16.5.2008 | 23:41
á hraða snigilsins
Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér og þá finn ég fyrir pirringi gagnvart því hvað hlutirnir ganga hægt varðandi skilnaðinn. Maðurinn hefur verið hér alla vikuna. Dálítið skrítið ástand því ég finn svo vel á honum að hann lítur eiginlega ekki á þetta sem heimili sitt lengur. Hann hálf-lufsast hérna um og mér finnst hann eiginlega bæði kærulaus um hlutina og ganga illa um Svo sit ég uppi með sektarkennd yfir að tuða (ef ég geri það) og fyrir að hugsa svona því ég er svo lítið heima og er því ekki að sinna heimilinu heldur. Sem betur fer er þetta með vinnuna bara tímabundið ástand og ég á að geta stýrt henni betur í framtíðinni. Ég verð að viðurkenna að á síðustu árum hef ég átt það til að láta vinnuna gleypa mig svolítið, því það hefur alltaf verið eitthvað sem ég hef ráðið við á meðan mín biðu vandamál heima sem ég virtist ekkert geta gert við (NOT for lack of trying). Ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég tók ákvörðun um ráðgjafann á sínum tíma var sú að ég fann að ég var farin að fjarlægjast börnin mín Sem betur fer hef ég fundið mikinn mun á því núna síðustu mánuðina. Sérstaklega gagnvart Dótturinni því við erum miklu nánari og hún er farin að gera kröfur á að eiga stelputíma í friði fyrir bróður sínum. Það er gott og blessað og við höfum haft tækifæri til að láta slíkar óskir rætast. Ég hugsa samt að það sé kominn tími á að huga að Syninum líka. Held að við þurfum bæði á því að halda þó hann hafi ekki fundið það hjá sjálfum sér að gera kröfu á slíkt.
Ég er komin með nafn á góðum og traustum ráðgjafa til að ræða við um peningamálin. Nú þarf bara að finna tíma til að koma á fundi okkar á milli. Með ábendingunni um ráðgjafann fylgdi spurning um hvort við værum búin að fá okkur lögfræðing. Ég verð að viðurkenna að ég hafði bara ekki hugsað út í að þess þyrfti. Fram að þessu hefur enginn bent okkur á það - hljómar það heimskulega?
Athugasemdir
Það getur bara ekki verið gott né hollt fyrir ykkur að búa enn á sama heimili. Ég skil ykkur bæði, þig þó betur. Þetta er enn "þitt" heimili en Maðurinn þarf að slíta sig frá því andlega þó að hann búi þar enn.
Æ það er svo gott að vera einn á einn með börnunum sínum, ég geri því miður allt of lítið af því. Það er bara einhvernvegin eins og þau séu önnur börn þegar að þau eru bara ein. Ja, allavega eru mínir ungar þannig, mér finnst auðveldara að vera bara með einum í einu. Að þurfa ekki að skipta mér, vera bara með 100% ath á þann sem að ég er með.
Það er kannski ekkert svo vitlaust að hafa lögfræðing, það er aldrei að vita hvað getur komið upp á. Þó svo að maður búist alltaf við og voni að allt fari réttu leið án leiðinda.
Knús
Sporðdrekinn, 17.5.2008 kl. 02:55
Betri og skipulagðari tími með börnunum er það sem verður. Þjappar ykkur saman og það styttist í þann dag sem þú vaknar kvíðalaus og finnur værðina.
Vertu þorlinmóð í biðinni mín kæra!
Júdas, 17.5.2008 kl. 08:24
Ef þú vilt að hlutirnir gangi vel, og ekki síst lagalega rétt, í gegnum skilnaðarprósessin þá ráðið þið ykkur lögfræðin til að gæta hagsmuna ykkar beggja í því sem snýr að veraldlegum hlutum.
... eina skilyrðið er að hafa efni á að borga fyrir þá vinnu.
Vinna lögfræðinga er nefnilega ekki ódýr. En það má réttlæta þann kostnað á þeim forsendum að það eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir ykkur bæði.
Gangi ykkur vel ...
Gísli Hjálmar , 17.5.2008 kl. 10:04
Sporðdreki: Það er alveg rétt, eins og áður er komið fram, að þessi sambúð flækir málin eins og staðan er. En það er farið að sjá fyrir endann á því. Þó Maðurinn sé ekki kominn með annað húsnæði, þá hefur hann húsaskjól í "hinum bænum" og þar fer hann að vinna núna þegar skólanum hans lýkur. Ég er að vona að við finnum okkur bæði húsnæði á svipuðum tíma því mér líst illa á að sitja hér í hálftómri íbúð ef hann tekur sitt hafurtask áður en ég flyt. Og í sambandi við lögfræðinginn þá held ég einmitt að þetta sé málið; maður vill trúa á að hlutirnir geti bara farið fram í góðu og allt sé slétt og fellt. En mannsskepnan er nú einu sinni þannig gerð að ef eitthvað kemur uppá þá lætur ótrúlegasta fólk hart mæta hörðu og allt getur farið í leiðindi. Líklega réttast að setja lögfræðing í málið svo allt sé á hreinu.
Takk kæri Júdas. Ég trúi líka á að sá dagur renni upp og reyni að bíða hans þolinmóð.
Rétt er það, Gísli, lögfræðingavinna er víst ekki alveg gefins þó hún gæti reynst nauðsynleg við þessar aðstæður. Takk fyrir góðar kveðjur.
Ein-stök, 17.5.2008 kl. 14:39
alveg sama hvað þið leggið upp með miklum vinskap og sáttum þá er best að hlutlausir aðilar (lögfræðingar) sjái um fjármálin því seinna getur hlaupið á snærið og þá er fínt að vera öruggur með þetta.
gott að þið dóttirin eruð að eiga gæða stundir bara tvær saman, kemur að guttanum síðar.
Rebbý, 17.5.2008 kl. 23:46
Takk Rebbý mín. Já það er örugglega best að hafa sem flest af þessum málum skjalfest og lagalega á hreinu svo maður hafi backup ef eitthvað kemur uppá seinna meir. Vinkona mín var einmitt að benda mér á það að ég gæti t.d. hugsanlega staðið frammi fyrir því að Maðurinn næði sér í konu sem færi að fetta fingur út í eitthvað sem okkur þykir gott og blessað í dag. Auðvitað yrði það vandamál þó hlutirnir væru ekki á blaði sem skriflegur samningur en slíkur samningur yrði þá mikilvægt plagg til að viðhalda samkomulaginu og erfiðara að brjóta gegn því.
Ein-stök, 18.5.2008 kl. 02:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.