er hinn helmingurinn þeirra.
Vertu bara trú sjálfri þér stelpa og ekki hætta að leita þér hjálpar, þótt svo að þessu samband sé að ljúka þá þarft þú úr mörgu að vinna. Það sagði mér hjónabandsráðgjafi að ef að hjón ynnu ekki úr sínum málum og skildu án þess að vinna í sjálfum sér þá væru mestu líkur á að farið yrði inn í annað samband sem að færi á svipaða leið. Við berum öll okkar bagga og margir eru þeir búnir að koma sér fyrir í okkar litla heila löngu áður en að við finnum okkur maka. Flest okkar er með bagga frá því í barnsæsku og svo óaf vitandi veljum við okkur maka sem að við höldum að geta hjálpað okkur með baggana.
Að vinna í sjálfum sér er mikið verk og gott að hafa góðan aðila til að hjálpa manni.
Þessi sorg og missir sem að þú ert að ganga í gegnum núna er ekki auðvelt, ég finn til með þér vinkona og bið um leiðsögn og frið í hjarta þér til handar.
Sporðdrekinn, 16.7.2008 kl. 01:59
nú er fátt um svör frá mér elsku vinkona
gangi þér bara vel, það er áframhaldandi vinna sem bíður þín.
við hjónin skiptum ekki eigum okkar og ég á svo gott sem allt í dag en það litla sem hann hefur beðið um að fá hefur hann fengið og ekki nema sjálfsagt
þrátt fyrir að ég hafi valið mikið af dótinu okkar þá er það flest niðri í geymslu þar sem þetta var annað líf (ef svo má að orði komast) en ég lifi núna og nýtt komið inn til mín í staðin sem hefur nýjar minningar að baki.
Rebbý, 16.7.2008 kl. 10:14
Takk sætu stelpur
Sporðdreki: Alveg rétt hjá þér, sálufélagar eru margs konar og eins og hefur komið fram hjá mér þá á ég a.m.k. eina vinkonu sem er sannur sálufélagi. Og þessi punktur hjá þér um að sálufélagar eigi ekki alltaf eitthvað sameiginlegt hitti alveg í mark hjá mér. Ábendingin um að vinna í sjálfri mér á fyllilega rétt á sér. Stundum held ég að ég sé með allt mitt á hreinu, sé bara að vinna í ákveðnum umskiptum á lífinu en tel mig vita nákvæmlega hvað er framundan. Svo koma svona móment þar sem eigin viðbrögð koma aftan að manni sjálfum og sýna að það er greinilega eitthvað meira á ferli í sálartetrinu en það sem liggur í augum uppi. Takk fyrir mörg góð og hlý orð
Rebbý: Takk fyrir það.. vinna vinna það er málið Nóg eftir - það er ljóst
Ein-stök, 16.7.2008 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.