12.5.2008 | 00:45
Áframhaldandi hreinsunarbrjálæði
Vaknaði svona líka sperrt og fersk í morgun og stökk framúr til að elda hafragraut Leið eins og einhver hefði gefið mér vítamínsprautu í rassinn
Eftir að hafa spólað í gegnum nokkur "hefðbundin" heimilisstörf, eins og að skella í þvottavél, vaska upp, búa um og annað þess háttar, tók fjörkálfurinn í mér völdin svo um munaði þegar ég tók til við bílaþvott! Sá bílaþvottur var nú kannski ekki alveg eins nosturslegur eða nákvæmur og baðherbergistiltektin í gær en ég þvoði bílinn að utan, ryksugaði vandlega, henti öllu rusli og strauk yfir mælaborð og hurðir að innan. Semsagt ekkert bón (reyndar ekki þörf á því heldur) og engin tannstönglaherferð í þetta skiptið en bíllinn var alveg dásamlega hreinn og ilmandi á eftir.
Fermingarveislurnar gengu eins og í sögu. Ég dressaði mig m.a.s. upp í flík sem ég hefði ekki trúað fyrir viku síðan að ég myndi klæðast. Ég hef geymt viðkomandi flík inni í skáp sem hálfgert langtímamarkmið því ég sá fyrir mér að ég þyrfti að léttast og stæla ákveðna vöðva áður en ég gæti skartað henni en í dag var sjálfsálitið í blússandi plús svo ég lét vaða. Ég fann m.a.s. skartgripi sem pössuðu svona glæsilega við og leið bara alveg eins og drottningu þegar ég lagði af stað í fermingarveislurnar. Ég naut dagsins að flestu leiti. Hitti marga sem ég hef ekki hitt lengi og náði að spjalla við marga áhugaverða og skemmtilega gesti. Ég fann samt fyrir því að mér þótti óþægilegt þegar fólk spurði spurninga sem snertu Manninn. Það er ekki alltaf við hæfi að snúa samræðum upp í "veistu.. ég get bara ekki svarað því af því að við erum að skilja!", sérstaklega ekki þegar maður er að spjalla við fólk sem maður þekkir bara lítillega. Svo kom Maðurinn og börnin fögnuðu honum, fjölskyldan mín tók honum hlýlega og mér leið - enn og aftur - einsog ég væri persóna í vitlausu leikriti. Það kemur annað slagið yfir mig þessi fáránlega tilfinning um að þetta sé bara einhver vitleysa í MÉR og að með því að taka þetta skref til fulls sé ég að skapa öðrum óhamingju og vansæld.
En ég ætla ekki að dvelja við þær hugsanir núna. Ég er orðin alltof þreytt eftir langan dag og þá er hætt við að hugurinn leiti í rangar áttir. Ég ÆTLA mér að halda í jákvæðan hugsunarhátt og trúna á að ég eigi skilið það sem ég þrái.
Athugasemdir
Þú átt skilið það sem að þú þráir fallega drottning
Ekki láta neinn telja þér trú um annað, ekki einu sinni sjálfa þig 
Sporðdrekinn, 12.5.2008 kl. 03:23
ahh var of fljót að skella puttanum á "Enter"
Til hamingju með að vera mamma
Sporðdrekinn, 12.5.2008 kl. 03:24
Þú stendur þig vel.
Láttu þer þykja vænt um sjálfan þig, en búðu þig samt undir sjálfs niðurrif af og til. Það líður hjá.
Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 11:47
Takk kærlega sætu konur
Það er örugglega rétt hjá þér Unnur að svona niðurrif á eftir að sækja á mann af og til á næstunni - gott að vera á varðbergi gagnvart því 
Ein-stök, 12.5.2008 kl. 15:45
Hafðu það gott vinan,þú ert sterkari en þú heldur..
Agnes Ólöf Thorarensen, 12.5.2008 kl. 17:27
Knús til þín. Vegna anna verður lítið um komment frá mér á næstunni en ég sendi þér hugskeyti mín kæra. Gleymi þér ekkert sko. Kveðja úr sveitinni.
Ókunnuga konan (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 17:30
já þú ert aldeilis búin að vera dugleg í þrifunum, vildi að ég hefði smitast eftir lesturinn
en þú mátt alveg búast við svona hugsunum af og til því þú ert að læra að lifa nýju lífi (ef svo má kalla það) ótrúlega mikill munur á að vera einhleypur eða partur af hjónunum sem maður þekkti orðið svo vel
Rebbý, 12.5.2008 kl. 22:43
Takk fyrir Agnes
Gangi þér vel í þínum önnum mín kæra Ókunnuga og ég hugsa til þín líka
Nei Rebbý ég er greinilega ekki nógu smitandi - eða öllu heldur þrifnaðaræðið mitt er greinilega ekki nógu smitandi eða grípandi. Og já.. þetta er svo sannarlega nýtt líf og ég hef í raun bara fengið smjörþefinn af því fram að þessu þar sem Maðurinn er ekki endanlega fluttur út og svo margt sem á ennþá eftir að ganga frá okkar á milli.
Ein-stök, 12.5.2008 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.