26.3.2008 | 14:44
Veikindi
Flensufjandi hefur sest að í kroppinum og gerir mér lífið heldur betur leitt þessa dagana. Ég hef oft orðið fyrir því að þegar álagi léttir og ég fer að slaka á aftur að þá veikist ég. Það kemur því ekkert verulega á óvart að þessum óþverra hafi skotið upp núna. Ég held hreinlega að ég hafi aldrei orðið svona hundveik af flensu á lífsleiðinni. Búin að vera hálfrænulaus og voðalega lítið getað gert til að bæta líðanina.
Maðurinn ætlaði að vera hjá ættingjum í nokkra daga en þau plön breyttust vegna minna veikinda. Ég er hreinlega ekki fær um að hugsa um börnin, get ekki sótt þau, farið í búð, eldað mat. Skrýtin tilfinning að sitja fastur í sömu sporum þegar búið er að taka svona stóra ákvörðun.
Ég veit ekki um aðra en ég er a.m.k. þannig að þegar ég er veik þá verð ég viðkvæmari en ella. Ég hefði því búist við að undir þessum kringumstæðum hefði ég auðveldlega getað sökkt mér í "hvað ef" pælingar, rótað í gömlum minningum og jafnvel komist á "við hljótum að geta lagað þetta"-stigið. Það hefur samt ekki gerst. Aftur á móti finn ég strax fyrir því að Maðurinn er svo sannarlega skilinn við mig og gott ef hann er ekki huglægt fluttur út því hann er hættur að umgangast mig eins og konuna sína og hættur að umgangast heimilið eins og sitt. Ég hef m.a.s. þurft að minna hann á að sinna börnunum og er hann þó ekki týpa sem vanrækir börnin sín. Ég skynja semsagt hjá honum spenning fyrir nýrri byrjun en mitt ástand býður náttúrulega ekki upp á slíkar pælingar hjá mér. Viðkvæmnin braust samt út um tíma í gærkvöldi þegar hitinn rauk upp og mér leið skelfilega. Þá fannst mér ég vera lítil, viðkvæm og umkomulaus og vildi svo gjarnan að einhver tæki utan um mig og sýndi mér væntumþykju og umhyggju.
Maðurinn var hins vegar upptekinn við að skoða fasteignaauglýsingar.
Athugasemdir
Ein, mér verður svo illt í hjartanu bara við að pikka inn notendanafnið þitt. Orðið "ein" er svo rosalega sárt.
Hérna:
Þá fannst mér ég vera lítil, viðkvæm og umkomulaus og vildi svo gjarnan að einhver tæki utan um mig og sýndi mér væntumþykju og umhyggju.
Maðurinn var hins vegar upptekinn við að skoða fasteignaauglýsingar.
Fór ég að gráta. Ég þekki sársauka þinn að einhverju leiti, allavega nóg til þess að vilja troða mér í gegnum skjáinn, taka þig í faðm minn og segja þér að þú sért ekki ein.
Ég vona að flensan sé að yfirgefa líkama þinn, svo að þú þurfir ekki að glíma við líkamlega þreytu og vanlíðan ofan á þá andlegu.
Í huga mínum sendi ég þér, ljós í hjarta
Sporðdrekinn, 28.3.2008 kl. 02:36
Takk kærlega fyrir það elsku Sporðdreki
Ég táraðist þegar ég las kommentið frá þér. Ótrúlegt hvað það er gott að finna svona skilning frá öðrum, þó það sé í gegnum samskipti á netinu, og hreinlega finna samhuginn, knúsið og hughreystinguna.
Ég var í smá basli við að velja mér notendanafn og var þá m.a. búin að láta mér detta til hugar að nota stjörnumerkið mitt eins og þú gerir en hætti við það bæði vegna þess að mitt hljómar alls ekki eins flott og spennandi eins og Sporðdrekinn t.d.
og hins vegar vegna þess að mér hefur aldrei fundist mitt stjörnumerki mjög lýsandi fyrir mig. Ég er fædd á fyrsta degi þess merkis og skv stjörnukortinu mínu er ég ansi mikil blanda af mörgum merkjum, þ.á.m. Sporðdrekanum 
Ein-stök, 28.3.2008 kl. 14:43
Hver veit nema að þú bætir einhverju við notandanafnið þitt þegar að þú ferð að styrkjast td:
Ein_sú_flottasta eða Ein_sem_getur_allt.
En það sem að ég vildi að þú vissir er að þú ert ekki ein.
Ég valdi mitt þegar að ég var í stríðshug
Sporðdrekinn, 28.3.2008 kl. 15:51
Hehe. Þetta hljómar vel
Hver veit hvað manni dettur í hug með hækkandi sól (andlega).
Ein-stök, 28.3.2008 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.