ein

Tætingur

 

Í gær byrjaði ég á rosalegri geymslutiltekt. Sú byrjun fólst að mestu í að týna út úr geymslunni kassa, poka og ýmislegt dót og setja það í hrúgur. Ein hrúga sem tilheyrði börnunum, ein hrúga með útilegudóti, ferðatöskum, gestasængum og gestarúmi, ein með öllu sem tilheyrir jólunum o.s.frv. Eftir að hafa útbúið þessar fallegu hrúgur á gangi og holi ákvað ég að hvíla mig á geymslutiltektinni.

Næst dró ég fram gömlu garðsláttuvélina sem faðir minn lánaði mér í fyrra (löng saga en ég hef ekki átt garð til að slá ansi lengi hence engin sláttuvél til í minni eigu) og fór að berjast við að koma henni í gang. Það gekk illa. Maðurinn kom á þessum tímapunkti með Soninn og hann fór að berjast við sláttuvélina með mér. Eftir mikil átök og fikt, bættum við bensíni á hana og nokkrum átökum seinna fór dýrgripurinn í gang. Ég spændi svo um garðflötina og lauk slætti á nýjum mettíma. Æddi síðan alla leið inn á baðherbergi áður en ég áttaði mig á útganginum á mér en það var hægt að rekja grasslóðina eftir mig frá útihurð og að baðkari. Ég var orðin svo þreytt á þessum tímapunkti að ég fór bara beint úr sturtunni í náttfötin og leyfði grasinu að vera á gólfinu.

Dagurinn í dag hefur síðan farið í fasteignabras, atvinnupælingar fyrir systur mína, námskeiðabrölt með barni, gestagang (leikfélagar barnanna sem þurfti líka að sinna), símhringingar... púff man ekki meir. En á þeim stundum sem ég hef náð að anda hef ég fundið fyrir yfirþyrmandi þreytu. Hvort sem um er að kenna litlum svefni, streitu dagsins eða fáránlegu mataræði - líklega bara blanda af öllu þessu. Hrúgurnar góðu skreyta ennþá ganginn og grasið hefur þyrlast skemmtilega yfir þær þar sem ég dr... ekki til að sópa það upp áður en börnin fóru að þeytast um öll gólf, grasið liggur enn órakað á lóðinni því ég hafði engan tíma til að hirða það í dag (svo var líka óhuggulega kalt og óspennandi í dag - afsökun, ég veit) og fyrir utan dyrnar liggja pokar sem eiga að fara í endurvinnslu og fatasöfnun rauðakrossins. Glæsilegt..? Ég er ekki alveg búin ennþá.

Í dag lá leið mín framhjá barnaskóla staðarins og út hljóp starfsmaður skólans til að láta mig vita að þar væri ennþá allur afrakstur Sonarins eftir veturinn Blush Maðurinn var jú með börnin þegar skóla lauk þar sem ég var í útlandinu og ég man eftir að hann talaði um að hann þyrfti að ná í þetta en ég var alveg sofandi fyrir því að það hefði aldrei gerst. Sonurinn er afkastamikill teiknari svo þetta reyndist þó nokkurt magn af ýmiss konar pappír sem myndaði nýja hrúgu þegar heim kom. Um kvöldmatarleitið kom vinur Sonarins í heimsókn og þeir ákváðu að rifja upp minningar vetrarins þannig að núna liggur afraksturinn af teikniæði og fjörugu ímyndunarafli drengsins út um öll gólf, yfir grasslóðina og hrúgurnar.

Hugsið ykkur! Hvernig lítur þetta út þegar ég fer að flytja?

Ég er sprungin á því eftir daginn. Henti mér í sófann eftir síðbúinn kvöldmat og hef síðan úðað í mig sælgæti og kóki. Hefði kannski átt að henda mér yfir hrúgurnar á ganginum til að fullkoman lúkkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Þessa vinnu aðferð þekki ég allt of vel  Reyni stundum að afsaka það með því að segja að jú ok ég klára kannski ekki allt 1, 2 og 10 en ég er búin með pínulítið af alveg fullt af verkum  Þetta er samt ekki gott fyrir sálina, manni líður betur þegar að maður hefur lokið einu verki alveg 100%. Þetta veit ég en hef bara ekki lært að vinna svoleiðis

Hugsaðu bara hvað það verður mikið æði þegar að allt dótið er komið á sinn stað Þarf maðurinn ekki að taka eitthvað af þessu dóti með sér

Knús á þig duglega snúlla 

Sporðdrekinn, 16.6.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Rebbý

nákvæmlega eins og sporðdrekinn bendir á ... þarf maðurinn ekki að fara í gegnum þessa kassa hvort eð er og taka með sér sitthvað?
njóttu nú bara þjóðhátíðardagsins með börnunum í skrúðgöngu og spjalli

Rebbý, 17.6.2008 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband