22.6.2008 | 11:52
Afgreitt mál?
Á föstudaginn hringdi ég í Manninn til að segja honum að ég væri að koma "í bæinn" með börnin, athuga hvort hann vantaði eitthvað héðan (þar sem mestallt hans dót er hér) og nefna við hann nokkur praktískt atriði í sambandi við fjármál og fleira sem við erum enn að ganga frá. Hann stoppaði mig í miðju kafi og sagði: "Mig langaði bara að segja þér hvað mér finnst gaman að heyra í þér". Mín varð alveg kjaftstopp. Ég held að hann sé farinn að sakna mín ekkert síður en barnanna. Lífið er skrýtið. Fyrir um 2 mánuðum var það mér efst í huga að finna að ÉG skipti hann einhverju máli en þarna á föstudaginn áttaði ég mig á því að það hvað honum finnst um mig skiptir mig ekki lengur neinu máli. Mér hefur liðið bara alveg hreint dásamlega þessar vikurnar og hef bara ekkert saknað hans Mér finnst ég standa á stökkpalli inn í nýja og spennandi framtíð og ég viðurkenni það fyrir mér núna að Maðurinn er ekki inni í þeirri framtíðarmynd.
Athugasemdir
vá - þetta var stórt stund í ferlinu - kemur misjafnlega fljótt hjá okkur en engu að síður skrítin tilfinning þegar ljósið kviknar.
Rebbý, 22.6.2008 kl. 21:42
Eiginlega kom þessi uppgötvun sjálfri mér á óvart. Við vinkonurnar, ég og Krabbinn vorum að ræða það um daginn hversu oft fólk brennir sig á því að vera komið í nýtt samband of fljótt. Hún gekk sjálf í gegnum skilnað fyrir rúmu ári síðan og segist engan veginn vera tilbúin í annað samband strax. Hún sagði að aftur á móti teldi hún að ég ætti eftir að fara í gegnum þetta ferli á allt annan hátt en hún því aðdragandinn að skilnaðinum væri allt annar. Ég held að það sé kannski það sem ég er að upplifa núna. Aðdragandinn að þessari ákvörðun var langur, slítandi og sár og því er ég líklega að upplifa léttinn eftir að þeim tíma er lokið - andstætt því sem vinkona mín upplifði því þar var ákvörðunin um skilnað upphafið af sársaukanum.
Ein-stök, 23.6.2008 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.