ein

Draumar og veruleiki

Húsnæðispælingar eru umfjöllunarefni dagsins í dag. Hef velt ýmsu fyrir mér í þeim efnum og farið í marga hringi. Í vetur heillaðist ég af húsi sem við Maðurinn hefðum getað keypt ef við hefðum ákveðið að vera áfram saman. Reyndar varð skoðunin á því húsi til þess að ýta vel við mér því ég áttaði mig á því að þegar ég byrjaði að láta mig dreyma um húsið þá snérust þeir draumar um MIG, börnin og húsið en ekki okkur hjónin. Á þeim tímapunkti ákvað ég að hætta að velta húsnæðismálum fyrir mér fyrr en ljóst væri hvort okkar hjónaband stæði eða félli. Svekkelsið sem ég varð fyrir í gær tengist þessu húsi og öðru sem ég var líka búin að spyrjast fyrir um. Þau virðast bæði vera gengin mér úr greipum og ég sökkti mér í svekkelsi yfir því í smástund. Á þeirri smástund náði ég að senda sms til Sálufélagans og systur minnar. Systirin gerði svolítið stórkostlegt! Hún sendi mér sms til baka þar sem hún sagði mér að hætta þessu væli, ég væri sjálf að dæma mína eigin drauma til dauða og að nú skyldi ég bara skammast til að TRÚA á að "húsið mitt" væri ennþá þarna úti og yrði mitt. Hún setti mér síðan hreinlega fyrir að skrifa lýsingu á draumahúsinu og senda sér í tölvupósti. Ég hlýddi að sjálfsögðu, skrifaði ýtarlega lýsingu á draumahúsinu og sendi henni áður en ég skreið í rúmið mitt með húsið MITT rækilega þrykkt í minnið.

Í dag tók ég síðan fyrstu skrefin í því að velja mér nýtt húsnæði. Ég tilkynnti á vinnustaðnum að ég væri að leita mér að húsnæði og bað fólk um að láta það berast. Ég ætla líka að auglýsa eftir húsi og sjá hvað það færir mér. Síðan dreif ég mig í eina íbúðarskoðun. Ég var eiginlega búin að ákveða að þetta væri ekki íbúðin sem mig vantaði en setti mig í jákvæðu stellingarnar og dreif mig til að fá það á hreint hvort þessi íbúð væri kannski eitthvað sem hitti í mark. Sú varð ekki raunin. Þessi íbúð er því afskrifuð. Þarna þarf ansi margt að gera og ég hef hvorki fjárhagsleg tök á því né get ég gert nógu mikið af slíkri vinnu sjálf til að það borgi sig fyrir mig að kaupa á þessum forsendum. Það voru líka fleiri gallar á íbúðinni (fyrir mig og mínar aðstæður) en ég ætla ekkert að tíunda þær hér. Núna er næst á stefnuskránni að skoða tvær aðrar íbúðir sem gætu hugsanlega komið til greina, drífa upp auglýsingu og fá það svo á hreint beint frá húsaeigendum hvort húsin tvö séu í alvöru farin. Hver veit !?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

þú finnur draumahúsið á réttum tíma .... ég var nú aldeilis ekki á leiðinni að kaupa íbúðina mína þegar ég labbaði hérna inn, vildi bara dæma hvað væri að henni fyrst hún var svona mikið ódýrari en íbúðin sem ég hafði valið mér ....
elska þessa íbúð í dag og gæti ekki hugsað mér að búa á hinum staðnum lengur
einnig gekk mér illa að eignast þessa íbúð því fyrrum makinn var að trufla fjármálin mín, en þrátt fyrir mikla sölu í eignum þá biðu fyrri eigendur bara eftir mér svo mér var greinilega ætluð þessi eign.
kannski klikkar eitthvað í sölu annars hússins sem þig dreymir um svo tékkaðu betur á þeim

Rebbý, 19.5.2008 kl. 23:39

2 Smámynd: Sporðdrekinn

Þetta kemur allt á réttum tíma. Á meðan að þú veist hvað það er sem að þú villt þá kemur það. Vertu bara pínu þolinmóð  og ekki afskrifa neitt án þess að skoða.

Knús

Sporðdrekinn, 20.5.2008 kl. 01:39

3 Smámynd: Fiðrildi

Mundu að húsið/íbúðin er ekki það sem skiptir mestu máli heldur andinn, ástin og lífið sem í því bærist.

Fiðrildi, 21.5.2008 kl. 15:42

4 Smámynd: Ein-stök

Þakka ykkur öllum, elskulegu stelpur  

Ég er að reyna að halda aftur af óþolinmæðinni og segja sjálfri mér að þetta komi þegar það á að koma. Ég átta mig á því þegar þar að kemur hvað mér er í raun ætlað í þessum málum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég fæ ekkert endilega alla mína drauma uppfyllta en það er samt nauðsynlegt að trúa á þá. Eins og vitur maður mælti forðum; ef ég vildi fá 400.000 fyrir bílinn minn þá set ég ekki 400.000 á hann því það er öruggt að boðið verður lægra en það.. þess vegna set ég 600.000 á hann. Kannski skrítin samlíking en ég held að þið skiljið hvað ég er að fara

Ein-stök, 21.5.2008 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband