18.5.2008 | 03:23
Kynlíf
Einhverra hluta vegna hefur kynlífsumræða skotið upp kollinum hjá bloggvinum mínum undanfarið, þ.e. hjá Sporðdrekanum og Júdasi, og það ýtti við mér að skrifa þetta. Ég hef verið að hugsa um það undanfarna daga hvað ég sakna þess að eiga svona stundir með einhverjum sem maður elskar og treystir. Ástríða, nánd og vellíðan. Hlakka mikið til að upplifa þetta aftur. Nú verður kannski einhver hneykslaður á því að ég sé að velta þessu fyrir mér, konan sem er ekki einu sinni skilin að borði og sæng lagalega og Maðurinn ekki fluttur út..! En þó við deilum rúmi ennþá að miklu leyti þá er LAAANGT síðan nokkur nánd og snerting hefur verið í gangi á milli okkar. Svo langt reyndar að ég efast um að flestir sem telja sig hafa eðlilega kynlöngun myndu sætta sig við það. Ég fæ a.m.k. þau viðbrögð frá vinkonum mínum sem ég hef opnað mig við um þessi mál. Og fyrst að ég er að blaðra þetta út á netið þá kannski getið þið giskað á að áhugaleysið hefur ekki verið mín megin. Áhugaleysi Mannsins á þessu sviði varð til þess að ég fylltist miklu óöryggi og sjálfsálitið var orðið ansi dapurt. Þegar ég varð ástfangin fyrir 3 árum breyttist sú líðan algjörlega. Fyrir þá sem ekki hafa lesið allt sem ég skrifa þá skal taka það fram að ég stóð EKKI í framhjáhaldi og í dag sé ég að ástæðan fyrir því að ég varð ástfangin var fyrst og fremst sú að sambandið var svo ófullnægjandi (á fleiri vegu en einn) að mig var farið að hungra í það sem vantaði. En semsagt það að verða svona innilega ástfangin varð til þess að mér fór að líða betur með sjálfa mig og fékk einhvern veginn kjarkinn til að brjótast út úr skelinni. Í kjölfarið breytti ég ansi miklu í lífi mínu og fór að taka meiri þátt í ýmsu sem ég hafði smá saman útilokað. Ég fór að hitta vanrækta vini, fór að hreyfa mig meira (og hafa ánægju af því), fór almennt að hugsa betur um mig og njóta þess, flutti, byrjaði í nýrri vinnu, eignaðist nýja vini.. og þannig mætti lengi telja. Á sama tíma reyndi ég að ýta við Manninum og fá hann til að vinna með mér í að laga það sem aflaga hafði farið í okkar sambandi.
Þetta er nú orðið mun lengra en ég ætlaði mér og sjálfsagt ekki eins krassandi skrif og sumir hafa haldið (vonað) miðað við titilinn á færslunni. En þó ég hafi upplifað aukið sjálfstraust og betri líðan með sjálfa mig á síðustu árum þá finn ég ennþá að ég á langt í land með að græða sárin. Ég finn að ég hef ekki mikla trú á að einhver "vilji mig" og hef t.d. bent vinkonum mínum á að það reyni aldrei nokkur við mig þó ég fari út á lífið. Það á því líklega eftir að taka mig tíma að öðlast kjark og trú á að kynlíf sé eitthvað sem ég eigi "skilið". Og hananú. Þá er ég búin að létta því af mér. Kannski vakna ég upp í nótt (sem er víst að verða morgunn), sé eftir öllu saman og stekk í tölvuna til að þurrka færsluna út. Sjáum til
Athugasemdir
Þar sem að ég hef svo óendanlega gaman af að tala um og njóta kynlífs , þá ætla ég að flýta mér að setja inn athugasemd áður en að þú strokar þetta út
Gott kynlíf er eitthvað sem að mér finnst að allir eigi að hafa (bara svona ef að ég hef ekki komið því nógu skírt fram á mínu bloggi ). Ég gekk í gegnum það sama og þú einu sinni, þar að, maðurinn minn var áhugalaus. Ég veit núna að það var vegna þess að hann var sjálfur einstaklega óánægður með sjálfan sig og þunglyndur. En þá fann ég bara til höfnunar, "Er ég svona ógirnileg? Er kynlífið með mér svona ömurlegt?" Þessum spurningum og fleirum velti ég fyrir mér fram og aftur. Þegar að við byrjuðum okkar samband og alveg þar til að ég varð ófrísk lifðum við GEÐVEIKU kynlífi, namm hvað það var gaman! Og þess vegna skildi ég bara ekki þennan kulda í manninum.
Við gengum í gegnum marga hluti og svo.... namm hvað það var gaman aftur
Eins og þú veist þá hef ég verið og er að ganga í gegnum svipaða hluti og þú. Ég brotnaði alveg niður og fannst ég ógirnileg aftur. En veistu hvað ég gerði? Ég er enginn tepra og skelli þessu bara hér inn. Ég fór að stunda sjálfsfróun, já það er enginn annar til að láta mig finna unaðinn af fullnægingu svo að ég geri þetta bara sjálf. Nei það er enginn rómantík, enginn ástaratlot og öryggis faðmlög, enginn hvíslar að mér "Vó! Þetta var magnað". En mér líður samt betur. Ég hef verið mjög virk í ræktinni og það ásamt efnasamböndunum sem leiðast úr læðingi við fullnægingu, láta mig glóa. Ég er ekki vön að tala mikið um þá ath sem að ég fæ (já veit að ég gerði það nokkrum sinnum á blogginu mínu en það var eftir að allt fór að breytast). Mér fannst óþægilegt að finna fyrir augum annarra manna á mér en mínum. Núna... ég eiginlega þrífst á því. Ég veit hégómar og allt það, en það fyllir mig samt af sjálfsöryggi að finna þessa ath sem að ég fæ.
Og ég er sannfærð um það að helmingurinn af þessu öllu er af þvi að ég fullnægð. Nei ekki andlega og líkamlega gæti þetta allt verið skemmtilegra, en ég er ekki uppþornuð, ég veit það og aðrir sjá það.
Svo elsku krúsin dúllu snúllan mín, stundaðu það Það kemur maður á eftir þennan mann (eða sá sami aftur) og þá kemur allt hitt. En þangað til..... You know what to do
Sporðdrekinn, 18.5.2008 kl. 04:04
vá hvað ég er sammála sporðdrekanum .... reddaðu þessu sjálf.
ég byrjaði á að fara og leika mér með einhverjum strákling út í bæ án þess að hafa áhugann á honum (nema fyrir kynlífið) og það er ekkert sem gerir mann eins tómann og einmanna eins og kynlíf án tilfinninga (mín reynsla allavega)
þetta með að enginn reyni við þig þegar þú kíkir á lífið þarf ekki endilega að vera satt, maður er bara misjafnlega vel vakandi þegar að þessu kemur.
ég sat fyrstu mánuðina og kvartaði yfir þessu við besta vin minn sem benti mér svo bara á að þó ég sæti ein með honum í sófa (já hann er karlkyns) þá kæmu strákar alveg óhikað að spjalla við okkur og daðra en ég tók þessu bara sem hressum strákum.
þeir hefðu sennilega þurft að vera aðeins augljósari til að ég tæki eftir þeim
Rebbý, 18.5.2008 kl. 10:09
Vá stelpur hvað þið eruð duglegar að skrifa mér Sé strax að ég hef ekki sagt nógu vel frá, því það er strax þrennt sem ég þarf að koma að. Við löngum athugasemdum kemur langt svar:
1. Ég var reyndar ekkert að lýsa því í færslunni en sjálfsfróun er orðið "my middle name" eins og þeir segja á engilsaxneskunni. Ég var eiginlega búin að drepa eigin þarfir og langanir niður þangað til Ástin hitti mig fyrir og síðan þá hef ég bara séð alveg ljómandi vel um þetta sjálf Einmitt eins og Rebbý lýsir þá hef ég engan áhuga á að fá einhvern uppí til mín sem ég hef engar tilfinningar til, BARA til að stunda kynlíf enda er hætt við að slík tilraun yrði frekar sorgleg. Ég man eftir slíkum tilfellum síðan í "fyrndinni" áður en ég hitti Manninn. Þannig að Sporðdreki góður, sjálfsfróun hefur verið stunduð villt hér og eins og þú lýsir þá finnst mér það og hreyfingin í ræktinni hafa gert mér rosalega gott hvað varðar sjálfsálitið.
2. Ég verð að viðurkenna að ég var nýbúin að gera uppgötvun varðandi þetta með "viðreynslurnar" á djamminu. Síðast þegar ég fór út með tveimur góðum vinkonum mínum þá hreinlega lýsti ég því yfir áður en við fórum að ég væri rugluð að fara með þeim því ég hefði alltaf þessa vanmáttartilfinningu gagnvart nærveru þeirra. Að það tæki enginn eftir mér þegar þær væru við hliðina á mér. Mjög ósanngjörn og leiðinleg yfirlýsing fyrir þær og ekki einu sinni sönn því eftir að hafa farið með þeim á ball þar sem þær enduðu í vangadansi en ekki ég þá fór ég að hugsa þetta upp á nýtt og vera hreinskilnari við sjálfa mig hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi þá fór ég á staðinn með því hugarfari að það yrðu þær en ekki ég sem myndu fá athyglina og mér varð að ósk minni! Ég fór fyrirfram ákveðin í því að ég myndi ekki eiga séns og auðvitað varð það þá þannig. Málið er náttúrulega að ég hef í alvöru engan áhuga á því að láta reyna við mig eins og staðan er í dag, þó aðdáun og hrós sé alltaf gott fyrir egóið. Ég er bara ekki komin á þann stað í lífinu ennþá að ég sé til í þennan pakka aftur. Svo má líka geta þess að ég kem úr nógu litlu samfélagi til þess þess að flestir "á lífinu" vita að ég er gift og "off limits" og sú frétt að ég sé að skilja hefur örugglega ekki breiðst út ennþá. Þannig að af hverju í ósköpunum ætti einhver að sýna áhuga, þó hann sé til staðar? Og ég með rauðu ljósin á!
3. Það er ýmislegt sem Sporðdrekinn segir sem minnir á mína upplifun. Þessi hugsun; "er ég svona óspennandi" og þar fram eftir götunum. Þunglyndi kom líka inn í myndina hjá Manninum og mjög líklega lítið sjálfstraust líka. Aftur á móti er þetta tímabil orðið heldur langt hjá okkur og ég hef reynt að ræða þetta oft og mörgum sinnum en án árangurs. Hann sýnir ekki neinn áhuga og enga löngun til að vinna í málunum. Núna eftir að við ákváðum að skilja þá bað ég hann um að gera sjálfum sér þann greiða að leita til einhvers sem hann gæti virkilega talað við og opnað sig um þessa hluti sem aðra. Ég get ekki gert meira því ég sé ekki viljann hjá honum og það er fyrst og fremst það sem ég vil sjá; viljann til að vinna í málunum með mér. Hann virðist bara sáttur við ekkert kynlíf því hann varð t.d. bara hissa þegar ég benti honum á að það hefðu liðið 3 ár án þess að nokkuð gerðist á milli okkar.
Sporðdrekinn lýsir þessu rosalega vel og ég er ekki alveg búin að hrista þessa tilfinningu af mér að það sé bara eitthvað að mér og að þetta sé í alvöru allt mér að kenna á einhvern hátt.
Ein-stök, 18.5.2008 kl. 11:00
Það er ekkert að þér elsku kellingin mín. Það er engin leið fyrir okkur að breyta eða bæta aðra. Við getum eitt mörgum árum (láttu mig vita það) í að reina að gera einhvern hamingjusaman, en málið er að enginn getur gert annan hamingjusaman. Við getum verið hamingjusöm þegar að við erum með einhverjum en það erum við en ekki hann/hún sem gerir okkur hamingjusöm. Sá sem er sáttur við sjálfan sig er mun líklegri til að verða hamingjusamur en sá sem að lítur niður á sjálfan sig.
Svo núna er bara að vinn í sjálfsöryggi, finndu þetta sjálfsöryggi sem að þú fannst fyrir 3 árum. Gerðu hluti sem láta þér líða vel, ræktaðu líkama og sál. Horfðu á þessa fallegu konu í speglinum og segðu henni hvað hún er falleg, flott og sexí. Labbaðu svo um með öryggi, berðu höfuðið hátt og hreyfðu mjaðmirnar, þú munt fá ath
Njóttu dagsins!
Sporðdrekinn, 18.5.2008 kl. 15:56
Jæja mín kæra ég ætla að stimpla mig inn í þennann hóp líka. Ekki gaman að upplifa þetta en það gerist samt og hjá fleirrum en mann grunar. Það er jú fyrsta einkennið eða eitt af þeim fyrstu um að eitthvað sé að þegar "kynlífið" er dautt. Áhuginn farinn. (hjá öðrum aðilanum) jamm þekki það. Eins og ég sagði í upphafi minna kommenta þá hafði ég ekki val. Hann ákvað þetta og ég varð að taka því. Ég var blind eins og vill verða og vildi ekki kingja því að eitthvað væri að ja nema að ég hliti að vera svona glötuð. Og reyndi eins og Rjúpa við staur. En ekkert gekk og "Nammidagarnir" urðu færri og færri. Hann alltaf eitthvað annað að gera og fara og ....... já ekki í boði nema einvera. Samt lét maður hafa sig út í að flytja og fjárfesta (hélt virkilega að það myndi bæta allt og laga) piff.... einmitt !!! Ónei aldeilis ekki.
Skil þessa hugsun þína vel. En vittu til það er einhver þarna úti sem er einmitt að bíða þín. Hann kemur eflaust þegar þú átt síst von. Það eiga allir skilið ást og hlýju. Og yndislegt kynlíf.
Knús og kram á þig og við erum greinilega margar sem skiljum þig vel.
Ókunnuga konan (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 18:28
ÞÚÚÚÚSUND ÞAKKIR elskurnar mínar. Það er svo notalegt að lesa þetta frá ykkur. Þetta frá Sporðdrekanum um finna sjálfsöryggið, horfa á fallegu konuna í speglinum og segja henni hvað hún er falleg, flott og sexí. Ætla að æfa þetta strax í fyrramálið. Og svo þetta frá Ókunnu konunni um að einhver þarna úti bíði mín og að allir eigi skilið ást, hlýju og kynlíf Hljómar vel. Ekki gleyma því stelpur að þið eigið þetta líka skilið og.. það er skylda að láta okkur hinar vita þegar viðkomandi "ástmögur" bankar uppá
Stórt knús og kreist á ykkur
Ein-stök, 19.5.2008 kl. 01:18
Ég er að vinna í þessu, læt ykkur vita
Sporðdrekinn, 19.5.2008 kl. 01:58
tilkynningaskylda komin á mannskapinn ..... allar að bíða sýnist mér
Rebbý, 19.5.2008 kl. 08:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.