ein

Örlög? Forlög?

Það er svo skrýtið stundum hvernig hlutirnir virðast eiga að fara á ákveðinn hátt og það er bara alveg sama hvað maður berst upp á hæl og hnakka, maður fær engu breytt. Ég hef oft hugsað um það þessar síðustu vikur hvað mér sé eiginlega ætlað í blessuðum húsnæðismálunum. Allt sem mér dettur í hug klikkar, það húsnæði sem ég er jákvæð fyrir áður en ég fer að skoða reynist ekki hentugt, það húsnæði sem ég vil er ekki í boði og það sem er í boði er eitthvað sem ég hef engan áhuga á. Ég er nú samt ekkert búin að gefast upp. Það er ekki í boði. Ég finn að allt innra með mér fer í uppreisn við tilhugsunina um að vera áfram í því húsnæði sem ég er í núna og þá aðallega vegna þess að hér höfum við Maðurinn búið saman í þrjú ár og ég þarf svo sárlega á því að halda að byrja upp á nýtt á nýjum stað. Það var fyrst í gær sem það hvarflaði að mér að horfa á þetta frá öðru sjónarhorni. Þ.e. að umbylta þessari íbúð. Fara yfir allt dót og losa mig við og henda, fá að mála, breyta uppröðun og jafnvel kaupa eitt og annað nýtt eins og ljós, gardínur eða húsgögn til að breyta stemningunni. Aftur á móti læðist að mér sá grunur að ef ég fer þessa leiðina þá verði ég samt sem áður strax farin að leggja grunninn að því að flytja burt frá litla bænum mínum eftir árið. Þessi húsnæðismál hafa svolítið virkað á mig eins og litli bærinn sé að slá mig utan undir með blautri tusku. Kannski er mér ekkert ætlað að vera hérna mikið lengur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

ég bý reyndar ekki í íbúð sem við hjónin áttum saman, en ég er með allt dótið okkar og veistu ég tengi þetta engan vegin honum lengur því ég valdi bara mitt uppáhaldsdót og er búin að setja allt upp eins og ég vildi hafa það og meira að segja málverk eftir fjölskyldumeðlim hans er ekki lengur hans í mínum huga.

ef íbúðin sem þú ert í núna hentar ykkur krökkunum vel þá er kannski bara málið að mála og endurraða og velja sér hvað eigi að vera uppi og bæta svo inn nýjum hlutum sem eru 100% þínir ...

Rebbý, 15.6.2008 kl. 12:41

2 Smámynd: JEG

Fyrirgefðu innrásina. En mig langar að leggja orð í belg.

Vertu jákvæð. Ég er í íbúð sem ég og minn fyrrverandi áttum og er ég enn með dót sem "við " áttum saman. Sumt fór og annað kom sem gerði íbúðina að "minni" svo að það böggaði mig aldrei. Það eina sem böggaði mig lengi vel var bara skilnaðurinn sjálfur. Nú í dag á ég annan mann og búum við i "minni" íbúð sem er jú orðin "okkar" og enn á ég samstæðuna úr fyrra sambandi og fer hún enn vel. En það er líka margt nýtt og breytt. Finn ekki fyrir því í dag að ég hafi búið hér með öðrum manni.

Svo mín skoðun og tillaga er sú: Breyttu, málaðu, endurraðaðu eins og þig lystir. Nýjar gardínur gera helling sko. Blóm já og bara hvaðeina sem þig langar. Þetta er "þitt" heimili og ber að endurspegla "þig".

Knús og kveðja úr sveitinni.

JEG, 15.6.2008 kl. 13:47

3 Smámynd: Ein-stök

Ég er búin að hugsa mikið um þetta síðan í gær og ég held að ég sé búin að sálgreina sjálfa mig svolítið hvað þetta varðar. Ég hef tvisvar verið í sambúð áður og í fyrra skiptið sat ég eftir með sárt ennið innan um allt dótið okkar og minningarnar voru yfirþyrmandi. Svo kom hann og tók dótið sitt en ég var engan vegin tilbúin til að byrja upp á nýtt svo ég sat þarna í innbúi sem leit út eins og svissneskur ostur - allt í ömurlegum eyðum. Í seinna skiptið voru aðstæður allt aðrar því við bjuggum inná foreldrum mínum um tíma og á því tímabili slitnaði upp úr sambandinu svo að þegar ég flutti næst út af fyrir mig þá var ég búin að ganga frá öllum málum okkar á milli og mitt var mitt en ekki okkar. Ég held því að núna sé ég hrædd við að upplifa þennan vanmátt, sorg og sálarangist við að sitja í sameiginlegu búi okkar beggja.. sem ekki er sameiginlegt lengur. Hugsanlega eru aðstæður að kenna mér að ég geti byrjað upp á nýtt við þessar aðstæður.  

Rebbý: Ég skil alveg hvað þú ert að fara með t.d. málverk eftir fjölskyldumeðlimi. Hér eru nokkur eftir hans fjölskyldumeðlimi og ég vona að ég fái að halda einhverjum þeirra. Samskipti mín við hans fólk er náttúrulega partur af mínu lífi en ekki bara partur af okkar lífi saman. Málið með íbúðina er í raun að það að hún hefur aldrei hentað sérstaklega vel. Hér eru margir fermetrar sem fara í ekkert en á meðan vantar sárlega pláss fyrir aðra hluti. Hljómar kannski fáránlega en ég er t.d. að detta um skíði, hjól og grill allan ársins hring og er orðin frekar þreytt á því. Þannig að það hefur alltaf staðið til að finna annað húsnæði - þó skilnaður hefði ekki komið til.

JEG Vertu bara velkomin  Lít ekki á þetta sem neina innrás og skoðanir þínar eiga rétt á sér eins og annarra. Þetta er alveg rétt hjá þér og verður líklega það sem ég geri í málinu nema eitthvað óvænt og skemmtilegt reki á fjörur mínar.

Ein-stök, 15.6.2008 kl. 17:13

4 Smámynd: Björn Finnbogason

Komdu þér á hlutlausan stað! Leigðu ef ekki vill betur bæði núv., og nýja íbúð.  Ekki bíða eftir e-u, hvort, hvenær, ef þá e-n tímann það gerist.  Jafnvont að koma inn í svona minnismerki og búa í því sjáðu til Mín reynsla!

Björn Finnbogason, 16.6.2008 kl. 00:06

5 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég verð að segja að mér finnst þetta góð hugmynd, vera áfram í íbúðinni, ég tala nú ekki um ef að þú ert ekki einu sinni viss um að þú viljir búa áfram í þessum bæ. Annars erum við kannski að tala um flutninga aftur eftir eitt til tvö ár. Það eru miklar breytingar að gerast í lífi barnanna, ef að þau fá að halda sínu "gamla" herbergi þá held ég að það yrði gott fyrir þau.

Maðurinn mun væntanleg taka sitt dót svo að það verður ekki "fyrir" þér. Ef að það eru munir sem að þú er tilfinningalega tengd með manninn í huga, settu það þá bara í kassa. Ef að það er of stórt fyrir kassa, hentu því þá, gefðu eða settu í geymslu.

Ef að þú getur hugsað þér að vera áfram, þá er líka bara minna stress á þér. Og það mun skila sér til barnanna.

Mundu að biðja um leiðsögn

 Knús dúllan mín

Sporðdrekinn, 16.6.2008 kl. 02:47

6 Smámynd: Ein-stök

Takk Björn og Sporðdreki fyrir ykkar innlegg. Þið hafið bæði nokkuð til ykkar máls. Eftir því sem ég hugsa þetta meira þeim mun minna mál finnst mér að vera hér áfram. Eins og þú segir Sporðdreki þá er það alltaf rask að flytja og kannski betra undir núverandi kringumstæðum að nota tímann í að vera með börnunum. Þetta heimili sem við höfum búið okkur hérna og verið okkar sameiginlega heimili síðastliðin þrjú ár hefur alltaf verið meira mitt en okkar. Ég t.d. fór hingað á undan honum og byrjaði á að koma öllu fyrir, hann hefur á tímabilum unnið annars staðar og núna í vetur verið meira og minna að heiman vegna náms. BUT... ég er samt ennþá að skoða húsnæði og ennþá að spyrjast fyrir. Og já Sporðdreki ég bið um leiðsögn  

Þakka ykkur báðum

Ein-stök, 16.6.2008 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband