ein

Endalausir útreikningar

Við hittum ráðgjafann varðandi fjármálin. Það var fínn fundur og við eigum örugglega eftir að leita meira til hans á næstunni. Fjármálaráðgjafinn ræddi við okkur um fasteignamarkaðinn (í báðum bæjum), lífeyrissparnað, rekstur bíla og húsnæðis og fleira og fleira. Hann var m.a.s. farinn að gefa okkur ráðleggingar varðandi skilnaðinn almennt og þar sem viðkomandi þekkir svolítið til okkar persónulega þá var það kærkomið og vel þegið. Hann sagðist ekki mæla með því að við leituðum til lögfræðinga. Okkar mál væru ekki það umfangsmikil, né flókin og engin leiðindi í gangi. Við ættum bara að setja niður í samning helstu atriði í skiptum okkar á milli og bara allt sem við kærum okkur um að hafa skjalfest og það ætti að vera alveg nóg. Ég held líka að það sé málið í okkar tilfelli.

Í gær sat ég síðan við tölvuna og reiknaði og reiknaði og spáði og spekúleraði. Síðan ég var síðast að reikna út greiðslugetu mína á ils.is hef ég áttað mig á því að mínar tekjur eru víst ekki bara strípuð útborgunin sem berst inn á reikninginn minn í hverjum mánuði. Ég fer náttúrulega að fá meðlag, með breyttum forsendum breytast barnabætur líka og ef ég kaupi fasteign þá fæ ég náttúrulega vaxtabætur. Allt þetta er eitthvað sem ég var að reyna að reikna mig í gegnum í gærkvöldi og var LEEENGI að því. Ég veit að ráðgjafinn getur hjálpað mér við þetta líka en ég bara þessi týpa sem þarf að vita allt sjálf svo mér fannst það borga sig fyrir mig að reyna að komast sem best inn í þetta á eigin spýtur áður en ég leita aftur til hans.

Svo hef ég haldið áfram að auglýsa og ræða við fólk. Ég skoðaði eina íbúð í dag sem kom á óvart. Ég var fyrirfram neikvæðari gagnvart henni en þeirri sem ég skoðaði í fyrradag og fór m.a.s. ekki til þess að skoða íbúðina, heldur skrapp í smá kaffi. Síðan ég kíkti við í þessari íbúð síðast (um 2 ár síðan) hefur ýmislegt breyst og ég var bara mjög ánægð með það sem hefur verið gert (eða langflest skulum við segja. Þarna eru stór og rúmgóð herbergi, mátulega stór stofa og eldhús, fínn pallur, risabaðherbergi með þvottaaðstöðu og flottu hornbaðkari og úti er geymsluskúr sem myndi henta mér mjög vel (undir grill, skíði, hjól og þ.h.) Mér hefur verið boðið að skoða eitt hús enn og svo veit ég af a.m.k. tveimur öðrum sem ég væri til í að kíkja á. Ekkert þessara þriggja eru á því svæði sem ég vil helst vera á en ég ætla að halda mig við þá ákvörðun að útiloka ekkert fyrirfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Gangi þér vel duglega kona

Sporðdrekinn, 22.5.2008 kl. 03:29

2 Smámynd: Rebbý

flott hjá þér að útiloka ekkert ..... þú finnur réttu eignina að lokum

Rebbý, 22.5.2008 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband