ein

Tíu ára krísa!?

Ég er farin að halda að ég hafi of mikinn tíma til að hugsa þessa dagana. Eða ofvirkan huga. Eða.. kannski er ég að forðast að hugsa um ákveðna hluti og hugsa þá um einskis nýta hluti í staðinn Shocking Þetta er orðið svolítið þvælið.

Það sem ég ætlaði að skrifa um var að ég fór að hugsa um að það gerast alltaf einhverjir stórviðburðir í lífi mínu árið sem ég næ heilum tug. Þegar ég varð tíu ára eignaðist ég yngra systkini. Ég hafði verið "litla barnið" fram að því og það breyttist því ansi margt í mínu lífi við þetta. Þarna byrjaði eiginlega átakamikið, erfitt en lærdómsríkt tímabil í lífi mínu sem stóð meira og minna næstu 10 árin. Þau ár einkenndust af einelti, sálarflækjum, fyrstu ástinni, fyrstu ástarsorginni, fyrstu kynnum af sorginni (missti á þessum árum afa, þrjár frænkur og vinkonu) og að sjálfsögðu öllum þessum típísku flækjum unglingsáranna. Hormónarnir að flækjast fyrir manni, tilfinningarnar í flækju, verða skotinn í "röngum aðilum", prófa ýmislegt í fyrsta skipti, áfengi, reykingar, kynlíf, keyra bíl... Ég veit að flestir ganga í gegnum mest af þessu á þessum árum en það urðu svo skýr kaflaskil hjá mér þegar ég varð 10 ára.

Árið sem ég varð tvítug varð mér að mörgu leiti erfitt en samt upphafið af góðum tíma. Það var árið sem kærastinn gekk út og ég fékk hreinlega áfall við þá lífsreynslu. Það árið lenti ég líka í bílslysi sem hafði mikil áhrif á líf mitt á þeim tíma. Árin á milli tvítugs og þrítugs voru að öðru leiti ofsalega góð. Á þessum tíma eignaðist ég marga af mínum bestu vinum (tryggustu vinir mínir í dag eru þeir sem ég eignaðist fyrir 10 ára og á milli tvítugs og þrítugs), ég ferðaðist mikið, fór í skemmtilegt nám, bjó erlendis um tíma og það var mjög góður tími, kom heim og fór í vinnu þar sem taumlaus gleði og húmor réði ríkjum (ég var spauglaust með strengi í maganum dag eftir dag af hlátri og á hverjum morgni hlakkaði ég til að fara í vinnuna), kynntist Manninum og undir lokin á þessu tímabili eignaðist ég Dótturina. Það var árið sem ég varð þrítug!

Árið sem ég varð þrítug byrjuðu fjárhagsvandamálin að gera okkur erfitt fyrir. Næstu árin voru óttalegt basl. Barnabasl, fjármálabasl, veikindi náinna ættingja (mjög erfitt), endalausir flutningar, gera upp hús, kaupa fokhelt og klára það, bílabasl, fluttum erlendis og það var bara basl, háskólanám sem var gífurlega erfitt undir þessum kringumstæðum og allan þennan tíma varð samband okkar algjörlega undir í baráttunni. Við ræktuðum ekki sambandið og við sinntum ekki hvort öðru sem skildi. Það má samt ekki gleyma að Sonurinn fæddist á þessum tíma og hann var (og er) mikill gleðigjafi.

Núna er konan orðin fertug. Þetta árið hefur tekið verulega á a.m.k. enn sem komið er og atburðir orðið sem marka þáttaskil í lífi mínu - eins og þegar ég varð 10, 20 og 30 ára. Athyglisvert að þegar ég upplifi jákvæða atburði sem breyta lífi mínu til frambúðar - eins og þegar ég eignaðist systkini 10 ára - þá fylgja erfið ár á eftir en þegar ég upplifi neikvæða atburði (sem líka breyta lífi mínu til frambúðar) þá fylgja góð ár.

Ef reglan er komin til að vera í lífi mínu þá er núna að byrja 10 ára jákvætt tímabil. Ég er að hugsa um að trúa því en ég ætla að gera betur.. ég ætla að halda áfram að hafa jákvætt tímabil eftir að næstu tíu árum lýkur Wink

Í lokin; 10 ára - fæðing systkinis, 20 ára - "skilnaður", 30 ára - fæðing barns, 40 ára skilnaður.. tilviljun? Líklega.. en skrýtið samt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgerður

Skemmtilegar pælingar hjá þér,,,fær mann til að hugsa um tímabilin í lífinu hjá manni sjálfum

Gangi þér vel næsta "jákvæða" tugnum.

Ásgerður , 16.6.2008 kl. 17:00

2 Smámynd: Gísli Hjálmar

Þrælskemmtilega útfærð lífsreynsla í skrifuðu máli.

Gísli Hjálmar , 17.6.2008 kl. 10:33

3 Smámynd: Júdas

Gaman að lesa þessar pælingar...........einstaklega góðar.

Júdas, 29.6.2008 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband